Skip to main content

Pistlar

Æskuvísa Egils hljóðrituð í Kaliforníu í kjölfar kreppunnar miklu – og hljómar nú á netinu

Vegir hinnar munnlegu geymdar eru margir og furðulegir. Fyrir mörgum árum fór ég á sumarnámskeið Norrænu þjóðfræðastofnunarinnar í Turku í Finnlandi og deildi þar herbergi með David A. Taylor frá Amerísku þjóðfræðastofnuninni við Þingbókasafnið í Washingtonborg í Bandaríkjunum. Hann vakti þá athygli mína á því að í hljóðsafni þeirra væri íslenskt efni og spurði hvort ég hefði áhuga á að vita meira um það. Sem ég hafði. Í ljós kom að þar voru segulbandaafrit af efni sem bandaríski þjóðfræðingurinn Sidney Robertson Cowell safnaði meðal Íslendinga í Kaliforníu árið 1938. Söfnunin var liður í miklu stærra söfnunarverkefni vestur þar sem hleypt var af stokkunum í atvinnubótaskyni í kjölfar kreppunnar miklu. Cowell ritaði grein um söfnunina í California Folklore Quarterly 1 (1) 1942 (https://doi.org/10.2307/1495725) og rekur þar stuttlega á bls. 22 að íslenska efnið sé einkum lög við rímur og Passíusálma sem fólk á Íslandi leiksyngi á föstunni í hinum dreifðu byggðum landsins. Þessir söngvar hafi verið hljóðritaðir af Mr. Einarsson, sem sýndi aflraunir árum saman í bandarísku fjölleikahúsi, en faðir hans hafi verið mjög „handsome“ eins og sjá megi af „Stefansson's book about Iceland“. Rímunum lýsir Cowell sem ákaflega flóknum bragfræðiþrautum: „One of the most difficult of which must read the same, syllable by syllable, forward or backward. Others require the reappearance of a given syllable at regular intervals in a four-line verse, which must of course also make sense. Almost no living man can accomplish such difficult feats of improvisation nowadays“. Sigurd Bardarson í Seattle tók upp rímnalög í Carmel, einnig lög sem eddukvæði voru flutt við, og ýmis íslensk þjóðlög sem voru sungin við forníslensk kvæði.

Ljósmynd úr safni Sidney Robertson Cowell.

 Meðal þeirra gersema sem er að finna á þessum upptökum er söngur Oddrúnar Sigurasson „of Reykjavik, Iceland: At Laguna Honda Home, San Francisco, Calif. Icelandic“. Á upptöku AFS 3828 syngur Oddrún meðal annars vísu úr Egils sögu. Um vísuna og sönginn segir í skrám Þingbókasafnsins: „Egill was supposed to have been 4 years old when he made up his song. Mrs. Sigurasson says she made up the tune herself as she recorded the song, but I have an idea this is an old saga tune to which many narrative ballads are sung. 6/18/38 Yes, this is a traditional tune known to other Icelanders.“ Vísan er nær orðrétt eins og í viðurkenndum útgáfum Egils sögu. Aðeins tveimur orðum hefur verið breytt:

Það mælti mín móðir
að mér skyldi kaupa
fley og fagrar árar,
fara í kring með víkingum,
standa upp í stafni
stýra dýrum knerri,
halda svo til hafnar,
höggva mann og annan.

Í stað þess að syngja eins og útgefendur og skrifarar hafa skrifað og prentað hver eftir öðrum: „fara á brott með víkingum“ hefur Oddrún lagað vísuorðið að vesturíslenskri málvenju og kveður: „fara í kring með víkingum“.

Eins og jafnan gerist með þjóðfræðaefni getur það tekið langan tíma fyrir fólk að uppgötva hversu merkilegt og sérstakt það getur verið; efni sem er á allra vörum verður að gersemi nokkrum kynslóðum síðar. Hljóðupptökurnar í Washington eru dæmi um slíkt; afrakstur verkefnis sem stjórnvöld hrintu af stað í kjölfar heimskreppunnar miklu til að koma hjólum þjóðlífsins aftur af stað – og er nú eitt af dýrindum þjóðfræðistofnunarinnar vestra. Hægt er að nálgast vísu Egils og annað efni Oddrúnar hér.

 

Birt þann 22. september 2021
Síðast breytt 24. október 2023