Skip to main content

Pistlar

„Upprunaligast og fornligast“

Seint á 19. öld þegar Jón Árnason safnaði þjóðsögum og ævintýrum til útgáfu voru honum sendar uppskriftir af sögum víðs vegar að af landinu og fékk hann gjarnan mörg tilbrigði við sömu sögu frá mismunandi söfnurum. Jón skrifaðist mikið á við safnarana og í bréfunum var oft rætt um sögurnar og mismunandi útgáfur þeirra. Aftan við sumar sögurnar sem birtast í Íslenzkum þjóðsögum og æfintýrum Jóns Árnasonar er þannig sérstakur undirkafli með „missögnum“ þar sem farið er stuttlega yfir önnur tilbrigði sagnanna en það sem ákveðið var að prenta. Litið var svo á að eitthvað hefði skolast til í áranna rás en ekki voru þó allir alltaf sammála um hvaða tilbrigði væri elst eða réttast. Þegar elsta tilbrigðið var talið fundið, bárust síðan stundum heimildir um jafnvel enn eldra tilbrigði. „Uppruni“ sagna er þannig oft eins konar falskur botn.

Í þjóðsagnasafninu er til dæmis birt sagan um Vilfríði Völufegri, sem er af sömu ævintýragerð og sagan af Mjallhvíti sem birt var í Grimmsævintýrum. Jón Árnason kýs að birta söguna eins og hann heyrði hana sjálfur sem lítill strákur þótt honum bærust nokkur mismunandi tilbrigði og jafnvel heimildir um söguna aftur til 17. aldar. Í riti Jóns „lærða“ Guðmundssonar Um Íslands aðskiljanlegar náttúrur er söguna að finna í töluvert öðrum búningi en þeim sem Jón Árnason þekkti best. Þar skrifar Jón lærði á undan sögunni: „Ein saga gömul hefur hjer i landi til gamans samt öðrum sögð og lesin verið“. Sagan telst þannig gömul um miðja 17. öld og því ekki hægt að segja að tilbrigðið sem birtist í riti Jóns lærða sé upprunaleg útgáfa sögunnar, þótt það sé hið elsta sem fundist hefur í rituðum heimildum á Íslandi.

Ævintýri eru í stöðugri þróun og breytast stöðugt í takt við breytingar í samfélaginu þar sem þau eru sögð. Enn í dag höfum við þó ríka þörf fyrir að leita upprunans og leiðrétta „rangar“ útgáfur sagna. Disneyútgáfur klassískra ævintýra teljast ritskoðaðar glansmyndir Grimmsævintýra og Grimmsbræður eru síðan gagnrýndir fyrir að hafa ritskoðað og breytt sögunum sem þeir söfnuðu. Slík gagnrýni felur í sér að til sé ákveðin rétt útgáfa hverrar sögu. En hvað ef við lítum á allar mögulegar útgáfur sagna sem afsprengi ímyndunarafls okkar og allra þeirra kynslóða sem á undan okkur komu? Það sem tengir sögurnar saman, gamlar og nýjar, er þörf fyrir góðar sögur. Í dag horfum við á kvikmyndir og þætti og lesum skáldsögur sem innihalda oftar en ekki sömu minni og ævintýrin gömlu. Þróun ævintýra stöðvaðist ekki við skrásetningu þeirra á 19. öld heldur höldum við stöðugt áfram að njóta þeirra í gegnum hina ýmsu miðla. Þau lifa enn góðu lífi í nýjum búningi og tengja okkur við horfinn tíma.

Birt þann 8. júlí 2020
Síðast breytt 24. október 2023