Stundum sér fólk þjóðfræðinga fyrir sér á sauðskinnsskóm að gæða sér á þeim mat sem tíðkast á þorrablótum. Þessi ímynd byggist á arfleifð nítjándu aldar og er fjarri þeirri þjóðfræði sem nú er stunduð. Þeir sem koma nærri þjóðfræðum eru að vísu oft áhugasamir um það gamla og glataða í leit að fólki sem ólst upp í torfbæjarsamfélagi síðustu aldar þegar álfar og huldufólk bjuggu í hverjum hól. En sveitasælan á stórum baðstofuheimilum nítjándu aldar er ekki lengur hin eina sanna íslenska þjóðmenning sem þjóðfræðingar geta gert að viðfangsefni sínu.
Þjóðfræði nær yfir miklu breiðara svið en þjóðsögur og ævintýri hjá Jóni Árnasyni og þjóðsagnasöfn sporgöngumanna hans. Hún tekur til alls sem fólk gerir og kennir hvað öðru án þess að til komi formleg menntun í skólum eða á bók: handverks, bæði í hörð og mjúk efni, og alls kyns siða í sambandi við efnismenningu, s.s. matarboð og aðrar samkomur fólks. Verk þjóðfræðingsins er þá að kanna hvenær og hvernig fólk gerir það sem það gerir, hvort sem það er að segja sögur, fara með kvæði, dansa, syngja, skemmta sér eða vinna. Spyrja má af hverjum fólk hefur lært og hvernig sá lærdómur fór fram. Það skiptir líka máli hvort fólk geri sér hugmyndir um tilgang verka sinna í tengslum við trú eða veðurfar og náttúruöfl. Viðhorf fólks til þess sem það gerir er mikilvægt og eins þær aðstæður sem það starfar við.
Rannsóknir þjóðfræðinga felast þannig ekki fyrst og fremst í því að bjarga svokölluðum þjóðlegum fróðleik heldur að kanna lifandi menningu á hverjum tíma og hvernig einstaklingarnir bregðast við henni. Þær snúast um að fá fram heildarmynd af mannlegum viðhorfum og hegðun í félagslegu samhengi. Viðfangsefnið er hinn andlegi menningararfur og efnisleg birtingarmynd hans. Og þar eru verkefnin vitaskuld óþrjótandi og fátt svo ómerkilegt að ekki megi gera úr því rannsóknarverkefni.
Síðast breytt 24. október 2023