Skip to main content

Pistlar

Fleiri rannsóknarefni þjóðfræða

Þulur hafa löngum verið einhvers konar regnhlífar­hugtak yfir ýmsar og oft ólíkar tegundir kveðskapar. Það kann að tengjast því að skilningur og skynjun manna á því hvað þulur eru hefur oft verið mismunandi og sögnin að þylja hefur haft afar mismunandi merkingar, allt frá mjög almennu ‚tala‘, ‚mæla‘ til mun sérhæfari, t.d. ‚kveða‘, ‚tauta‘ eða ‚flytja fræði‘. Þegar í forníslensku virðist þuluhugtakið hafa tengst kveðskap sem þótti einfaldur eða einhæfur með tilliti til byggingar, bragforms eða flutnings; einkum upptalningakenndur eða þá endurtekningagjarn eins og rannsóknir Elenu Gurevich sýna fram á. Þuluhugtakið hafði einnig tengsl við fræði og visku – og þar með við háan aldur flytjanda – og jafnframt óbein tengsl við galdur. Á síðari öldum hefur þuluhugtakið einnig tengst börnum og konum (þótt tengslin kunni að hafa verið ofmetin).

Halldór Baldursson

Þessi fjölbreyttu merkingartengsl þuluhugtaksins hafa stuðlað að því að orðið þula hefur á síðari öldum ekki aðeins verið notað í frumheimildum um þjóðkvæðagreinina þulur síðari alda (eins og hún er skilgreind í doktorsritgerð minni Íslenskar þulur síðari alda). Orðið þulur er einnig notað – í víðari merkingu – um þjóðkvæði sem tilheyra öðrum greinum en þykja hafa „þululegt“ bragform eða innihald: t.d. um langlokur, keðjukvæði og margvíslegan barnakveðskap. Heiti annarra þjóðkvæðagreina hafa aftur á móti einnig verið notuð um þulutexta. Og þá skarast þuluhugtakið við annað yfirgripsmikið hugtak af svipuðu tagi: barnagælur. Í handritum eru bæði dæmi um það að þulutexti sé kallaður barnagæla – t.a.m. er þulan Stígum við stórum nefnd „Barnagæla alkunn“ í Lbs 424 8vo, 24v – og öfugt, þ.e. að barnagælur séu kallaðar þulur, t.d. vísan Bíum bíum bamba ásamt tveimur öðrum barnavísum í Lbs 1911 8vo, bls. 58–60. Mörkin milli þulna og barnagælna eru því nokkuð óljós í frumheimildum og síðar á meðal fræðimanna (t.d. heitir grein Jóns Samsonarsonar um barnagælur og þulur einfaldlega „Barnagælur“).

Þulur og barnagælur eru þó ekki alveg sambærileg hugtök. Hugtakið barnagæla felur í sér einkum ákveðið hlutverk; allt annað getur verið mismunandi frá einu kvæði (eða vísu) til annars, þ. á m. bragform, innihald og flutningsmáti. Hugtakið þula – einkum í víðum skilningi – tengist hins vegar fyrst og fremst formi (en síður flutningsmáta). Þessi sýn á hugtökin finnur sér stoð bæði í frumheimildum og í skilgreiningum fræðimanna. Ef þessi víði skilningur á þulu er notaður getur kvæði eða vísa, sem lýtur ekki öllum reglum viðtekinnar bragfræði og er flutt við barn því til skemmtunar eða huggunar, verið bæði þula og barnagæla – án þess þó að hægt sé að leggja þessi hugtök að jöfnu þar sem þau nálgast kvæðið/vísuna úr ólíkum áttum. Þetta nægir eitt og sér til að fullyrða að þulur síðari alda séu ekki sama kvæðagrein og barnagælur. Til þess að draga skýrari mörk á milli þulna og barnagælna þarf þó einnig að grannskoða, skilgreina og afmarka betur barnagælur sem kvæðagrein. Sama kann að gilda um langlokur og önnur kvæði sem er oft slegið saman við þulur. Fyrr næst varla góð yfirsýn yfir kerfi kvæðagreina á Íslandi á síðari öldum.

Höfundur: Yelena Sesselja Helgadóttir.

Birt þann 26. nóvember 2020
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Cleasby, Richard, og Gudbrand Vigfusson. An Icelandic-English dictionary. 2. útg., með viðauka eftir William A. Craigie. Oxford, Clarendon Press, 1962.

Fritzner, Johan. Ordbog over det gamle norske Sprog. Endurskoðuð, aukin og bætt útgáfa. 3 bd. Kristiania: Den norske Forlagsforening, 1883–1896.

Sveinbjörn Egilsson. Lexicon poeticum antiquæ linguæ septentrionalis. Ordbog over det norsk-islandske skjaldesprog, ný og aukin útgáfa í umsjón Finns Jónssonar. 2. útg. København: S. L. Møllers Bogtrykkeri, 1931.

Gurevich, Elena. Inngangur að: „Þulur,“ útg. Elena Gurevich. Í: Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages. Bd. 3, Poetry from Treatises on Poetics, ritstj. Kari Ellen Gade og Edith Marold. Turnhout: Brepols, 2017. Bls. 649–663.

Jón Samsonarson. „Barnagæla.“ „Þula.“ Hugtök og heiti í bókmenntafræði, ritstj. Jakob Benediktsson. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands / Mál og menning, 1983. Bls. 26–27 og 310–312.

Jón Samsonarson. „Barnagælur.“ Í: Jón Samsonarson. Ljóðmál: Fornir þjóðlífsþættir, ritstj. Einar G. Pétursson, Guðrún Ása Grímsdóttir og Vésteinn Ólason. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, 2002. Bls. 75–149.

Yelena Sesselja Helgadóttir. Íslenskar þulur síðari alda. Doktorsritgerð við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, 2020, https://hdl.handle.net/20.500.11815/1939.