Þær gjörðu lítinn
ríks manns rétt,
hjuggu af hönum höfuðið
við hallarinnar stétt.
Þar sem öðlingar fram ríða(Úr Ebbadætra kvæði)
Innan um rímur, sálma og annan kveðskap síðmiðalda og siðaskiptatímans er að finna kvæðagrein sem sker sig nokkuð úr. Þetta eru sagnadansar, áður nefndir fornkvæði. Greinin er samevrópsk og mjög breytileg eftir landsvæðum en sagnadansar varðveittir hér á landi eru augljóslega nátengdir greininni á öðrum Norðurlöndum og jafnvel að einhverju leyti á Englandi.
Sagnadansar eru dægur- og danslög síns tíma. Þeir fjalla um ástir og örlög, átök og hefndir, hetjudáðir og grátt gaman. Persónur og leikendur er dregin fáum, skýrum dráttum, hetjur með gula lokka ríða um héruð á gráum gangvara, hallir, skógar og lundir eru vettvangur atburða að ógleymdu hægaloftinu þar sem elskendur leika sína ástarleiki eða stúlkum er nauðgað á hrottalegan hátt. Reyndar er kynferðisofbeldi af ýmsu tagi furðu algengt innan greinarinnar og sögusamúðin beinist þá gjarnan að konunum.
Sagnadansar eru fremur stutt og hnitmiðuð kvæði sem segja sögu, voru ævinlega sungin og gengu manna á milli sem munnleg kvæðagrein. Þeir hverfast oftast um einn ákveðinn atburð, sagt er frá aðdraganda hans og afleiðingum enda hefur hann djúpstæð áhrif á það fólk sem sagt er frá. Þetta er sameiginlegt sagnadönsum alls staðar þar sem þeir hafa tíðkast. Hérlendis skiptast þeir í erindi sem eru oftast tvær eða fjórar braglínur og viðlag er ýmist á milli erinda eða fleygar þau.
Sagnadansar nutu vinsælda um alla Evrópu á hámiðöldum og lengur í Norður-Evrópu og víðast hvar hefur verið stiginn við þá dans. Greinin ber mörg merki munnlegrar menningar: Í kvæðunum er að finna flökkuerindi sem víða skjóta upp kollinum ýmist í heilu lagi eða hlutum og formúlur — fast orðasamband sem kemur víða fyrir og gefur gjarnan til kynna hvernig atburðarás kvæðisins eigi eftir að vera — eru eitt helsta einkenni þeirra.
Sagnadansar Norðurlanda fjalla um dýrlinga og helgisagnir, byggja á þjóðsögum og galdrasögnum, eru riddarakvæði, hetjukvæði og gamankvæði. En einhverra hluta falla þau kvæði sem varðveitt eru hér á landi langflest í hóp riddarakvæða. Kappa- og hetjukvæði eru sárafá, enda hefur slíkt efni fremur fallið undir hatt rímna.
Síðast breytt 24. október 2023