Skip to main content

Pistlar

Magnús Grímsson

Rétt áður en heimsfaraldurinn skall á var minnst 200 ára afmælis Jóns Árnasonar (1819−1888) með málþingi og fleiri uppákomum um hann og þjóðsagnasafn hans. Þjóðsagnasafnið mikla sem við Jón er kennt hefði þó varla orðið að veruleika ef hann hefði ekki notið liðsinnis Magnúsar Grímssonar (1825−1860). Jón var heimiliskennari hjá Sveinbirni Egilssyni meðan hann stundaði sjálfur tungumálanám, stundakennslu og yfirlestur handrita og prófarka með Sveinbirni. Magnús var nokkrum árum yngri en Jón og kom oft á heimili Sveinbjarnar.

Samstarf þeirra Jóns um söfnun þjóðlegra fræða hófst í kjölfar þess. Magnús hafði alist upp í fátækt í Borgarfirði, elstur í hópi sextán systkina. Hann þótti líklegt „mannsefni til bóknáms“, fór í Bessastaðaskóla 17 ára gamall og lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 23 ára. Þá um haustið kvæntist hann Guðrúnu Jónsdóttur og eignuðust þau eina dóttur sem fluttist til Ameríku og dó þar barnlaus. Sama haust og Magnús gifti sig innritaðist hann í Prestaskólann og lauk prófi þaðan eftir tvö ár. Næstu fimm árin átti hann heima í Reykjavík og fékkst við veitingasölu, blaðstjórn Nýrra tíðinda, og ritstörf áður en hann vígðist heldur tregur að Mosfelli í Mosfellssveit þar sem hann þjónaði til dauðadags, fimm árum síðar. Banamein hans var taugaveiki. Benedikt Gröndal lýsir Magnúsi svo í Dægradvöl að hann hafi verið lágur vexti, fínlegur og fríður sýnum, en annar fóturinn verið styttri en hinn svo hann gekk haltur.

Eftir Magnús liggja fjölmörg prentuð rit um ólík efni: leikritin Kvöldvaka í sveit (1848) og Bónorðsförin (1852) sem var fyrsta sýning Hugleiks, áhugaleikfélags í Reykjavík árið 1984; tvær skáldsögur frá 1851, Þórður og Ólöf og Böðvar og Ásta; þýðingar á leikritum, trúfræðiritum, ævintýrinu um Mjallhvíti úr safni Grimmsbræðra (1852) og miklu riti um eðlisfræði eftir J.G. Fischer (1852); frumsamdar ferðabækur og rannsóknarskýrslur; vinsæl söngkvæði sem komu út í smákveri 1855 og voru mikið sungin í Reykjavík næstu áratugi á eftir; rannsóknarritgerð um Egils sögu (1861) og margt fleira, prentað og óprentað. Á námsárum sínum vann Magnús við leiðsögn á sumrin og fór í sjálfstæða rannsóknarleiðangra með styrk frá Danakonungi. Hann ferðaðist allt í kringum landið og yfir hálendið á árunum 1846−1848, kynntist landinu betur en flestir samtímamenn hans og ritaði víða af skarpskyggni um jarðfræði þess.

Þá fann hann upp ýmsar vélar, s.s. sláttuvél, vatnsvél og róðrarvél, og var sannfærður um að þeir tímar kæmu að eldur og gufa yrðu óþörf til að knýja skip um heimshöfin, heldur myndi mega „til þess hafa hvort heldur vill vatn eða loft.“ (Þjóðólfur XI, 1859) Hann skorti þó alla tíð fé til að koma uppfinningum sínum í framleiðslu. Þorvaldur Thoroddsen taldi Magnús hafa verið framar flestum íslenskum jafnöldrum sínum í náttúrufræði en nú undir lok nýjasta heimsfaraldursins minnumst við hans einkum fyrir það frumkvæði sem hann átti að söfnun þjóðlegra fræða með Jóni Árnasyni, og metum þau miklu áhrif sem hann hafði á mótun þjóðsagnastílsins með þeim sögum sem hann lagði til Íslenzkra æfintýra (1852) og tveggja binda þjóðsagnaútgáfunnar frá Leipzig sem Jón gekk frá.

Um Magnús segir Jón í þeim formála sem hann ritaði fyrir útgáfunni (en var ekki prentaður í heild fyrr en 1939): „Svo var sumsé tilætlast, að við séra Magnús værum báðir útgefendur safns þessa. En þegar hann var búinn að skrifa upp rúmlega það, sem hann hafði safnað sjálfur, kvaddist hann héðan 18. janúar 1860, og má nærri geta, hvað það hefir bæði tafið og bagað safnið, að missa þess manns, sem svo margt var vel gefið, auk þess sem eg missti þar ástfólginn skólabróður og tryggan vin.“

Birt þann 21. apríl 2021
Síðast breytt 24. október 2023