Skip to main content

Almanak að austan — Tröllkonurím AM 470 12mo

Um aldir hefur hugtakið rím verið notað á Íslandi yfir tímatöflur eins og þá sem er meginefni þessa handrits. Þar er skráð hvernig dagar ársins skiptast á mánuði og gerð grein fyrir messudögum helgra manna og kvenna. Slík rímtöl voru klerkum nauðsynleg svo að þeir gætu haldið lögboðna helgidaga kirkjunnar í heiðri, en sömu töflur var hægt að nota ár eftir ár og jafnvel öldum saman.