AM 471 4to er lítið og hnellið handrit frá síðari hluta 15. aldar. Í því eru Íslendinga-sögurnar Þórðar saga hreðu, Króka-Refs saga og Kjalnesinga saga, sögurnar af Hrafnistumönnunum Katli hæng, Grími loðinkinna og Örvar-Oddi og riddarasagan Viktors saga og Blávus. Handritið er alls 108 blöð og hefur upphaflega verið hluti sama handrits og fremri hluti AM 489 4to sem er 26 blöð. Á fremri hluta 489 eru Bárðar saga Snæfellsáss og riddarasagan Kirjalax saga, en á aftari hlutanum, sem er úr öðru handriti, eru riddarasögur.