Skip to main content

Pistlar

Huggunarsálmur

Á dögunum fékk Þórunn Sigurðardóttir Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, 2016 í flokki fræðirita og rita almenns eðlis fyrir bókina Heiður og huggun: Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld. Bókin var gefin út á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (Reykjavík, 2015). Af þessu tilefni var Þórunn fengin til að skrifa um eitt handritið sem hefur að geyma erfiljóð, harmljóð eða huggunarkvæði.

 

Fremst í handritinu SÁM 14 stendur: „Þessi bók er samsett af samtíningsörkum er ýmsir lærðir menn hafa skrifað …“. Arkirnar eru 25, sumar tvinn, aðrar fjögur blöð og enn aðrar átta blöð, en sjö stök blöð eru aftast. Handritið er alls 147 blöð og hefur nýlega verið blaðmerkt með blýanti. Innihaldið er aðskiljanlegs efnis, og hafa arkirnar fæstar heyrt saman upprunalega. Skrifarar eru a.m.k. 30 og hafa 14 verið nafngreindir eða taldir líklegir (sjá www.handrit.is). Flestar voru arkirnar skrifaðar á síðustu áratugum 18. aldar, margar á árunum 1780−1785. Ísleifur Ásgrímsson (1762−1845) á Svínafelli í Öræfum hefur líklega átt handritið einhvern tíma (sbr. utanáskrift á einu af stöku blöðunum aftast); ef til vill hefur hann tínt arkirnar saman í eitt samtíningshandrit. Bjarni Sigurðsson í Hofsnesi í Öræfum gaf Handritastofnun Íslands handritið árið 1970.

SÁM 14 inniheldur m.a. ættartölur, bænir, sálma, hugvekjur, prédikanir, ævisögu Johanns Arndts, ritgerð Ludvigs Holbergs um verslun Íslendinga (fyrirsögn: „Baron Holberg um höndlun Íslendinga“), póst um ástæður siðaskiptanna, sem hefst svo: „Þá Guð almáttugur vildi ekki lengur líða páfanna yfirgang …“. Forvitnilegir eru tveir innkaupalistar, annar með yfirskriftinni: „Fyrir sr. Jón Bergsson“ og hinn: „Fyrir sr. Berg Guðmundsson“. Bergur (1702−1789) var prestur í Bjarnanesi og prófastur í Austur-Skaftafellssýslu en Jón (1725−1784), sonur hans, tók við af honum þar. Á báðum listunum eru skráðar smákökur, og piparkökur á öðrum þeirra, svo dæmi sé  nefnt. Neðst á aftari listanum stendur: „En nú vegna Guðrúnar Bergsdóttur: 1 smáköku fyrir 1 pr. sokka hjá Ólafi“. Aftast eru slitrur úr sendibréfum.

„Nokkur sálmvers“ í SÁM 14 bl. 24r. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir. Blöð 24−29 eru fjögurra blaða örk og tvinn, sem heyrt hafa saman. Á þeim eru uppskrifaðar bænir, bænarvers og sálmar. Fremst (bl. 24r−v) er kvæði sem hefur að fyrirsögn „Nokkur sálmvers“. Höfundar er ekki getið. Kvæðið er huggunarsálmur ætlaður hverjum þeim foreldrum sem misst höfðu son vegna drukknunar. Sambærilega huggunarsálma má víða finna í handritum og eru til vitnis um hagnýtan tilgang sálmakveðskapar. Sálmurinn á sér þó sérstaka sögu.

Undirrituð vann við rafræna handritaskráningu á Árnastofnun á árunum 2008 til 2010 og skráði þá m.a. SÁM 14. Þegar ég las huggunarsálminn kannaðist ég við erindin. Við nánari athugun kom í ljós að þau tilheyra lengra kvæði, 36 erinda huggunarkvæði sem sr. Jón Magnússon (1601−1675) í Laufási orti handa starfsbróður sínum sr. Guðmundi Erlendssyni (1595−1670) í Felli og konu hans, Guðrúnu Gunnarsdóttur (d. 1668). Tilefnið var drukknun sonar þeirra, sr. Jóns Guðmundssonar á Munkaþverá, í Eyjafjarðará árið 1649. Kvæðið hefst á vinarkveðju ljóðmælanda til þeirra hjóna: „Systkin sæl í Guði, / er sonar þreyið lát“ (1. er.), og eru þau ávörpuð öðru hverju í kvæðinu; hann með nafni í næstaftasta erindinu: „Salve, sæll meðbróðir, / síra Guðmundur minn“ (35. er.). Í 30. og 31. erindi kemur fram nafn hins látna og starf. Í huggunarsálminum sem varðveittur er í SÁM 14 hefur þeim vísum sem greina frá tilefni kvæðisins og nefna hlutaðeigandi verið sleppt. Kvæðið hefur þar umbreyst úr huggunarkvæði vegna ástvinamissis nafngreinds starfsbróður skáldsins og konu hans í almennan huggunarsálm handa hverjum þeim sem lent hefur í sömu eða svipuðum aðstæðum og Guðmundur og Guðrún, misst son í sjó eða vatni. Kvæðið er varðveitt heilt í handritinu ÍB 816 8vo og má sjá í heild sinni í fyrrnefndri bók Heiðri og huggun.

Það var alls ekki óþekkt að kvæði væru endurunnin, ef svo má segja, handa öðrum en þau voru upprunalega ætluð. Varðveisla huggunarkvæðis Jóns Magnússonar er dæmi um það. Hún sýnir hvernig kvæði gátu varðveist í heild eða að hluta til og gefur vísbendingar um hvernig handritað efni var notað í menningarlífi á fyrri tíð. Í SÁM 14 er ekkert sem bendir til þess að sálmurinn hafi nokkurn tíma verið lengri. Fólk gat þannig tekið hluta úr bókmenntaverkum í ákveðnum tilgangi, sem var ekki endilega sá sem verkinu hafði verið ætlað að þjóna þegar það var samið. Ekki er ólíklegt að mörg fleiri sambærileg dæmi megi finna í kvæðasöfnum frá fyrri tíð, sem munu koma í ljós með skráningu þeirra og frekari rannsóknum á handritum síðari alda.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 25. júní 2018