Skip to main content

Pistlar

Dómabók úr Holti í Önundarfirði – AM 196 4to

Sumarið 1710 var gott og þurrt að sögn annála. Þá var Árni Magnússon, prófessor í dönskum fornfræðum við Kaupmannahafnarháskóla, á ferð um Vestfirði með skrifurum sínum þeirra erinda að gera jarðabók eftir skipan Friðriks IV. Danakonungs. Jafnframt nýtti Árni sér ferðina til þess að viða að sér gömlum handritum og skjölum. Hann kom að Holti í Önundarfirði 16. ágúst og voru gestgjafar hans prestshjónin Sigurður Jónsson og Helga Pálsdóttir. Þau voru í góðum efnum, talin vel ættuð, séra Sigurður úr Vatnsfirði við Djúp og Helga frá Selárdal. Séra Sigurður átti besta prestabókasafn sem Árni hafði séð til þessa og fékk hann léðar úr safninu fimm skjalabækur sem nú eru varðveittar í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Ein þeirra ber markið AM 196 4to. Hún er 374 blaðsíður, að upphafi gerð af alúð og natni á árunum 1652–1657. Víða eru dregnir fínlegir upphafsstafir, sumir í rauðum og grænum litum en flestir í bleklit. Fyrirmyndir hafa verið sóttar í gamlar lýstar lögbækur á skinni. Síðar var aukið við bókina og loks sett viðhafnarmikið titilblað sem skýrir efni hennar og gerð:

Titilsíða dómabókarinnar úr Holti í Önundarfirði, AM 196 4to. Hægt er að stækka myndina. Dómabók. Héraðsdómar, alþingis samþykktir og lögmætra úrskurða inntök og titlar. Til ljósrar útskýringar vorri Landslagabók í mörgum greinum, landinu til gagns og bata, en öllum til styrks, eftirtekta og leiðréttingar. Samanskrifuð í fyrstu eftir Lögbókarinnar serie og bálkanna niðurraðan af heiðurlegum p(iae) m(emoriae) [loflegrar minningar] kennimanni sra Sigurði Jónssyni að Ögri og Eyrar kirkjum. Aukin og fullkomnuð með einum og öðrum lagarétti k(onunglegrar) m(ajestatis) bréfum og bréfa inntökum af heiðurlegum og vellærðum kennimanni s(íra) Sigurði Jónssyni frá Vatnsfirði. Anno domini 1669.

Í bókarlok er efnisyfirlit í stafrófsröð sem bókin segir sjálf að sé „skrifað til flýtirs að finna sérhvað sem í dómum og samþykktum hér inni umgetur.“

Eins og fram kemur á titilblaðinu er bókin gerð til útskýringar á landslögum, landsmönnum til eftirtekta og leiðréttinga á gjörðum sínum. Sama ár og bókin var fullbúin og titilblaðið gert, 1669, vígðist Sigurður Jónsson úr Vatnsfirði aðstoðarprestur séra Jóns Jónssonar að Holti í Önundarfirði. Úr föðurgarði hefir Sigurður farið með bókina vestur og ætlað hana sér til halds og trausts við embættisverk. Hann tók að fullu við Holti árið 1680 og hélt þann stað nær til æviloka 1730.

Skrifarar bókarinnar eru tveir Sigurðar Jónssynir og hafa báðir unnið í skrifstofu í Vatnsfirði í Ísafirði. Sá sem skrifaði meginhlutann að upphafi var Sigurður, kenndur við Ögurþing. Síðar hefir Sigurður frá Vatnsfirði, kenndur við Holt í Önundarfirði, aukið við mörgum blöðum með viðbótarefni og skrifað fjölmarga viðauka á spássíur. Auk þess eru fáeinar viðbætur með annarra höndum. Skrift Sigurðanna er allólík. Sigurður kenndur við Ögurþing skrifar fínlega fljótaskriftarhönd og dregur fagra upphafsstafi, en skrift nafna hans úr Vatnsfirði er ábúðarmeiri og línurnar verða oft að bogadregnum hvelfingum.

Skrifarinn Sigurður, kenndur við Ögurþing, var prestssonur frá Krossi í Landeyjum (f. 1631). Hann var brautskráður úr Skálholtsskóla 1652, var síðan í þjónustu séra Jóns Arasonar í Vatnsfirði uns hann vígðist til Ögurþinga 1657. Hann var til heimilis að Eyri í Seyðisfirði hjá Magnúsi Magnússyni sýslumanni, bónda og annálaritara. Séra Sigurður í Ögurþingum þýddi vísindabækur síns tíma, skrifaði annálagreinar og ættartölur, en varð fyrir gerningum og lést árið 1665.

Séra Sigurður í Holti hefir á embættistíð sinni sett mjög víða griporð, tilvísanir og athugasemdir á spássíur bókarinnar, sumstaðar áherslumerki eða dregið rauðar áherslulínur framan við heilar málsgreinar. Allt þetta ber órækt vitni um að hann notaði bókina við embættisverk sín sem prestur og prófastur í Holti.

Eins og lesa má af fyrirsögn á titilblaðinu er meginefni bókarinnar ágrip dóma, alþingissamþykkta og úrskurðabréfa konungs eða háyfirvalda. Hvert ágrip er ársett og hefir sína fyrirsögn og efnisflokkum er raðað saman í bókina með hliðsjón af efnisröð í landslagabók Íslendinga, Jónsbók frá 1281. Þannig er raðað saman dómum og úrskurðum sem lúta að tíundarhaldi, dómar um hórdóm og frændsemisspjöll falla í sér flokk, dómar um rán og manndráp eru sér, um hjúskaparmál er sérstakur flokkur, annar stór flokkur er um erfðamál og enn annar stór um fátæka menn, utansveitarfólk og ómagaframfærslu, sér flokkur er um leiguábúð, annar um reka og svo framvegis. Þessi dómabók á sér fjölmargar systur í handritasafni Árna Magnússonar. Allar eru þær að gerð og efni sérstök grein íslenskrar ritmenntar sem bundin var embættismannastétt landsins og hafa bækurnar gegnt stóru hlutverki í réttargæslu í íslensku samfélagi seinni alda.

Fræðast má nánar um AM 196 4to í Góssinu hans Árnaminningum heimsins í íslenskum handritum. Bókin sú var tilnefnd til menningarverðlauna DV í febrúar 2016.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 25. júní 2018