Skip to main content

Handritapistlar

Kálfalækjarbók – AM 133 fol.

Á meðal Íslendingasagna hefur Njáls saga sérstöðu, þetta mikla listaverk ónafngreinds íslensks rithöfundar. Njála er ekki einungis lengst allra Íslendingasagna heldur hefur hún oftar en ekki varðveist ein og sér í handritum. Flest miðaldahandrit geyma söfn texta en ekki stakar sögur. Eins og oftast nær í handritamenningu miðalda er frumrit Njáls sögu glatað. Um 60 handrit hafa varðveist sem geyma söguna í heild eða brot úr henni. Elstu handritin eru frá því um 1300 og eru þau skrifuð skömmu eftir að sagan var frumsamin um 1280.

Endurunnin kaþólsk messubók. KB Thott 154 fol.

Eitt fegursta íslenska nótnahandrit sem varðveist hefur er geymt í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn og á sér sérkennilega sögu. Upphaflega var þetta latnesk messubók, líklega rituð á Englandi á síðasta fjórðungi 14. aldar. Um aldamótin 1600 var bókin komin til Íslands en hún var vita gagnslaus í hugum lútherskra. Því var textinn skafinn upp og bókfellið notað á nýjan leik en lýsingarnar látnar ósnertar.

Römm er sú taug: Vinarbréf frá Austfjörðum

Handritapistlar fjalla yfirleitt um handrit í vörslu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þessi pistill snýst hins vegar um víðförult handrit sem hafði aðeins tímabundna viðdvöl í handritageymslunni í Árnagarði. Handritið er í eigu Íslenskudeildar Háskólans í Manitóba í Winnipeg en með því að fá það lánað til Íslands var hægt að búa til stafrænt afrit sem tryggir aðgengi fræðimanna að því óháð staðsetningu.

„Þá munu geitur hverfa og hár vaxa“: Læknisráð í AM 673 a II 4to

„Tak svínasaur og brenn í nýrri grýtu og blanda með því hinu súrasta víni og þvo höfuðið í fyrst, en síðan rýð það á. En ef þetta gerir oft, þá munu geitur hverfa og hár vaxa“ – er meðal fjórtán læknisráða sem óþekktur skrifari á fjórtándu öld hefur bætt inn í eitt elsta myndskreytta handritið sem varðveitt er í safni Árna Magnússonar á Íslandi.

Lúsía

13. desember er Lúsíumessa, helguð píslarvottinum Lúsíu frá Sýrakúsu á Sikiley. Lúsía er ein af þeim eðalbornu jómfrúm sem eiga að hafa liðið píslarvætti á fyrstu öldum kristins siðar fyrir þær sakir að þær vildu varðveita meydóm sinn og helga líf sitt unnustanum eina, Jesú Kristi. Í helgisögum af þessum dýrlingum er fastur liður að jómfrúin er færð fyrir valdsmann sem yfirheyrir hana. Þegar hún neitar að ganga af trú sinni og lúta valdinu er hún pyntuð hroðalega og loks drepin.

Makkabear

Þegar þessi pistill birtist, 14. desember 2020, stendur ljósahátíð gyðinga, hanukkah, sem hæst. Það er átta daga hátíð sem haldin er í minningu þess er gyðingar náðu aftur yfirráðum yfir Jerúsalem — Alexander mikli hafði lagt hana undir sig í sínum miklu landvinningum og eftir hans dag höfðu Selevkídar ráðið henni. Gyðingar hreinsuðu hið forna musteri í borginni og helguðu það að nýju með því að kveikja ljós á ljósastiku og færa brennifórnir. Þetta á að hafa gerst árið 164 f.Kr.

Slagsmál á Alþingi AM Dipl. Isl. Fasc. XLIV,11

Meðal þess sem varðveitt er í handritasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eru fjölmörg fornbréf. Efni bréfanna er af ýmsum toga en oftar en ekki eru þau fremur stutt og formleg, greina frá jarðakaupum, kaupmálum, dómsmálum og erfðamálum eða staðfesta vitnisburð manna. Hér og hvar leynast bréf sem gefa aðeins meiri innsýn í breyskleika mannfólksins, til að mynda bréf um hjúskaparbrot, lausaleiksbörn, slagsmál og fleira. Eitt slíkra bréfa var skrifað um það bil árið 1520 og hefur safnmarkið AM Dipl. Isl. Fasc. XLIV,11.

Af Guðmundi góða í AM 398 4to og skyldum handritum

Á sautjándu öld stóðu biskupar landsins, Þorlákur Skúlason (1597–1656) á Hólum og Brynjólfur Sveinsson (1605–1675) í Skálholti, ásamt Jóni Arasyni (1606–1673) prófasti í Vatnsfirði, fremstir í flokki að hrinda af stað viðamikilli afritun texta úr fornum skinnbókum yfir á pappír, sér í lagi verka af sögulegum toga, til að forða þeim frá glötun og hefja til vegs að nýju.