Meðal þess sem varðveitt er í handritasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eru fjölmörg fornbréf. Efni bréfanna er af ýmsum toga en oftar en ekki eru þau fremur stutt og formleg, greina frá jarðakaupum, kaupmálum, dómsmálum og erfðamálum eða staðfesta vitnisburð manna. Hér og hvar leynast bréf sem gefa aðeins meiri innsýn í breyskleika mannfólksins, til að mynda bréf um hjúskaparbrot, lausaleiksbörn, slagsmál og fleira. Eitt slíkra bréfa var skrifað um það bil árið 1520 og hefur safnmarkið AM Dipl. Isl. Fasc. XLIV,11.