Skip to main content

Pistlar

Slagsmál á Alþingi AM Dipl. Isl. Fasc. XLIV,11

Meðal þess sem varðveitt er í handritasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eru fjölmörg fornbréf. Efni bréfanna er af ýmsum toga en oftar en ekki eru þau fremur stutt og formleg, greina frá jarðakaupum, kaupmálum, dómsmálum og erfðamálum eða staðfesta vitnisburð manna. Hér og hvar leynast bréf sem gefa aðeins meiri innsýn í breyskleika mannfólksins, til að mynda bréf um hjúskaparbrot, lausaleiksbörn, slagsmál og fleira. Eitt slíkra bréfa var skrifað um það bil árið 1520 og hefur safnmarkið AM Dipl. Isl. Fasc. XLIV,11. Bréfið er ekki stórt í sniðum, um 115 mm á hæð og 215 mm á lengd. Líkt og önnur íslensk bréf frá þessum tíma er bréfið skrifað á skinn og ritað með nokkuð skýrri og læsilegri léttiskrift. Innsigli bréfsins hafa ekki varðveist en við það hanga enn fjórir innsiglisþvengir, nokkuð krumpaðir af volki tímans.

          Tilefni bréfsins er háttalag embættismanna á Alþingi þrjú árin þar á undan og vilja bréfritararnir fimm, fyrir hönd almúgans á Íslandi, færa fram kvörtun. Þeir rekja í bréfinu uppákomurnar og segja að fyrsta árið hafi „einn dándimann“ verið „eltur og skotinn af hirðstjórans mönnum“ en annað árið var „tekinn lögréttumaður, sleginn og barður og settur í járn fyrir öngvar sakir aðrar en hann sagði upp dóm sem hann dæmdi“. Þriðja árið flæktust málin enn frekar þegar Ögmundur ábóti (síðar biskup í Skálholti) sagði hirðstjóranum (Týla Péturssyni) að honum þætti ekki eiga að koma jafnar bætur fyrir útlenska menn sem rændu og rupluðu um landið og Íslendinga sem útlendingar slægju saklausa í hel. Ekki kemur fram hvort og þá hvaða tilefni ýtti undir þessi orð hans en við þau reiddist hirðstjórinn þannig að hann ætlaði bæði að slá og stinga ábótann og þurftu lögmenn að halda honum niðri. Þá skipaði hirðstjórinn sínum mönnum að slá ábótann í hel en sú fyrirskipun varð þó ekki að veruleika. Lýkur bréfinu þannig að bréfritarar segja: „ef svo skal lengi fram fara þá er landið snart í fátækt og almúginn hneyktur og svívirður.“ Ekki fer sögum af því hvort slagsmálum hafi fækkað á Alþingi eftir ritun þessa bréfs.

 

 

Birt þann 29. september 2020
Síðast breytt 24. október 2023