Skip to main content

Pistlar

Lúsía

13. desember er Lúsíumessa, helguð píslarvottinum Lúsíu frá Sýrakúsu á Sikiley. Lúsía er ein af þeim eðalbornu jómfrúm sem eiga að hafa liðið píslarvætti á fyrstu öldum kristins siðar fyrir þær sakir að þær vildu varðveita meydóm sinn og helga líf sitt unnustanum eina, Jesú Kristi. Í helgisögum af þessum dýrlingum er fastur liður að jómfrúin er færð fyrir valdsmann sem yfirheyrir hana. Þegar hún neitar að ganga af trú sinni og lúta valdinu er hún pyntuð hroðalega og loks drepin. Í sögunni af Lúsíu ætlar jarlinn Paskasíus að láta færa hana í hóruhús en þá ber svo við að jafnvel þótt uxar séu fengnir til að draga hana, hrærist hún ekki. Þá er kveikt bál umhverfis hana og steypt yfir hana sjóðandi olíu og biki. Loks eru borin á hana vopn og deyr hún af sárum sínum. Í Heilagra meyja drápu, sem ort var á 14. eða 15. öld, er sagan endursögð í tveimur vísum:

Sæt Lúsía segi ég að héti
Sikileyjar hin vænsta meyja;
prúða vildi í porthús leiða
Páskásíus fullr af háska.
Hvergi máttu höldar margir
hræra nökkuð drottins kæru;
orka þeir að yxnum sterkum,
eigi mega þau frúna sveigja.

Bál var kynt um brúði sæla,
bik vellanda um meyna hellist;
Lúsía stóð í loganum blessuð
lof færandi drottni kærum.
Lýðrinn fylldist ljótrar æði;
leggur einn af greifans seggjum
hvíta frú með hvössu spjóti
heldr hún nú með drottni veldi.

(Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages VII, ritstj. Margaret Clunies Ross. Turnhout: Brepols 2007, bls. 915)

Lúsíumessa tengdist áður fyrr vetrarsólstöðum sem okkur kann að þykja einkennilegt því þær eru ekki fyrr en 21. eða 22. desember. Það stendur þannig á því að þegar gregoríanska tímatalið (Nýi stíll) leysti hið júlíanska af hólmi hér á landi árið 1700, var orðin svo mikil skekkja í almanakinu að fella þurfti burt 10 daga með þeim afleiðingum að 13. desember varð 23. desember. Á öldunum áður en það var gert var Lúsíumessa einn skemmsti dagur ársins eins og þessi vísa úr þjóðfræðasafninu ber vitni um, þar sem messudagar Lúsíu (13.12.), Vitusar (15.6.), Gregoríusar (12.3.) og Lambertusar (17.9.) eiga að minna fólk á sólhvörf og jafndægur.

Hlusta hér

Birt þann 14. desember 2020
Síðast breytt 24. október 2023