Skip to main content

Pistlar

Af Guðmundi góða í AM 398 4to og skyldum handritum

Á sautjándu öld stóðu biskupar landsins, Þorlákur Skúlason (1597–1656) á Hólum og Brynjólfur Sveinsson (1605–1675) í Skálholti, ásamt Jóni Arasyni (1606–1673) prófasti í Vatnsfirði, fremstir í flokki að hrinda af stað viðamikilli afritun texta úr fornum skinnbókum yfir á pappír, sér í lagi verka af sögulegum toga, til að forða þeim frá glötun og hefja til vegs að nýju. Allir þrír voru formenntir menn frá Kaupmannahafnarháskóla og mótaðir af þeim fornmenntaáhuga sem rit Arngríms lærða (1568–1648), einkum Crymogæa frá 1609, höfðu tendrað meðal danskra fræðimanna á borð við Ole Worm (1588–1654) og St. Joh. Stephanius (1599–1650) sem ýmist kenndu eða áttu í bréfaskiptum við flesta ofangreinda um hugðarefni sín og rannsóknir á sviði norrænna fræða. 

Þorlákur biskup á Hólum réð sem kunnugt er yfir eina prentverki landsins og nýtti það alfarið í þjónustu guðs síns en fékk samhliða bændur og presta í nágrenninu til að afrita forna texta fyrir sig. Þekktastur þeirra er vafalaust Björn Jónsson á Skarðsá (1574–1655), fyrir Landnámugerð sína og annálaskrif auk uppskriftastarfans, en aðrir skrifarar Þorláks voru t.a.m. Þorleifur Jónsson í Grafarkoti og Jón Pálsson, um skeið prestur að Hólum, en sá síðarnefndi skrifaði einmitt handritið sem hér verður gert að viðfangsefni.

AM 398 4to geymir tvo texta, annars vegar Guðmundar sögu D eftir Arngrím ábóta Brandsson (1r–105r) en hins vegar Guðmundardrápu Árna Jónssonar ábóta (106r–110v) undir yfirskriftinni: Hier effter fylgier dräpa hins Goda | herra Gudmundar Ara sonar Biskups | er ort hefur herra Arne Aböte | Jonsson ad Mv̈ka þuera̋. Drápa Árna, sem var ábóti að Munkaþverá á árabilinu 1370–1379, telur nú 79 erindi en ljóst er að erindi hefur týnst úr seinni stefjabálki drápunnar, þ.e. á milli erinda 53 og 57, þannig að hún hefur upphaflega fyllt áttunda tuginn. Slitrur úr drápunni hafa varðveist í stóru safni helgikvæða AM 713 4to frá ca. 1540-1560 (erindi 57–79) en öllu meira finnst í öðru helgikvæðahandriti AM 721 4to (erindi 42–79) frá svipuðum tíma. Guðmundardrápa Árna er einna þekktust fyrir erindi 78 (Yfirmeisturum mun Eddu listar / allstirður sjá hróður virðast, / þeim er vilja svo grafa og geyma / grein klókastra fræðibóka. / Lofi heilagra líst mér hæfa / ljós ritninga sætra vitni, / en kenningar auka mönnum / engan styrk né fagnað, myrkra), yfirlýsingu í ætt við erindi 97–-98 í Lilju um brotthvarfið frá list Eddu og einföldun skáldamálsins. Í þeim anda er ríkulega leitað fanga í kristið táknkerfi og myndmál í kvæðinu (e.t.v. allt eins torskilið þeim sem lítið kunna fyrir sér á því sviði) en þannig rennir Árni trúfræðilegum stoðum undir helgi Guðmundar, þótt hún hafi ekki verið staðfest í páfagarði, um leið og hann rekur æviatriði biskups, afrek sem embættisraunir, og tekur upp tákn og jarteinir úr fyrri frásögnum af honum.

Guðmundar saga D eftir Arngrím Jónsson, munk og síðar ábóta á Þingeyrum, er talin skrifuð um 1345 og finnst í tveimur gerðum en elstu varðveittu handrit eða handritabrot beggja gerða eru mjög jafnaldra og litlu eldri en sagan sjálf. Til viðbótar við mismunandi efni og efnisskipan í niðurlagi sögunnar er sá reginmunur á gerðunum að önnur, talin upprunalegri, inniheldur 5 vísur og er sú gerð í AM 398 4to, en í hinni eru alls 116 vísur og er þar bætt við kveðskap eftir Arngrím og Einar Gilsson, skáld og lögmann. Sú gerð var prentuð í Biskupa sögum II 1878 eftir Holm perg 5 4to, frá 1350–1365 en sama gerð óheil er í AM 396 4to, frá s.hl. fjórtándu aldar. Elstu handritabrot vísnafærri gerðarinnar, öll úr sömu bókinni en varðveitt undir fimm safnmörkum, eru talin frá 1370–1380 en auk AM 398 4to er textinn varðveittur í heild sinni í AM 397 4to frá 1690–1710. Af vísunum fimm eru fjórar eftir Kolbein Tumason, fyrrum bandamann en síðan einn höfuðandstæðing Guðmundar biskups, og þeirra á meðal eru vísurnar þrjár sem hann kvað fyrir dauða sinn í Víðinesbardaga 1208 en við þekkjum flest sem sálminn Heyr himna smiður. Þær eru einnig í Guðmundar sögu B, og hafa mögulega verið í Guðmundar sögu C en þar er nú eyða í frásögninni. Vísurnar mýkja og stækka mynd höfðingjans skagfirska og notkun þeirra í hinum norðlensku Guðmundar sögum gefur innsýn í flókið samspil trúarlífs, átaka og ættarbanda, þar sem Kolbeinn var kvæntur náfrænku Guðmundar biskups.

AM 398 4to var áður hluti af stærri bók sem Þorlákur biskup lét skrifa og á var önnur saga af Guðmundi biskupi (Guðmundar saga C í AM 395 4to) ásamt Jóns sögu helga Hólabiskups (AM 302 4to) og riti Jóns lærða um Grænland (AM 768 4to, áður eignað Birni á Skarðsá). Árni Magnússon fékk bókina frá Þormóði Torfasyni árið 1715 og skipti henni þá í þrennt en hafði áður fengið AM 398 4to að gjöf úr sömu bók, allri með hendi Jóns Pálssonar.

Áhugi Þorláks biskups á forverum sínum á Hólastóli forðaði ekki aðeins stórum hluta Guðmundardrápu Árna ábóta frá glatkistunni heldur einnig Guðmundar sögu C því hún er aðeins til í tveimur systurhandritum undan handarjaðri Þorláks, þó óheil þar sem týnt var úr forritinu. Hitt handrit Guðmundar sögu C er Holm papp 4 4to, samvinnuverkefni þriggja skrifara Þorláks, þeirra Þorleifs og Jóns sem skrifuðu meginmálið ásamt óþekktum skrifara af Suðurlandi en Björn á Skarðsá skráði athugasemdir á spássíur, um orðskýringar, vísur o.fl. Guðmundar saga C er þar ásamt Jóns sögu helga og tveimur öðrum biskupasögum, sjö Íslendingasögum og tveimur þáttum, en tilvist hennar varð aftur ljós við rannsóknir Peters Foote á varðveittum handritum Jóns sögu helga Hólabiskups við upphaf sjöunda áratugar síðustu aldar.

Birt þann 5. ágúst 2020
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Foote, Peter. 1961. Bishop Jörundr Þorsteinsson and the relics of Guðmundr inn góði Arason. Studia centenialia in honorem Benedikt S. Þórarinsson: 98-114. Reykjavík: Ísafold.

Guðrún Nordal. 2001. Tools of Literacy: the role of skaldic verse in Icelandic textual culture of the twelfth and thirteenth centuries. Toronto: University of Toronto Press.

Haraldur Bernharðsson. 1999. Málblöndun í sautjándu aldar uppskriftum íslenskra miðaldahandrita. Reykjavík: Málvísindastofnun Háskóla Íslands.

Stefán Karlsson. 1960. Um handrit að Guðmundar sögu bróður Arngríms. Í Opuscula I. Bibliotheca Arnamagnæana Vol. XX. Kaupmannahöfn: Munksgaard.

Stefán Karlsson. 1967. Inngangur. Sagas of Icelandic Bishops: Fragments of eight manuscripts. EIM 7. Kaupmannahöfn: Rosenkilde og Bagger.

Stefán Karlsson. 1997. Skrifarar Þorláks biskups Skúlasonar. Í Skæðadrífa til heiðurs Sigurjóni Björnssyni sjötugum 25. nóvember 1996. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag. Endurprentuð í Stafkrókar: Ritgerðir eftir Stefán Karlsson gefnar út í tilefni sjötugsafmælis hans 2. desember 1998. 2000: 383-403.

handrit.is og onp.ku.dk