Skip to main content

Pistlar

Kálfalækjarbók – AM 133 fol.

Á meðal Íslendingasagna hefur Njáls saga sérstöðu, þetta mikla listaverk ónafngreinds íslensks rithöfundar. Njála er ekki einungis lengst allra Íslendingasagna heldur hefur hún oftar en ekki varðveist ein og sér í handritum. Flest miðaldahandrit geyma söfn texta en ekki stakar sögur. Eins og oftast nær í handritamenningu miðalda er frumrit Njáls sögu glatað. Um 60 handrit hafa varðveist sem geyma söguna í heild eða brot úr henni. Elstu handritin eru frá því um 1300 og eru þau skrifuð skömmu eftir að sagan var frumsamin um 1280. Þetta er vísbending um að Njála hafi snemma notið vinsælda. Munur er á sögunni í handritunum en útlit og saga handritanna sjálfra segja einnig sína sögu af Njálu á elstu tímum.

Kálfalækjarbók (AM 133 fol.) frá því um 1300 er á meðal elstu handrita Njáls sögu; bókin er eitt fyllsta miðaldahandritið með Njálu og hefur sennilega ekki geymt aðra texta. Njálu-texti Kálfalækjarbókar er náskyldur textanum í Reykjabók Njálu sem varðveitt er í Kaupmannahöfn. Fátt er vitað um sögu Kálfalækjarbókar. Við vitum að Árni Magnússon fékk bókina frá Þórði Jónssyni á Staðastað árið 1697. Þórður hafði fengið hana frá Finni Jónssyni á Kálfalæk í Mýrasýslu en af bæjarnafninu er nafn bókarinnar dregið. Sama ár hafði séra Jón Halldórsson í Hítardal lokið uppskrift texta Kálfalækjarbókar. Móðurafi Árna Magnússonar, Ketill Jörundsson, notaði einnig Kálfalækjarbók við fræðistörf sín og skráði orðamun úr þessu handriti í uppskrift sinni á Gullskinnu, enn einu Njálu-handritinu sem síðan hefur glatast. Eftir notkun Jóns og Ketils á handritinu týndust blöð úr því en þökk sé vinnu þeirra má endurskapa textann í nokkrum eyðum Kálfalækjarbókar. Frá því að Árni Magnússon eignaðist Kálfalækjarbók var hún geymd í Danmörku þar til 28. nóvember 1986 – fyrir 35 árum – þegar handritið sneri heim aftur eftir tæpra 300 ára dvöl í Kaupmannahöfn.

Nú er Kálfalækjarbók orðin dökk, skítug og slitin og blöðin götótt vegna rakaskemmda sem gera textann ólæsilegan á köflum. Handritið er í brotum og í það vantar mörg blöð. Það er óinnbundið og geymt í tveimur öskjum þar sem blöðunum hefur varfærnislega verið komið fyrir í umslögum, eitt umslag utan um hvert blað. En þegar Kálfalækjarbók var ný og heil var hún reffileg bók og það sést enn í dag. Blöðin eru stór og letrið einnig, fallegt og vandað. Kaflafyrirsagnir eru ritaðar með rauðu bleki og bókin er prýdd upphafsstöfum í grænum, hvítum, bláum og rauðum lit. Þrír þeirra eru fagurlega myndskreyttir. Til gamans má nefna að skrifarinn notar stundum arabískar tölur sem var nýnæmi á þeim tíma.

Kálfalækjarbók er fræg meðal Íslendingasagnahandrita einkum vegna myndskreyttu upphafsstafanna. Á bl. 14r þar sem Gunnar Hámundarson á Hlíðarenda er fyrst kynntur til sögu er G-ið í nafni hans skreytt með mynd af bardaga á milli ljóns og vængjaðs dreka. Ljónið bítur í sporð drekans en sporðurinn myndar útlínur bókstafsins G. Á næsta blaði, 14v, er Njáll kynntur til sögunnar. N-ið í nafni hans er umfaðmað af ungum manni með skjöld sem rekur sverð sitt í gegnum búkinn á vængjuðum dreka. Á bl. 59v er sögunni vikið til Noregs og nú sagt frá aðdraganda að kristniboði Þangbrands: „Höfðingjaskipti varð í Noregi. Var kominn í stað Óláfr konungr Tryggvason. En Hákon jarl var liðinn undir lok“. Inn í upphafsstafinn „H“ ríður brynjaður riddari á fallegum hvítum hesti.

Með þessum myndum gefa bókagerðarmenn Kálfalækjarbókar lesendum vísbendingu um skilning sinn og lestur á Njálu enda virðist þar með vísað í aðalpersónur og aðalatriði Njálu: Gunnar, Njál – og kristnina. Stóru myndskreyttu upphafsstafirnir benda jafnframt á skiptingu Njálu í þrennt en síðasti þriðjungur sögunnar hefst með frásögninni af kristnitökunni. Hvorki er vitað hver skrifaði né skreytti Kálfalækjarbók en skynja má kristilegan hugmyndaheim í Njálu. Listfræðingurinn Lena Liepe hefur fundið hliðstæður með skreyttum upphafsstöfum Kálfalækjarbókar og handritum sem handritafræðingar hafa tengt við Þingeyraklaustur vegna skriftareinkenna, þótt frekari rannsókna sé þörf. Fyrr á þessu ári voru Angelo Agostino og Maurizio Aceto, ítalskir efnafræðingar og sérfræðingar í rannsóknum á litarefnum miðalda, staddir hér á landi og framkvæmdu litrófsgreiningu á skreytingum Kálfalækjarbókar og annarra íslenskra handrita. Spennandi verður að fræðast um hvað rannsóknir félaganna leiða í ljós um listaverkin í þessu handriti Njálu og hvað þær segja um bókmenningu Íslendinga um 1300.

 

 

 

 

 

 

 

 

Birt þann 15. nóvember 2021
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Einar Ól. Sveinsson. 1952. „Um handrit Njálssögu”. Skírnir, 114–152.

Lethbridge, Emily. 2014. „Hvorki glansar gull á mér / né glæstir stafir í línum” – Some Observations on Íslendingasögur Manuscripts and the Case of Njáls saga”. Arkiv för nordisk filologi 129: 55−89.

Lönnroth, Lars. 1975. „Structural Divisions in the Njála Manuscripts”. Arkiv för nordisk filologi 90: 49−79.