Skip to main content

Römm er sú taug: Vinarbréf frá Austfjörðum

Handritapistlar fjalla yfirleitt um handrit í vörslu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þessi pistill snýst hins vegar um víðförult handrit sem hafði aðeins tímabundna viðdvöl í handritageymslunni í Árnagarði. Handritið er í eigu Íslenskudeildar Háskólans í Manitóba í Winnipeg en með því að fá það lánað til Íslands var hægt að búa til stafrænt afrit sem tryggir aðgengi fræðimanna að því óháð staðsetningu.

Saga handritsins er dularfull. Petur John Buchan fann óskráð handrit í maí 2019 í bókasafni Íslenskudeildar Háskólans í Manitóba. Ekki fylgdu með upplýsingar um gefanda eða hvenær og hvernig handritið komst í hillu Íslenskudeildarinnar. Engar vísbendingar finnast heldur um það af hverju það hefur verið geymt í skrifstofuhúsnæði sem tilheyrir kennaraembættinu frekar en í aðalbókasafni háskólans.

Við nánari athugun geymir handritið fjórtán bréf frá Jóni Björnssyni (1870–1949) bónda á Kirkjubóli í Stöðvarfirði. Bréfin eru bundin saman í vandað leðurband sem ber handbragð reynds bókbindara. Kjölurinn er skreyttur með gyllingu en á kápunni stendur áletrunin VINAR-BRJEF 1891–1911.

Viðtakandi bréfanna er vesturfarinn Antoníus Þorsteinsson Ísberg (1867–1949). Antoníus fór vestur sumarið 1891 eða fáeinum mánuðum áður en Jón sendi fyrsta bréfið til hans, dagsett 8. nóvember. Antoníus, sem var þá 22 ára að aldri, hafði verið vinnumaður í Flautagerði í Breiðdalshreppi en tók upp ættarnafnið Ísberg og settist að í Baldur í Argyle.

Antoníus fékk fasta vinnu sem járnbrautarverkstjóri (e. section foreman) við CNR-félagið um 1899 og var 33 ár í því starfi. Sumarið 1907 heimsótti hann Austfirði eftir 16 ára fjarveru og kvaddi með innilegu bréfi sem birtist í Austra. Af orðum Antoníusar má sjá að hann leit á sig sem Kanadamann af íslensku bergi brotinn: „Eg var ... aðeins gestur hjá ykkur, því eg er ekki samþegn ykkar, og fjarlægist aptur á þeim tiltekna tíma, en þið létuð mig alls ekki gjalda þess, því hin alþekkta austfirzka gestrisni ... mætti mér hvar sem eg kom – þekktur sem ókunnur.“ Hann hrósaði tæknilegum framförum sem gerðu kleift að slétta landslag æskuminninganna og grínaðist með að gaman væri ef Bjólfur og gömlu heiðarnar þokuðu fyrir sléttum dal alla leið upp á Hérað.

Kona Antoníusar var Valgerður Guðmundsdóttir (Goodman). Þau giftust sumarið 1909 í Winnipeg og er aðeins eitt bréf frá Jóni skrifað eftir þann tíma, dagsett 2. september 1910. Antoníus hafði vonast til að geta boðið Jóni til Winnipeg á sýningu (líklega hina árlegu Winnipeg Industrial Exhibition) en Jón afþakkaði með svipuðum húmor og Antoníus sýndi í bréfinu til Austra: Uppfinningamaðurinn Edison þyrfti fyrst að smíða vél til að ,,draga gamla Frón vestur að ströndum Ameríku“.

Antoníus og Valgerður fluttu til Alberta og eignuðust einkasoninn William. Þaðan fóru þau til New Westminster, BC. Í manntölum sést að fjölskyldan bjó í fjölþjóðlegu samfélagi þar sem Ísland varð æ fjarlægari minning. Aftur á móti má ráða af bókbandinu að Antoníus taldi bréfin frá Jóni vera meðal dýrmætustu eigna sinna. Langlíklegast er að Antoníus hafi sjálfur látið binda inn bréfin með þessum hætti en slík meðferð á bréfum manns í hans þjóðfélagsstöðu er nánast einsdæmi. Sýnir þetta vel hve mikilvæg Íslandsbréf voru fyrir viðtakanda í Vesturheimi.

 

Birt þann 06.05.2021
Heimildir

Antoníus Þorsteinsson Ísberg, Kveðju-ávarp, Austri (15.09.1907):136.