Skip to main content

Pistlar

„Hljómi raustin barna best / blíð á þessum degi ...“

„Hljómi raustin barna best / blíð á þessum degi ...“

er upphafið á jólasálmi sem eignaður er Hallgrími Péturssyni (1614–1674). Sálmurinn hefur þó aldrei verið prentaður í íslenskri sálmabók en birtist með kvæðum og sálmum Hallgríms í svokölluðu Hallgrímskveri á Hólum 1773 og er þar 16 erindi. Þegar nánar er að gætt kemur í ljós að fyrstu þrjú erindi sálmsins eru varðveitt í eiginhandarriti samtímamanns Hallgríms, sr. Bjarna Gissurarsonar (1621–1712) í Þingmúla, og má telja það örugga sönnun þess að þau séu ort af Bjarna en ekki Hallgrími. Þegar málið var skoðað betur reyndust þrjú fyrstu erindin vera þýðing Bjarna á latneskum hymna, Personent hodie, sem meðal annars er varðveittur í mjög þekktu finnsku söngvasafni, Piæ cantiones frá 1582, en það hefur að geyma latneska kirkju- og skólasálma frá Finnlandi. En hvar komst Bjarni í kynni við sálminn? Allt bendir til þess að sálmurinn hafi verið sunginn á latínu í Skálholti því að frumtextinn er varðveittur í litlu handriti sem talið er eiga uppruna sinn þar. Í handritinu eru skólasöngvar frá siðaskiptaöld en einnig fjölmargir kaþólskir hymnar. Bjarni Gissurarson var við nám í Skálholti um 1640 og er trúlegt að þýðing hans sé frá þeim tíma. Með því að bera þýðinguna saman við frumtextann sést að Bjarni þýðir aðeins þrjú erindi af fjórum. Þau fjalla um fæðingu Jesúbarnsins, um stjörnuna sem vitringarnir fylgdu og draga upp hina þekktu mynd í fjárhúsinu. Lengri gerð sálmsins, 16 erindi, er varðveitt í fjölda handrita, og er sálmurinn þar yfirleitt eignaður Hallgrími Péturssyni. Allt bendir til þess að Hallgrímur hafi prjónað við erindin sem Bjarni hafði þýtt en framhaldið fjallar um upprisu Krists, endurkomu og lýsingu á dómsdegi en að lokum snýst sálmurinn upp í heimshryggð í anda barokktímans. Um sálminn, uppruna hans, umsköpun og útbreiðslu má lesa í tveimur greinum:

Margrét Eggertsdóttir: Hljómi raustin barna best. Uppruni, umsköpun og útbreiðsla gamals jólasálms í handritum fyrr á öldum, Pulvis Olympicus, afmælisrit tileinkað Sigurði Péturssyni, ritstj. Jón Ma. Ásgeirsson et al. (Reykjavík 2009), bls. 155–178.

Katharina Baier, Eevastiina Korri, Ulrike Michalczik, Friederike Richter, Werner Schäfke, Sofie Vanherpen: An Icelandic Christmas hymn, Hljómi raustin barna best, Gripla (25) 2014, bls. 193–250.

Hér má hlusta á barnakór syngja latneska jólasálminn í útsetningu enska tónskáldsins Johns Rutter:

 

Birt þann 9. desember 2020
Síðast breytt 24. október 2023