Skip to main content

Pistlar

Makkabear

Þegar þessi pistill birtist, 14. desember 2020, stendur ljósahátíð gyðinga, hanukkah, sem hæst. Það er átta daga hátíð sem haldin er í minningu þess er gyðingar náðu aftur yfirráðum yfir Jerúsalem — Alexander mikli hafði lagt hana undir sig í sínum miklu landvinningum og eftir hans dag höfðu Selevkídar ráðið henni. Gyðingar hreinsuðu hið forna musteri í borginni og helguðu það að nýju með því að kveikja ljós á ljósastiku og færa brennifórnir. Þetta á að hafa gerst árið 164 f.Kr. að okkar tímatali og frá atburðunum er sagt í Makkabeabókunum sem tilheyra svonefndum apókrýfum ritum Biblíunnar.

Í haust komu út hjá stofnuninni fyrstu tvö heftin í nýrri ritröð sem nefnist Fornar biblíuþýðingar. Markmiðið með henni er að koma á framfæri biblíuþýðingum frá fyrri öldum sem legið hafa óprentaðar í handritum. Annað heftið í röðinni geymir þýðingu Makkabeabókanna sem gerð var á sextándu öld, að öllum líkindum af Gísla Jónssyni Skálholtsbiskupi (um 1515–1587). Hún er aðeins varðveitt í einu handriti sem skrifað var veturinn 1574–1575 í Skálholti en komst í byrjun nítjándu aldar í hendur Skotans Ebenezers Henderson (1784–1858), erindreka Breska og erlenda biblíufélagsins. Handritið var í eigu félagsins fram á þessa öld þegar það var selt Green-fjölskyldunni í Bandaríkjunum en hún stendur fyrir Biblíusafninu í Washington (Museum of the Bible).

Þessi þýðing Makkabeabókanna er gerð úr dönsku og er á máli sem í ýmsu er framandi nútímafólki. Talsvert ber á dönskuskotnu orðfæri en einnig má sjá þar áhrif frá skrúðstíl miðalda. Svona hljóðar frásögnin um hreinsun og endurhelgun musterisins í Jerúsalem á sextándu aldar íslensku:

„Nú sem þeir komu og sáu hvörnin helgidómurinn var í eyði, altarið saurgað, portin upp brotin og að flöturinn allt um kring var grasi vaxinn svo sem skógur eða fjalllendi, og svo prestaherbergin voru við velli fallin, þá sundurrifu þeir sín klæði og aumkuðust og syrgðu harðla mjög, vörpuðu ösku í sín höfuð, féllu til jarðar fram á sínar ásjánur og blésu í sín hljóðfæri og hrópuðu til guðs á himnum. Og Judas útvaldi einn hóp með duganligt stríðsfólk og skyldu geyma þá heiðingja sem slotið áttu að halda svo þeir mættu hvergi á burt komast eða óvart áhlaup gjöra svo lengi sem hann léti hreinsa helgidóminn. Og hann tók þá presta til sín sem ekki höfðu saurgað sig heldur höfðu staðið staðfastir í lögmáli drottins og þeir hreinsuðu helgidóminn og báru þá svívirðing í burt og þá saurugu steina út á einn óhelgan stað.

Og sökum þess að brennioffursins altari var saurgað og svívirt þá ráðguðust þeir sín á milli hvörnin þeir skyldu þar með fara og tóku fyrir sig eitt gott ráð sem var að það skyldi aldeilis niður brjótast svo þar mætti ekki forargan[1] af koma fyrst að heiðingjarnir höfðu saurgað það. Og því var altarið aldeilis niður brotið og þeir bívöruðu þessa steina á fjallinu hjá nokkru húsi í einum sérligum stað svo lengi að einn spámaður kæmi og undirvísaði þeim hvað af þessum steinum skyldi verða. En þeir tóku sér aðra nýja úthöggna steina svo sem lögin buðu og byggðu upp eitt nýtt altari eins og það sem áður var. Og þeir byggðu upp aftur helgidóminn, stólana og herbergin fyrir prestana og þeir létu gjöra ein ný heilög ker og þá gullligu kertisstiku, reykelsisaltarið og borðið og færðu þetta aftur í mustérið. Og þeir gáfu reykilsi á altarið og tendruðu lampa á kertastikuna svo að ljóst og bjart yrði í mustérinu. Þeir lögðu og brauð á borðið og hengdu upp fortjaldið og prýddu með allri fágan guðs mustéri í gen. Og á þeim fimmta og tuttugasta degi á þeim níunda mánaði sem kallaðist casleu á því hundraðasta átta og fertuganda ári þá stóðu þeir snemma upp og upphófu aftur að offra á brennioffursins altari. Og það var það eð fyrsta offur eftir það að heiðingjarnir höfðu saurgað og svívirt helgidóminn og þetta offur upphófu þeir aftur með sönghljóðum, pípum, hörpum, symbalis og allra handa hljóðfærum og allt fólkið féll niður á sínar ásjónur, báðust fyrir, lofuðu guð á himnum, hvör að þeim hafði gefið lukku og sigur. Og þeir héldu þess nýja altaris hátíð átta daga í samt og offruðu brennifórnum og þakklætisoffri þar upp á með gleði. Og þeir prýddu mustérið með gylltum krönsum og skjöldum og gjörðu ný port og herbergi. Og þar var mikil gleði á meðal fólksins að sú forsmánan var tekin frá þeim sem heiðingjar höfðu lagt þeim á. En Judas og hans bræður og allt Jakobshús sambundu að sú nýja altarishátíð skyldi haldast hvört ár frá þeim fimmta og tuttugasta degi á þeim mánuði casleu átta daga samfellda með gleði og þakkargjörð."

(Makkabear, útg. Karl Óskar Ólafsson og Svanhildur Óskarsdóttir. Fornar biblíuþýðingar II. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2020, bls. 20–22.)

Þess má geta að gyðingar nota sérstaka kertastiku á ljósahátíðinni, svokallaða menorah sem hefur átta eða níu kerti. Kertin átta tákna dagana átta en níunda kertið er notað til að kveikja á hinum.

 

 

[1] hneykslun.

Birt þann 14. desember 2020
Síðast breytt 24. október 2023