Skip to main content

Pistlar

Heilagur Nikulás

Öll börn hérlendis kannast við íslensku jólasveinana þótt stundum sé deilt um hve margir þeir séu — einn og átta, þrettán, fleiri eða færri. Það er líka uppi ágreiningur um búnað þeirra, svo sem hvort þeir hafi gildan eða gylltan staf í hendi. Á meginlandi Evrópu, ekki síst í Niðurlöndum, er jólasveinninn aðeins einn, hann Sankti Kláus, heilagur Nikulás, og enginn vafi á því að hann klæðist rauðri kápu og ber gylltan staf. Dagurinn hans er 6. desember og þann dag fá börn í Hollandi, Belgíu og víðar gjafir sem látið er heita að Kláus hafi fært þeim.

Heilagur Nikulás var um langan aldur einn af dýrlingum kaþólsku kirkjunnar en það er margt á huldu um sögulegan uppruna hans. Hann er sagður hafa verið uppi á 3. og 4. öld e.Kr. og verið biskup í Mýru í Lýkíu sem nú er í Tyrklandi. Á miðöldum óx mjög átrúnaður á hann og breiddist út til Vestur-Evrópu, ekki síst eftir að bein biskupsins voru flutt til borgarinnar Bari á Ítalíu síðla á 11. öld. Heilagur Nikulás var verndardýrlingur sæfarenda og kaupmanna og því engin furða að Hollendingar hafi tekið miklu ástfóstri við hann og meðal annars gert hann að verndardýrlingi Amsterdam-borgar. Nikulás var líka í hávegum hafður hérlendis á kaþólskri tíð enda treystu Íslendingar löngum á siglingar. Margar kirkjur hérlendis voru helgaðar honum, til dæmis Oddakirkja á Rangárvöllum, Bessastaðakirkja, kirkjan í Haga á Barðaströnd og sú að Ærlæk í Öxarfirði. Latneskar helgisögur um heilagan Nikulás voru snemma þýddar á norrænu; elsta brot sem varðveitt er úr Nikulás sögu (AM 655 III 4to) er talið skrifað laust fyrir 1200. Eftirfarandi frásögn er úr sögunni og skýrir ef til vill hvers vegna biskupinn í Mýru varð fyrirmynd jólasveinsins sem laumar gjöfum inn um glugga að næturþeli.

„[Þ]á bar volað að einum borgarmanni, þeim er auðigur hafði verið, en hann varð svo volaður að hann hafði sér eigi atvinnu. Þá vildi hann selja dætur sínar þrjár til saurlífis. En það fór brátt um borgina og varð mönnum fjölrætt um það. En er Nicholas frá þetta, þá harmaði hann vesöld þeirra og þóttist hann eigi mega sjá betra ráð fyrir aurum sínum en að renna því ráði að kyngöfgar meyjar væri til saurlífis seldar, en hann vildi engan annan hafa vott en Krist að verki sínu. Þá leitaði hann þess, ef hann mætti svo gefa að sá vissi eigi til sem gefið væri. Þá fór biskup nokkura nótt til húss hins volaða manns og batt gull í dúki og kastaði því inn í glugg er var á húsinu, og varð engi var við það er hann kom þangað né við það er hann fór þaðan. En er hinn volaði maður reis upp að morgni og fann gullið, þá felldi hann tár og gerði guði þakkir og gróf síðan eftir hver sá maður væri er svo mikla huggun hafði honum veitta og mátti hann eigi þess vís verða.“ (Heilagra manna sögur II, útg. C.R. Unger. Christiania 1877, bls. 22–23).

Birt þann 3. desember 2020
Síðast breytt 24. október 2023