Skip to main content

Pistlar

Endurunnin kaþólsk messubók. KB Thott 154 fol.

Eitt fegursta íslenska nótnahandrit sem varðveist hefur er geymt í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn og á sér sérkennilega sögu. Upphaflega var þetta latnesk messubók, líklega rituð á Englandi á síðasta fjórðungi 14. aldar. Um aldamótin 1600 var bókin komin til Íslands en hún var vita gagnslaus í hugum lútherskra. Því var textinn skafinn upp og bókfellið notað á nýjan leik en lýsingarnar látnar ósnertar. Messubókin var í upphafi tvídálka og í mun stærra broti en grallarahandritið er nú en þegar handritið var endurunnið var hvert blað þess skorið um miðjuna og brotið í tvennt svo að fjögur blöð fengjust úr einu. Handritið er að megninu til uppskrift Grallarans 1594, líklega ritað um 1595–1610. Fremst og aftast í bókinni er efni sem aukið var við síðar, sumt tekið úr prentuðum sálmabókum en annað er hvergi varðveitt nema hér.

Á fyrsta blað bókarinnar er skrifað með yngri hendi: „Þennan Grallara á ég undirskrifaður, hvörn ég hef að erfðum fengið Anno 1702 15 septembris. Einar Ísl[eifsson].“ Einar var bóndi á Suður-Reykjum í Mosfellssveit, kominn af bændum í föðurætt en prestum og söngfólki í móðurætt. Telja má sennilegt að hann hafi fengið handritið frá móðurafa sínum, Markúsi Snæbjarnarsyni (1619–1697) sýslumanni í Vestmannaeyjum, sem „lagði sig eftir sönglist“ að því er heimildir segja. Afi Markúsar var Stefán Gíslason (1545–1615), prestur í Odda og sonur Gísla Jónssonar Skálholtsbiskups. Má vera að Stefán hafi átt handritið, jafnvel skrifað það eða látið skrifa fyrir sig. Að minnsta kosti hefur slíkur kostagripur sómt sér vel á menntasetri og stórbýli eins og Odda.

Á 18. öld eignaðist bókina Otto Thott greifi (1703–1785), valdamikill maður í ríkisstjórninni og mesti bókasafnari Dana. Ánafnaði hann Konungsbókhlöðu handritasafnið eftir sinn dag og þar er þetta fagra handrit enn. Ekki er vitað hvaðan Thott fékk bókina en hann átti á annað hundrað íslenskra handrita og var handgenginn ýmsum íslenskum menntamönnum, meðal annars Jóni Eiríkssyni konferensráði í Kaupmannahöfn og Hannesi Finnssyni sem síðar varð biskup í Skálholti.

Á myndinni má sjá upphafssálm messunnar á jóladag, eins og lesa má af yfirskriftinni: „Á fæðingardegi lausnarans Jesú Christi. Introitus.“ Það var vandasamt að endurvinna handrit með þeim hætti sem hér sést. Meðal annars þurfti íslenski skrifarinn að gæta að því að lýsing var einnig upphafsstafur fyrsta orðs í þeim texta sem skrifaður var. Stundum tókst að fella lýsingarnar að kveðskap Grallarans en í öðrum tilvikum eru þær aðeins til skrauts án tillits til þess á hvaða bókstaf viðkomandi sálmur hefst. Hér myndar lýsingin til dæmis bókstafinn G, enda fylgdi henni inngöngusöngurinn Gaudeamus omnes, en íslenski sálmurinn hefst á orðinu „Frelsarinn“ og því þurfti að rita annan upphafsstaf fyrir ofan hinn lýsta. Þessi blöð eru vitnisburður um útsjónarsemi skrifarans sem skapaði eitt fegursta íslenska nótnahandrit sem varðveist hefur með því að endurvinna enska bók sem engum var lengur til gagns.

 

Höfundur: Árni Heimir Ingólfsson.

Birt þann 8. september 2021
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Árni Heimir Ingólfsson. Tónlist liðinna alda. Reykjavík: Crymogea, 2019.

Bogi Benediktsson. Sýslumannaæfir 4. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1909–1915.

Jón Helgason. Hannes Finnsson biskup í Skálholti. Reykjavík: Hið íslenzka bókmentafjelag, 1936.

Petersen, Carl S. Det Kongelige Biblioteks Haandskriftsamling. Kaupmannahöfn: Ejnar Munksgaard, 1943.