Bókmenntaverðlaun bóksala eru veitt á hverju ári. Í sjónvarpsþættinum Kiljunni í gær var tilkynnt hvaða bækur bóksalar landsins vilja verðlauna. Í flokknum handbækur og fræðibækur var Íslenska teiknibókin valin sú besta og 66 handrit úr fórum Árna Magnússonar lenti í 3. sæti. Árleysi alda var valin besta ljóðabókin.
Þriðjudaginn 10. desember kl. 16 verður nýju vefnámskeiði, Icelandic Online 5, hleypt af stokkunum. Um er að ræða námskeið fyrir lengra komna nemendur með höfuðáherslu á flóknari orðaforða og menningarlæsi. Opnunin verður í nýja salnum á Háskólatorgi og verður boðið upp á léttar veitingar.
(Fréttatilkynning frá Bókaútgáfunni Opnu 13.11.2013)
MEÐ BÆKUR Á HEILANUM
Í dag kemur út bókin 66 handrit úr fórum Árna Magnússonar, sem gefin er út í tilefni þess að 350 ár eru liðin frá fæðingu hins stórtæka bókasafnara, Árna Magnússonar. Lesendum gefst kostur á að kynnast þeirri fjölskrúðugu auðlegð sem Árni bjargaði frá glötun á sínum tíma. Gersemarnar hafa fram til þessa verið lítt aðgengilegar almenningi. Alls eru um 3000 handrit í safninu frá miðöldum og síðari öldum.[Mynd 1]