Skip to main content

Fréttir

Íslensk-frönsk orðabók

Sendiráð Frakklands á Íslandi, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum hafa undirritað samkomulag um undirbúning að gerð íslensk-franskrar orðabókar en slík orðabók kom síðast út árið 1950. Verkefnið hefur hlotið styrk frá efri deild franska þingsins, 10.000 evrur, sem mun standa straum af kostnaði við verkið, auk þess sem sendiráðið leggur til starfsmann. Markmiðið er að leggja grunn að stærra verki milli íslensku og frönsku sem byggir á íslenskum orðabókargrunni sem unninn hefur verið hjá SÁM og hefur að geyma 50.000 orð ásamt fjölda dæma og orðasambanda.

Starfsmenn undirbúningsverkefnisins eru Rósa Elín Davíðsdóttir, doktorsnemi við HÍ og Sorbonne háskóla sem hefur umsjón með franska hlutanum, og Maxence Dupuis, meistaranemi við Sorbonne háskóla. Ritstjórar íslenska orðagrunnsins, Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir, á orðfræðisvið SÁM, hafa með umsjón með íslenska hlutanum.

 

Sendiherra Frakklands á Íslandi, Marc Bouteiller, Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands, við undirritun samkomulagsins. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir – 2014.

 

Við undirritun samkomulags um undirbúning að gerð íslensk-franskrar orðabókar. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir – 2014.