Skip to main content

Fréttir

Málvísindakaffi

Nýi-Garður Háskóli Íslands.

 

Í málvísindakaffi Íslenska málfræðifélagsins og Málvísindastofnunar HÍ nk. föstudag, 21. mars, segja Gyða Erlingsdóttir og Hjördís Alda Hreiðarsdóttir frá rannsókn sem þær gerðu ásamt Þorsteini Surmeli á námsefni og kennsluháttum í málfræðikennslu í framhaldsskólum. Málvísindakaffið er að venju í stofu 301 í Nýja-Garði. Það hefst kl. 11.45 og lýkur um kl. 12.45.

Nánari lýsing á efni erindisins:

Í stundatöflum íslenskra nemenda er íslenskukennslu jafnan skipt í nokkra hluta eftir því hvað þykir við hæfi að fjalla um í móðurmálskennslunni. Þar er gefinn tími fyrir bókmenntir, málfræði, ritun og stafsetningu. Oft hefur verið skoðað og endurskoðað í námskrám skólanna hvað skuli kenna sem er eðlilegt þar sem þjóðfélagið er í stöðugri þróun og skólastarfið á að sjálfsögðu að endurspegla það sem um er að vera þar á hverjum tíma. Af einhverjum ástæðum hefur málfræðin orðið útundan í þessari endurskoðun og þar af leiðandi minna þar um þróun kennsluefnis og kennsluhátta. Þetta þyrfti að endurskoða og æskilegt væri að setja málfræðina í samhengi við hið lifandi tungumál og ekki aðeins einblína á form hennar heldur frekar virkni. Í erindinu verður fjallað um rannsókn þriggja íslenskukennaranema á námsefni og kennsluháttum í málfræðikennslu í framhaldsskólum. Kannað er hvernig megi færa þungamiðjuna frá formlegri málfræði sem byggir á hugtakaskilgreiningum að virkni tungumálsins sem byggir á notkun þess. Slík framþróun í málfræðikennslu ætti að vera árangursrík vegna þess að nemendur geta vel tengt við virkni málsins þar sem þeir eru auðvitað sjálfir málnotendur. Námið verður því bæði skemmtilegra og fróðlegra fyrir vikið og markmið málfræðikennslu verða skýrari og auðveldara að ná þeim.