Skip to main content

Fréttir

Þórunn Sigurðardóttir ver doktorsritgerð sína 7. mars

Þórunn Sigurðardóttir. Ljósmyndari Jóhanna Ólafsdóttir.

 

Doktorsvörn: Heiður og huggun. Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld
7. mars 2014 kl. 13
Aðalbygging, Hátíðasal

Föstudaginn 7. mars fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands í Hátíðasalnum í aðalbyggingu Háskólans. Þá ver Þórunn Sigurðardóttir doktorsritgerð sína: Heiður og huggun. Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld.

Andmælendur eru Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, og Jürg Glauser, prófessor við Háskólann í Zurich. Guðni Elísson, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu og hefst klukkan 13:00.

Um efni ritgerðarinnar

Tækifæriskvæði af ýmsu tagi voru afar vinsæl kveðskapartegund á árnýöld, þótt ekki sé hægt að merkja það í ritum um íslenska bókmenntasögu. Dálítið er þó fjallað um erfiljóð í bókmenntasögunni en allt er það á eina lund, kvæðin eru sögð fábrotið lof um hinn látna í ljósi kristilegra dyggða, laus við allt raunsæi og djúpnæmar tilfinningar.

Þórunn notar m.a. kenningar um bókmenntagreinar (genre theory) til að endurskilgreina erfiljóð frá 17. öld og jafnframt aðskilja sum kvæði sem ort voru að samtímamönnum skáldanna látnum frá hefðbundnum erfiljóðum. Þessi kvæði sýnir hún fram á að tilheyri öðrum kvæðagreinum, enda sé tilgangur þeirra og hlutverk annað en erfiljóða, og framsetning þeirra efnisþátta sem einkenna allar huggunarbókmenntir árnýaldar önnur. Þessar kvæðagreinar kallar  hún harmljóð og huggunarkvæði, og sýnir fram á að það skiptir máli fyrir lestur, skilning og túlkun á kvæðunum hvaða kvæðagrein miðað er við. Erfiljóð voru fyrst og fremst ort til heiðurs hinum látna og fjölskyldu hans. Í þeim er sagt frá lífi hins látna í þriðju persónu frásögn. Harmljóð eru aftur á móti í fyrstu persónu, þar sem ljóðmælandi fjallar um ástvina-missi sinn. Með harmljóðum er þeim sem misst hafa ástvin sinn látið í té tæki (texta í bundnu máli) til að vinna úr sorginni. Þau eru eins konar sálfræði¬meðferð í bundnu máli. Huggunarkvæði eru í formi ávarps vinar þeirra sem misst hafa ástvin sinn, þar sem hann mælir til þeirra huggunarorðum.

Rannsakað var úr hvaða jarðvegi kvæðagreinarnar eru sprottnar og hvaða bókmenntalegar hefðir liggja þeim til grundvallar, en einnig það félagslega umhverfi sem þær tilheyrðu. Með aðferðum nýju söguhyggjunnar (new historicism) var sýnt fram á að kvæði sem ort voru í tilefni af andláti einstaklinga hafi haft ákveðnu félagslegu hlutverki að gegna sem lýtur bæði að skáldunum sem ortu kvæðin, þeim sem ort var um og þeim sem kvæðin voru ætluð. Þetta hlutverk hafi enn fremur tengst bæði félagslegu og menningarlegu valda¬kerfi sem birtist bæði í efni kvæðanna og formi. Kvæðagreinarnar eru einnig notaðar til að sýna hin beinu og sterku tengsl samfélags og bókmennta á árnýöld og hversu mikilvægar þær voru fyrir mannlíf og menningu í landinu.

Um doktorsefnið

Þórunn Sigurðardóttir fæddist 14. janúar 1954. Hún er með B.A.-próf í íslensku og almennri bókmenntafræði og M.A.-próf í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands. Þórunn hefur um árabil stundað rannsóknir á bókmenntum síðari alda, auk þess að starfa við handritaskráningu og útgáfu texta úr handritum. Hún vann í nokkur ár hjá The Fiske Icelandic Collection í Cornell-háskóla, var framkvæmdastjóri Rannsóknastofu í kvennafræðum við Hákskóla Íslands um þriggja ára bil og sjálfstætt starfandi fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni. Lengst hefur hún starfað á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, bæði sem starfsmaður stofnunarinnar í ýmsum verkefnum og sem gestafræðimaður.