Skip to main content

Fréttir

Lagt inn í nýyrðabankann daglega

Nýyrðabanki Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (nyyrdi.arnastofnun.is) er vettvangur þar sem hægt að senda inn nýyrði. Bankinn hefur staðið almenningi opinn í rúman mánuð og gefur öllum kærkomið tækifæri til að leggja mat sitt á innsend nýyrði með því að gefa þeim „þumal upp“ eða „þumal niður“. Einnig má skrifa athugasemdir við nýyrði, s.s. að nefna dæmi um notkun nýyrðis eða að ræða mismunandi skýringar.

Styrkir Snorra Sturlusonar 2019

Í tilefni af 750. ártíð Snorra Sturlusonar, 23. september 1991, ákvað ríkisstjórn Íslands að efna til styrkja sem kenndir yrðu við nafn hans. Samkvæmt reglum um styrkina, sem gefnar voru út 1992, skulu þeir árlega boðnir erlendum rithöfundum, þýðendum og fræðimönnum til að dveljast á Íslandi í því skyni að kynnast sem best íslenskri tungu, menningu og mannlífi. Styrkirnir skulu veittir í þrjá mánuði hið minnsta og miðast við greiðslu á ferðakostnaði styrkþega og dvalarkostnaði innanlands.

Guðmundar sögur biskups II

Út er komið í ritröð Árnanefndar í Kaupmannahöfn, Editiones Arnamagnæanæ (Series B, vol. 7), annað bindi sagna um Guðmund góða Arason; sú gerð sem kölluð hefur verið B-gerð (GB). Guðmundur fæddist 1161 og var Hólabiskup frá 1203 til dauðadags 1237.

Sigurtunga – Vesturíslenskt mál og menning

Út er komin bókin Sigurtunga – Vesturíslenskt mál og menning í ritstjórn Birnu Arnbjörnsdóttur, Höskuldar Þráinssonar og Úlfars Bragasonar. Bókin inniheldur safn greina eftir 20 höfunda. Þær tengjast nýrri rannsókn á máli og menningarlegri sjálfsmynd fólks af íslenskum uppruna í Vesturheimi og fjalla um sögu vesturfaranna, bókmenntir og málþróun vestra. Forseti Íslands skrifar formála.

Drottning skoðar Lífsblómið

Margrét Þórhildur Danadrottning kom á sýninguna Lífsblómið – Fullveldi Íslands í 100 ár í Listasafni Íslands 1. desember 2018, ásamt Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands og Elizu Reid forsetafrú. Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands, Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Eiríkur Guðmundsson þjóðskjalavörður og Sigrún Alba Sigurðardóttir sýningarstjóri tóku á móti gestunum við komu í safnið. Guðrún Nordal gekk síðan með drottningu, forsetahjónunum og föruneyti um sýninguna.

Hátíðardagskrá á degi íslenskrar tungu

Hátíðardagskrá í menningarmiðstöðinni Nýheimum á Höfn í Hornafirði á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember 2018, kl. 16-17.

 

16.00   Hátíðardagskráin sett

16.05   Ljóðalestur: Stígur Aðalsteinsson

16.08   Nokkur orð, ný og gömul – Guðrún Nordal

16.10   Nýyrðabankinn – Ágústa Þorbergsdóttir

16.15   Skólabörn kynna nýyrði sem þau hafa smíðað

16.20   Opnun Nýyrðabankans með skólabörnum

16.23   Tónlistaratriði: Anna Lára Grétarsdóttir leikur á píanó

16.26   Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra

Viðurkenningar Íslenskrar málnefndar

Málræktarþing Íslenskrar málnefndar var haldið í Þjóðminjasafninu 15. nóvember sl. Að þessu sinni beindi Íslensk málnefnd sjónum sínum að ferðamennsku og notkun íslenskunnar hjá fólki sem hefur hana ekki að móðurmáli. Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, ávarpaði þingið og í kjölfarið fylgdu erindi annarra fyrirlesara. Í lok málþingsins voru afhentar viðurkenningar fyrir framlag til íslenskunnar.

Notendakönnun um Málið.is – Verðlaunahafar

Notendakönnun um Málið.is fór fram dagana 24. október til 15. nóvember. Þeim fjölmörgu sem tóku þátt í henni eru færðar bestu þakkir fyrir svörin, ábendingar um vefgáttina og falleg orð um hana.

Dregin voru þrenn bókaverðlaun úr netföngum þátttakenda.

Hin heppnu eru Elísabet Ásta Ólafsdóttir, Frank Arthur Blöndahl Cassata og Rannveig Sverrisdóttir.

Bækurnar eru Sálumessa (Gerður Kristný), Ungfrú Ísland (Auður Ava Ólafsdóttir) og Ég hef séð svona áður (Friðgeir Einarsson).

 

Niðurstöður notendakönnunarinnar verða kynntar bráðlega.