Skip to main content

Fréttir

Af ársfundi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 2019

Á fundinum fluttu ávarp: Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Dagný Jónsdóttir, formaður stjórnar stofnunarinnar og Guðrún Nordal forstöðumaður. Dagskráin var fjölbreytt og fræðandi. Létt var yfir fundinum þar sem nýlega höfðu borist fregnir um að búið væri að samþykkja tilboð um byggingu Húss íslenskunnar en grunnur byggingarinnar hefur staðið óhreyfður að mestu síðan fyrsta skóflustungan var tekin í mars 2013. Gróður hefur því náð að skjóta rótum um árabil og hafa starfsmenn Árnastofnunar tekið upp um 100 sjálfsáðar trjáplöntur og sett í gróðurpotta.

Guðrún Nordal forstöðumaður sleit fundi með því að afhenda Jóhannesi Benediktssyni, formanni Skógræktarfélags Reykjavíkur og Helga Gíslasyni, framkvæmdastjóra hjá Skógræktinni plönturnar og lét þess getið að um leið væri búið að kolefnisjafna fyrir fundinn þar sem dreift var t.a.m. prentaðri ársskýrslu. Skógræktarmenn veittu framtíðarskóginum viðtöku og sögðust mundu sjá til þess að ræktaður yrði upp trjálundur í Heiðmörk sem minnti á auðlegðina sem felst í íslenskum fræðum.

Stærsta trjáplantan sem þeir höfðu á brott með sér var um 2,5 m á hæð og hafði skotið djúpum rótum í grunninum.