Skip to main content

Pistlar

Orð í orðabókum

Ljós fellur skáhallt á orðabókarsíðu. Skuggar falla á hornin.
Orðabók Sigfúsar Blöndals.
SSJ

Orðaforði tungumálsins er síbreytilegur. Ný orð verða til og önnur úreldast eða hverfa smám saman úr notkun. Orðabækur gegna meðal annars því hlutverki að fanga orðaforða samtímans og lýsa honum. Þetta á einkum við um einsmálsorðabækur þar sem bæði uppflettiorð og skýringar á þeim eru á sama tungumáli. Gerður er greinarmunur á slíkum orðabókum og tvímálaorðabókum þar sem hægt er að fletta upp orðum á einu tungumáli og sjá jafnheiti þeirra á öðru.

Íslensk orðabók, oft kölluð orðabók Menningarsjóðs eða kennd við fyrsta ritstjóra hennar Árna Böðvarsson, er líklegast best þekkta íslenska einsmálsorðabókin enda var hún lengi vel sú eina. Orðaforðinn sem lýst er í henni er að miklu leyti fenginn úr eldri orðabók, Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals (1921–1924), orðabók með íslenskum uppflettiorðum og dönskum orðskýringum. Orðabók Blöndals er yfirgripsmikil lýsing á máli samtímans og í henni er hægt að fletta upp yfir 100.000 orðum. Íslensk orðabók kom fyrst út árið 1963 og í endurskoðaðri og aukinni gerð árið 1983 og aftur 2002. Síðasta útgáfa þessarar orðabókar kom út á prenti 2010 en síðan hefur vinnu við hana verið hætt og er ljóst að hún mun ekki koma út aftur í sömu mynd.

Það er þó enn mikil eftirspurn eftir orðabók sem geymir upplýsingar um lifandi mál samtímans. Árið 2013 var hafin vinna við nýja íslenska orðabók á vegum Árnastofnunar sem ber heitið Íslensk nútímamálsorðabók (ÍNO) og er eingöngu birt á vefnum. Ritstjórar ÍNO eru Þórdís Úlfarsdóttir og Halldóra Jónsdóttir. Þessi orðabók er sprottin af vinnu þeirra við tvímálaorðabækur undir hatti ISLEX sem er veforðabók milli íslensku og tungumála á Norðurlöndum. Fyrsta gerð ÍNO innihélt um 48.500 íslensk orð sem náðu yfir stærstan hluta orðaforða nútímamáls en síðan orðabókin birtist fyrst á netinu hefur verið aukið við hana efni úr ýmsum áttum og er hún nú rúmlega 56.000 orð. Forvitnilegt er að athuga nánar hvaða orð það eru sem hafa bæst við og með hvaða hætti þau hafa verið tekin upp í orðabókina.

Þegar litið er á gögn ÍNO má sjá að það eru einkum fjórar leiðir sem notaðar hafa verið til að bæta við orðum. Flest ný orð eiga uppruna sinn í svokallaðri Risamálheild (RMH) sem er stórt markað textasafn og inniheldur yfir tvo milljarða orða. Efniviðurinn eru rafrænir textar af ýmsu tagi, t.d.: dagblöð, tímarit, alþingisræður, dómar, spjallþræðir og íslenskar wikipediu-síður. Upplýsingar úr Risamálheildinni hafa verið keyrðar saman við uppflettiorðin í ÍNO og þeim orðum bætt við sem mörg dæmi eru um, en höfðu ekki enn ratað inn í orðabókina. Nokkur þúsund orð hafa komið inn í ÍNO með þessum hætti og má hér nefna fáein dæmi eins og poppsöngvari, popúlisti, portvín, prakkaraskapur og prósaljóð.

Stafli af orðabókum.
Orðabækur.
SSJ

Hinar þrjár leiðirnar til að auka við ÍNO eru: sértæk orðtaka, upplýsingar frá notendum og ritstjóraviðbætur. Sértæk orðtaka getur t.d. átt sér stað þegar umræða um tiltekin viðfangsefni verður áberandi í samfélaginu, t.d. farsóttir eða eldgos. Eftir að eldsumbrot hófust á Reykjanesskaga voru ýmis jarðfræðiorð skyndilega á allra vörum. Orð eins og brennisteinsdíoxíð, bráðarugl, loftgæði og skyndidauði eru meðal orða sem voru orðtekin úr leiðbeiningabæklingi sem gefin var út af Umhverfisstofnun og fleiri aðilum vegna hættu af eldgosum. Notendur ÍNO hafa einnig bent á orð sem þeim finnst vanta í orðabókina og eru orðin gagnaver, fjarfundur og menningarnám dæmi um slíkar viðbætur. Ritstjórar orðabóka Árnastofnunar rekast stundum á orð úr ýmsum áttum sem ekki eru í ÍNO. Orðin snjallúr, spjallmenni, vélþýðing og tveggja þátta auðkenning eru allt dæmi um orð sem tekin hafa verið inn í ÍNO í tengslum við vinnu með orðabækur stofnunarinnar.

Það er ljóst að ÍNO er gagnleg netheimild og sýnir vaxandi fjöldi notenda að hún er mjög vinsæl. Til að orðabókin endurspegli samtímamálið sem best þarf stöðugt að bæta við nýjum orðum og auka við það efni sem þegar er fyrir hendi. Markmiðið er að notendur geti auðveldlega fundið þær upplýsingar um íslenskan orðaforða sem þeir leita að. Í framtíðinni er líklegt að notast verði við fleiri leiðir en þessar fjórar sem nefndar hafa verið til að viðhalda og bæta við orðum og upplýsingum um einstök orð. Nýlega hafa verið þróuð sérstök vélræn orðtökutól sem hægt er að beita á valda texta eða vefsíður og með þeim hætti finna orð sem virðast vera í talsverðri notkun en ekki eru til staðar í orðabókinni. Ef væntingar ganga eftir mun beiting slíkra tóla auðvelda nauðsynlega viðhaldsvinnu við orðabókina og festa hana enn frekar í sessi sem eina helstu uppsprettu orðfræðilegra upplýsinga um íslenskt nútímamál.

Birt þann 9. apríl 2024
Síðast breytt 9. apríl 2024