Á hverju ári velur Árnastofnun orð ársins og byggist það val á gögnum sem stofnunin viðar að sér á árinu, einkum fréttatextum. Í ár varð orðið vangreiðslugjald fyrir valinu en það merkir gjald vegna vangreiðslu og er m.a. innheimt af eigendum ökutækja sem ekki greiða fyrir gjaldskylt bílastæði innan tiltekins tímaramma. Um orð ársins má lesa á Mannamál.is.
En þótt vangreiðslugjald hafi verið valið orð ársins af starfsmönnum Árnastofnunar virðast notendur orðabóka hafa verið að velta allt öðrum orðum fyrir sér á árinu. Tekinn var saman listi yfir uppflettingar á vefjum stofnunarinnar og hér verður tæpt á því helsta sem þar kemur í ljós.
Málið.is
Vefgáttin Málið hefur að geyma á þriðja tug orðabóka sem ná yfir íslenskt nútímamál og eldra mál allt frá siðaskiptum. Þótt gáttin nái yfir fjölmargar erlendar orðabækur er aðeins hægt að fletta upp íslenskum orðum. Tólf vinsælustu orðin í vefgáttinni málið.is árið 2025 voru eftirfarandi:
- leyti
- leiti
- lýst
- holt
- ýfa
- askur
- hundur
- orð
- dramb
- stofn
- aufúsugestur
- speja
Þótt erfitt sé að draga miklar ályktanir út frá þessum lista má þó sjá ákveðin mynstur. Notendur virðast til dæmis vera að velta fyrir sér hvort orð séu skrifuð með i eða y. Á toppnum tróna nafnorðin leiti og leyti. Í Málfarsbanka Árnastofnunar sem er á Málinu má sjá eftirfarandi athugasemd:
Íslensk nútímamálsorðabók
Vinsælustu orðin í Íslenskri nútímamálsorðabók síðastliðið ár voru þessi:
- segja
- leggja
- hittast
- sjá
- ennþá
- hundur
- senda
- fara
- finna
- einhver
- kvár
- hestur
Eins og sjá má eru þessi orð almennara eðlis en algengustu leitarorðin á Málinu. Munurinn á sér eflaust ýmsar skýringar, m.a. þá að Íslensk nútímamálsorðabók er mikið notuð af annarsmálshöfum sem vilja nálgast skilgreiningar orða og einföld notkunardæmi. Málið er hins vegar flóknari í notkun og býður upp á fleiri möguleika fyrir reynda málnotendur sem vilja kanna orð frá ýmsum hliðum, m.a. heimildir úr eldra máli og orðsifjar. Í fimmta sæti má þó sjá orðið ennþá. Draga mætti þá ályktun að notendur séu ekki vissir hvort rétt ritmynd sé enn þá eða ennþá.
Ef listinn yfir vinsælustu orðin í Íslenskri nútímamálsorðabók er skoðaður í heild sinni kemur ýmislegt fleira í ljós. Notendur velta til dæmis fyrir sér nafnorðinu kvár.
Fjölskylduorð eru algeng uppflettiorð í Íslenskri nútímamálsorðabók þótt þau komist ekki í fyrstu tólf sætin, t.d. sonur, systir og faðir. Þessi orð hafa löngum verið vinsælt viðfangsefni í málfræðikennslu á Íslandi og ekki ósennilegt að einhverjir séu að athuga hvernig orðin fallbeygjast.
Önnur orð neðar á tíðnilistanum sem benda til áhuga notenda á málfarslegum atriðum eru morgunn, hlægja og hlakka. Þar gætu notendur verið að velta fyrir sér eftirfarandi spurningum: Hvenær á að skrifa morgun og hvenær morgunn? Er merkingarmunur hlæja og hlægja? Hvort er talið betra að segja ég hlakka til eða mig hlakkar til í formlegu máli?
Beygingarlýsing íslensks nútímamáls
Þegar litið er sérstaklega til beyginga orða kemur annað mynstur í ljós. Samkvæmt heimsóknartölum BÍN eru eftirfarandi orð mest skoðuð:
- vera
- fara
- hafa
- nýr
- hestur
- þessi
- koma
- minn
- bók
- vinna
- maður
- kona
Flettingarnar í orðabókum og niðurstöður þjónustukannana benda til þess að stór hluti þeirra sem heimsækja vefi Árnastofnunar séu annarsmálshafar. Tólf vinsælustu orðin á BÍN má telja til kjarnaorðaforða íslensku, þ.e. orð sem koma fyrir í kennsluefni í íslensku fyrir byrjendur. Önnur skýring á vinsældum þessara orða gæti verið sú að uppflettiorðin gætu tengst verkefnum í grunnskólum landsins, þ.e. að verið sé að kenna nemendum að nota BÍN með því að láta þá fletta upp ákveðnum orðum.
Höfundar greinar: Helga Hilmisdóttir og Trausti Dagsson.
Síðast breytt 22. desember 2025




