Skip to main content

Pistlar

Net til að veiða vindinn

Í veðurathugunum og veðurmælingum hefur löngum verið leitast við að skilgreina mismunandi vindstyrk. Fyrrum var aðeins unnt að meta veðurhæð út frá þeim áhrifum vinds sem fólk gat greint, á sjó og landi. Enda þótt vindhraðamælar hafi þróast allt frá 15. öld voru þeir fágætir öldum saman. Undir lok 18. aldar hafði Sveinn Pálsson loftvog og hitamæli til umráða í sínum veðurathugunum en engan vindhraðamæli. Þeir voru þó komnir til sögunnar í Kaupmannahöfn.

Þegar reynt er að flokka vindstyrk í mismunandi þrep eða stig eftir greinanlegum áhrifum vindsins er gjarna stuðst við skýringar í almennum orðum, með vísun til algengra fyrirbæra í nánasta umhverfi mannsins á hverjum tíma.

Sveinn Pálsson greindi styrk vinds í fernt, ásamt skýringum:

Logn                þegar ekki finnst hvaðan hann er á

Gola                meðan ekki hvítfyssar á vatni

Hvassviðri       þegar hvítfyssar vatn en skefur ekki

Stormur           þegar vatn skefur, torfhús skjálfa o.s.frv.

Niels Horrebow, veðurathugunarmaður á Bessastöðum 1749-1751, lýsti vindstyrk með níu mismunandi (dönskum) orðum en Rasmus Lievog, í Lambhúsum við Bessastaði, studdist við sjö orða kerfi árin 1779-1805 í samræmi við venju í Rundetårn.

Sjö stiga kvarðinn landstigi eða landkvarði var í notkun hérlendis alla 19. öldina. Mun Árni Thorlacius í Stykkishólmi hafa notast við hann. Heiti vindstiganna voru logn, andvari, kaldi, stinningskaldi, hvassviðri, stormur, ofviðri.

Árið 1850 birtist í Landstíðindum smágreinin „Afl og hraði vindsins“ (höfundur líklega Magnús Grímsson). Þar segir:

Hægasti vindur (andvari, blær), eða sá vindur, sem menn finna að eins, fer 5,400 fóta lángan veg á klukkustundu hverri, nokkuð meiri vindur (kalda-korn) fer 10,800 fet, golu-vindur 21,600, stinnings kaldi 58,800, storm-korn 108,000 til 216,000, stormur eða hvass vindur 313,200 og fellibylur, eða sá vindur, sem þeytir um koll og brýtur bæði hús og trje, 416,000, eða 135 fet á einni “sekúndu”.

Þarna má sjá fleiri heiti en áður voru nefnd; blær, kaldakorn, goluvindur, stormkorn, hvass vindur.

Frá því snemma á 20. öld var í íslenskum veðurskeytum stuðst við 13 stiga kvarðann (0-12 stig, frá 1805) sem kenndur er við Francis Beaufort. Mun Jón Ólafsson ritstjóri hafa ráðið mestu um hvaða heiti vindstigin fengu. Blað hans, Reykjavík, birti veðurskeyti þar sem veðurhæð var reiknuð í 13 stigum sem báru heitin logn, andvari, kul, gola, kaldi, stinningsgola, stinningskaldi, snarpur vindur, hvassviðri, stormur, rokstormur, ofsaveður, fárviðri.

Veðurstofan notaði síðan mestmegnis þessi sömu heiti, nema hvað snörpum vindi og rokstormi var skipt út fyrir allhvasst og rok. Þá hafa kaldi og stinningsgola skipt um sæti. Í leiðbeiningum frá Veðurstofunni 2008 voru vindstigaheitin 13 tilgreind sem hér segir, ásamt skýringum sem vísa til áhrifa vinds á landi:

Logn – Reyk leggur beint upp.

Andvari – Vindstefnu má sjá á reyk, en flögg hreyfast ekki.

Kul – Vindblær finnst á andliti. Skrjáfar í laufi. Lítil flögg bærast.

Gola – Lauf og smágreinar titra. Breiðir úr léttum flöggum.

Stinningsgola – Laust ryk og pappírssneplar taka að fjúka. Litlar trjágreinar bærast.

Kaldi – Lítil lauftré taka að sveigjast. Freyðandi bárur á stöðuvötnum.

Stinningskaldi – Stórar greinar svigna. Hvín í símalínum. Erfitt að nota regnhlífar.

Allhvasst – Stór tré sveigjast til. Þreytandi að ganga á móti vindi.

Hvassviðri – Trjágreinar brotna. Erfitt að ganga á móti vindinum. (Menn „baksa“).

Stormur – Lítils háttar skemmdir á mannvirkjum. Varla hægt að ráða sér á bersvæði.

Rok – Fremur sjaldgæft í innsveitum. Talsverðar skemmdir á mannvirkjum.

Ofsaveður – Sjaldgæft í innsveitum. Miklar skemmdir á mannvirkjum.

Fárviðri – Allt lauslegt fýkur, þar á meðal möl og jafnvel stórir steinar. Kyrrstæðir bílar geta oltið eða fokið. Heil þök tekur af húsum. Skyggni oftast takmarkað, jafnvel í þurru veðri.

Birt þann 7. nóvember 2025
Síðast breytt 7. nóvember 2025
Heimildir

Jón Eyþórsson. 1965. Úr ýmsum áttum. Veðrið. Tímarit handa alþýðu um veðurfræði. 10,1: 3-6.

Magnús Grímsson (?). 1850. Afl og hraði vindsins. Lanztíðindi. 15. júní. Bls. 84.

Reglur um veðurathuganir, skýrslufærslu og skeytasendingar á skeytastöðvum. 2008. Veðurstofa Íslands. https://vedur.is/media/vedurstofan/utgafa/greinargerdir/1995/leidbeiningar_2003_v2.pdf

Sigurður Steinþórsson. „Hver var Sveinn Pálsson og hvert var framlag hans til vísindanna?“ Vísindavefurinn, 25. febrúar 2011, sótt 5. nóvember 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=58694.

Sveinn Pálsson. 1792.  Veðráttutöflur. Lbs 306 4to.

Trausti Jónsson. 2005. Veðurmælingar Sveins Pálssonar. Reykjavík: Veðurstofan. https://www.vedur.is/media/vedurstofan/utgafa/greinargerdir/2005/05019.pdf

Trausti Jónsson. 2007. Nöfn vindstiga og greining veðurhæðar. https://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/1098

Veðurskeyti. Reykjavík 30. nóvember 1907, bls. 269.

Wikipedia: Anomemeter

Wikipedia: Beaufort scale.