Birtist upphaflega í október 2010.
Elstu skrár í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eru úr fórum Brynjúlfs Jónssonar (1838–1914) fræðimanns frá Minna-Núpi, ýmist ritaðar af honum sjálfum eða af heimamönnum á bæjum. Ekki eru nærri öll þau plögg dagsett og því ekki vitað um aldur þeirra nákvæmlega. Brynjólfur Bjarnason, bóndasonur í Framnesi á Skeiðum, skrifaði upp örnefni á heimajörð sinni 29. október 1910 fyrir nafna sinn. Er það elsta dagsett skjal í safninu og því höfum við ekki annað betra að festa hönd á um upphaf skipulegrar örnefnasöfnunar.