Skip to main content

Pistlar

Annáll örnefnasöfnunar

Birtist upphaflega í október 2010.

Elstu skrár í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eru úr fórum Brynjúlfs Jónssonar (1838–1914) fræðimanns frá Minna-Núpi, ýmist ritaðar af honum sjálfum eða af heimamönnum á bæjum. Ekki eru nærri öll þau plögg dagsett og því ekki vitað um aldur þeirra nákvæmlega. Brynjólfur Bjarnason, bóndasonur í Framnesi á Skeiðum, skrifaði upp örnefni á heimajörð sinni 29. október 1910 fyrir nafna sinn. Er það elsta dagsett skjal í safninu og því höfum við ekki annað betra að festa hönd á um upphaf skipulegrar örnefnasöfnunar.

Brynjúlfur Jónsson fór víða og rannsakaði fornleifar og frá því er greint í Árbók Hins íslenska fornleifafélags, í fundargerðum o.v. Hins vegar er hvergi minnst á örnefnasöfnun hans. Hann fór um Árnesþing árið 1904 og birti ritgerð þar um í árbókinni 1905. Þar koma fyrir mörg bæjanöfn og önnur örnefni án þess að um örnefnaskrá sé að ræða. Erfingjar Brynjúlfs gáfu Þjóðminjasafni Íslands safn hans árið 1963.

Í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1913 birtist í fyrsta sinn örnefnaskrá: Gömul örnefni í Vestmannaeyjum, eftir Sigurð Sigurfinnsson, og árið eftir tekur Björn Bjarnarson saman örnefnaskrá um bújörð sína, Grafarholt (áður Gröf) í Mosfellssveit, og birtir í árbókinni. Hér er því komin hreyfing á þessi mál, hugsanlega fyrir áhrif frá Brynjúlfi Jónssyni þótt það verði ekki fullyrt nema að betur rannsökuðu máli.

Á ársfundi Hins ísl. fornleifafélags 1918 var borin upp og samþykkt tillaga um að æskilegt og nauðsynlegt væri „að félagið gengist fyrir því að safna örnefnum um allt land og skrásetja þau.“ Næstu ár voru gerðar ítrekaðar tilraunir til að fá styrk úr ríkissjóði til örnefnarannsókna, en það var ekki fyrr en 1924 sem styrkur fékkst og þá ekki eyrnamerktur því verkefni sérstaklega. Ár líða án þess að nokkuð gerist að því er séð verður en á aðalfundi 1934 hefur verið sagt frá örnefnasöfnun félagsins á „umliðnu ári“ án þess að gera nánar grein fyrir hver safnaði eða hvar. Söfnun heldur áfram og er nefnd á fundum félagsins af og til fram yfir 1950. Allan sjötta áratuginn eru ýmsir menn að störfum við örnefnasöfnun og hafa sumir til þess styrk frá Hinu ísl.fornleifafélagi, en söfnin eru í vörslu Þjóðminjasafns Íslands. Sami háttur er á næstu ár, söfn berast úr ýmsum áttum, bæði frá þeim sem nutu styrkja og öðrum. Þess má geta að Stefán Einarsson prófessor fékk amerískan styrk til örnefnaskráningar á Austurlandi. Um 1966 er farið að vinna að endurskoðun og endurbótum á skrám.

Árið 1969 urðu þáttaskil í starfseminni, því að það ár stofnaði menntamálaráðuneytið nýja deild í Þjóðminjasafni, Örnefnastofnun. Skyldi hún ljúka söfnun og endurskoðun örnefna og rannsaka örnefni. Yfirmaður deildarinnar var Þórhallur Vilmundarson prófessor. Húsnæði það sem Örnefnastofnun var fengið til afnota var þó ekki tiltækt fyrr en á fyrri hluta árs 1970 og gat starfsemi þá hafist. Hin nýja stofnun tók við öllum örnefnagögnum Þjóðminjasafns og frá þessum tíma var öll söfnun og skráning örnefna á vegum hennar, ýmist framkvæmd af starfsmönnum sjálfum eða af öðrum undir þeirra stjórn og umsjón. Lengst hafa starfað við Örnefnastofnun Guðrún S. Magnúsdóttir cand.mag. árin 1972–2000 og Jónína Hafsteinsdóttir cand.mag. sem hóf þar störf 1977 og starfar enn á nafnfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Örnefnastofnun Þjóðminjasafns starfaði undir stjórn Þórhalls Vilmundarsonar allt þar til síðla árs 1998. Voru þá sett ný lög um Örnefnastofnun Íslands og Svavar Sigmundsson ráðinn forstöðumaður. Ný lög um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tóku gildi 1. september 2006 og voru þá sameinaðar fimm stofnanir af vettvangi íslenskra fræða, þar á meðal Örnefnastofnun Íslands.

(Heimildir: Árbók Hins ísl. fornleifafélags. Skýrslur og fundargerðir)

Jónína Hafsteinsdóttir 22. október 2010

Helstu skrásetjarar, aðrir en starfsmenn Örnefnastofnunar:

  • Alfreð Ásmundsson frá Hlíð: Ljósavatnshreppur, S-Þing.
  • Angantýr Hjörvar Hjálmarsson og Pálmi Kristjánsson, kennarar: Örnefni í Saurbæjarhreppi (1957)
  • Ari Gíslason kennari: Gullbringu- og Kjósarsýsla; Mýra- og Borgarfjarðarsýsla; Snæfellsnes (fáeinir hreppar); Dalasýsla; Austur- og Vestur-Barðastrandarsýsla (5 hreppar); Þingeyrar- og Mýrahreppur, V-Ís.; Sléttuhreppur, N-Ís.; Suður-Þingeyjarsýsla; Norður-Þingeyjarsýsla; Norður-Múlasýsla (nokkrir hreppar); Hofshreppur, A-Skaft.; Vestur-Skaftafellssýsla.
  • Árni Magnússon frá Flögu: Villingaholtshreppur, Árn.
  • Ásgeir Svanbergsson, Þúfum: Reykjarfjarðarhreppur, N-Ís.
  • Bergsteinn Kristjánsson rithöfundur: Rangárvallasýsla
  • Björn Þorsteinsson sagnfræðingur: Holtahreppur, Rang.
  • Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi: Árnessýsla (nokkrir hreppar)
  • Daði Davíðsson, Gilá: Áshreppur, A-Hún.
  • Einar Kristjánsson, Laugum, og Geir Sigurðsson, Skerðingsstöðum: Hvammshreppur, Dal.
  • Eiríkur Einarsson frá Þóroddsstöðum: Ölfushreppur (hluti)
  • Eiríkur Eiríksson frá Dagverðargerði: Múlasýslur
  • Eyþór Þórðarson kennari: Norðfjarðarhreppur, S-Múl.
  • Gísli Guðmundsson frá Björk: Grímsneshreppur, Árn.
  • Gísli Sigurðsson frá Dröngum: Skógarstrandarhreppur, Snæf.
  • Gísli Sigurðsson í Hafnarfirði: Álftaneshreppur hinn forni (Bessastaðahreppur, Garðahreppur, Hafnarfjörður, Hraun) og Vatnsleysustrandarhreppur, Gull.; Selvogshreppur, Árn.
  • Guðlaugur R. Guðmundsson kennari: Reykjavík; Mosfellshreppur; Kópavogur; Garðahreppur; Hafnarfjörður
  • Guðmundur Þórarinsson kennari: Eyrarbakkahreppur, Árn.
  • Haukur Jóhannesson jarðfræðingur: Árneshreppur, Strand.
  • Helga Skúladóttir, Keldum: Rangárvallahreppur
  • Helgi Gíslason, Hrappsstöðum: Vopnafjörður
  • Helgi Guðmundsson frá Tjarnarkoti: Vestur-Húnavatnssýsla; Siglufjörður
  • Helgi Guðmundsson kennari og þjóðsagnaritari: Barðastrandarhreppur, Tálknafjarðarhreppur, Ketildalahreppur og Suðurfjarðahreppur, V-Barð.
  • Helgi Ívarsson, Hólum: Stokkseyrarhreppur, Árn.
  • Helgi Laxdal lögfræðingur: Grýtubakkahreppur, S-Þing.
  • Ingólfur Einarsson gjaldkeri: Landmannahreppur, Rang. ás. kortagerð í fleiri hreppum
  • Jakob Einarsson, prestur á Hofi: Vopnafjörður
  • Jens E. Níelsson kennari: Bolungarvík (Hólshreppur, N-Ís.)
  • Jóhann Hjaltason kennari: Norður-Ísafjarðarsýsla, Strandasýsla
  • Jóhann Ólafsson, Hofsósi: Hofs- og Hofsóshreppur, Skag.
  • Jóhannes Ásgeirsson frá Pálsseli: Dalasýsla
  • Jóhannes Óli Sæmundsson, Akureyri: Eyjafjörður
  • Jón Eiríksson, Vorsabæ: Skeiðahreppur, Árn.
  • Jón Ól. Benónýsson frá Kálfshamri: Engihlíðar-, Vindhælis- og Skagahreppur, A-Hún.
  • Jón Þ. Jónsson, Ásmundarstöðum: Presthólahreppur (Melrakkaslétta)
  • Jón Þórisson, Reykholti: Borgarfjarðarsýsla
  • Kristján G. Þorvaldsson, Suðureyri: Súgandafjörður (Suðureyrarhreppur, V-Ís.)
  • Kristján Helgason, Dunkárbakka: Hörðudalshreppur, Dal.
  • Lárus J. Guðmundsson, Hafnarfirði: Ketildalahreppur, V-Barð.
  • Lúðvík Kristjánsson rithöfundur: Snæfellsnes; fiskimið um allt land
  • Magnús Finnbogason frá Reynisdal: Vestur-Skaftafellssýsla
  • Magnús Sigurðsson, Gilsbakka: Hvítársíðuhreppur, Mýr.
  • Magnús Steingrímsson, Hólum: Hrófbergshreppur, Strand.
  • Magnús Þórarinsson frá Flankastöðum: Miðneshreppur, Gull.
  • Margeir Jónsson frá Ögmundarstöðum: Skagafjörður; Eyjafjörður
  • Matthías Helgason, Kaldrananesi: Kaldrananeshreppur, Strand.
  • Nanna Guðmundsdóttir, Berufirði: Beruneshreppur, S-Múl.
  • Oddgeir Guðjónsson, Tungu: Fljótshlíðarhreppur, Rang.
  • Ólafur Skagfjörð, Þurranesi: Saurbæjarhreppur, Dal.
  • Óskar Einarsson læknir: Önundarfjörður (Aldarfar og örnefni í Önundarfirði (Rvk. 1951))
  • Páll Lýðsson, Litlu-Sandvík: Sandvíkurhreppur, Árn.
  • Páll Þorsteinsson, Hnappavöllum: Hofshreppur, A-Skaft.
  • Pétur Finnbogason frá Hítardal: Hraunhreppur, Mýr.
  • Pétur Jónsson, Reynihlíð: Skútustaðahreppur, S-Þing.
  • Rósmundur G. Ingvarsson,Varmahlíð: Skagafjörður
  • Samúel Eggertsson skrautritari: Geiradals- og Reykhólahreppur, A-Barð.
  • Sigurður Vilhjálmsson frá Hánefsstöðum: Seyðisfjörður
  • Sigurður Þ. Eyjólfsson skólastjóri: Stokkseyri, Árn.
  • Sigurjón Þ. Erlingsson frá Galtastöðum: Gaulverjabæjarhreppur, Árn.
  • Símon Jóh. Ágústsson prófessor: Árneshreppur, Strand.
  • Skúli Skúlason innheimtumaður: Norður-Þingeyjarsýsla
  • Stefán Einarsson prófessor: Múlasýslur; Austur-Skaftafellssýsla
  • Sverrir Björnsson frá Viðvík: Viðvíkurhreppur, Skag.
  • Vilhjálmur Hjálmarsson, Brekku: Mjóifjörður, S-Múl.
  • Þorkell Jóhannesson háskólarektor: Vestmannaeyjar (Örnefni í Vestmannaeyjum. (Reykjavík 1938))
  • Þorleifur Jóhannesson, Stykkishólmi: Snæfellsnes
  • Þorsteinn Bjarnason frá Háholti: Reykjavík og nágrenni; Gullbringusýsla (ýmislegt); Árnessýsla (nokkrir hreppar)
  • Þórarinn J. Einarsson kennari: Flateyjarhreppur, A-Barð.
  • Þórarinn Magnússon frá Steintúni: Skeggjastaðahreppur, N-Múl.
  • Þórður Tómasson, Skógum: Vestur-Skaftafellssýsla; Rangárvallasýsla
  • Þórður Ögm. Jóhannsson, Hveragerði: Ölfushreppur (hluti)
  • Þóroddur Guðmundsson kennari og rithöfundur: Eiða- og Egilsstaðahreppur, S-Múl.
Birt þann 23. janúar 2019
Síðast breytt 24. október 2023