Birtist upphaflega í nóvember 2009.
Fáein Kæfu-nöfn finnast í örnefnaskrám og ekki ólíklegt að menn setji slík nöfn í samhengi við matartegund þá er flestir þekkja. Nú er einmitt sá tími árs er búkonur hafa um aldir safnað vetrarforða í búr sín og kistur og meðal haustverkanna var – og er e.t.v. enn – einmitt kæfugerð. En er ekki langsótt að tengja matargerð við gil og keldur á heiðum uppi og niðri í mýrum? Svo þarf ekki að vera ef litið er til skýringa sem tiltækar eru á Kæfu-nöfnum og gamalla aðferða við að gera kæfu og geyma hana. Sögnin að kæfa merkir ‘valda köfnun; bæla niður; setja í kaf’, og í ópersónulegri notkun ‘stíflast af snjó’: það kæfði í ána. No. kæfa merkir ‘þétt fjúk; andköf; ágjöf; einsk. kjötmauk (saxað og soðið)’. Skyld þessum orðum eru m.a. kaf, kóf, kafna, kvef. Alexander Jóhannesson skýrir svo orðið kæfa að það sé ‘fleischpaste, isl. gericht (schaffleisch mit salz, pfeffer und fett zu einer festen masse zus.gekocht)’. Skýring Björns Halldórssonar á orðinu kæfa er ‘Aandsklemmelse, Kvælen’ eða ‘noget som koges sagte, og tillige er tildækket for ikke at uddunste’. Kjöt var saxað og hnoðað saman við mör eða brytjað, sett í þétt tréílát eða skrínur, farg sett á og að lokum brætt yfir með tólg eða floti. Stundum var kæfan sett í vambir eða skinnbelgi. Færeyingurinn Nicolai P. Mohr, sem ferðaðist um Ísland 1780, lýsir einni af aðferðum þeim sem menn höfðu til að geyma kjöt til vetrarins. Kjötið var soðið þar til það losnaði frá beinunum og var þá þjappað ofan í smátunnur, floti rennt yfir og tunnan slegin aftur og hélst kjötið ferskt árið um kring. Þetta kjöt segir Mohr að hafi kallast kæfa. Því má segja að kjötið hafi verið „kæft“ í ílátum þeim sem það var geymt í.
Í landi Eintúnaháls, Kirkjubæjarhreppi, V-Skaft., heitir Kæfugil í svonefndum Hrossatungum og eftir því rennur Kæfugilslækur. Sagt var að fjárhópur hafi eitt sinn kafnað neðst í gilinu í snjó. Klöpp í gilinu nefnist Drykkjarsteinn. Þar sprettur upp volgt vatn sem sauðfé sótti mjög í að drekka. Nyrst í Össurheiði í landi Höfðabrekku í Mýrdal, V-Skaft., er hellirinn Kæfustúka. Þar hefur fé kafnað. Örnefnið Kæfustúka er einnig nefnt í örnefnaskrá Kerlingardals, nágrannabæjar Höfðabrekku, en ekki er auðséð af lýsingum hvort um sama hellinn er að ræða. Í landi Kálfafellskots í Fljótshverfi, V-Skaft., í svonefndum Neðri-Kvíum, er hellir við Brúará, sem heitir Kæfir. Hópur af fé kafnaði þar.
Höfðabrekka í Mýrdal. Ljósmynd: © Mats Wibe Lund. www.mats.is
Skálabrekkur heita í landi Ytri-Skóga undir Eyjafjöllum; um þær liggur Kæfugil og fellur smálækur eftir því. „Í það kæfir mjög í landnyrðingsbyljum“, segir Þórður Tómasson í örnefnaskrá. Þegar talað er um rjóður í örnefnalýsingu Voga í Skútustaðahreppi, S-Þing., er ekki átt við skógarrjóður heldur eyður í apalhrauninu. Eitt margra rjóðra er Kæfurjóður og dregur nafn af miklum snjó sem kæfir fram af kömbunum í kring, og þann snjó tekur ákaflega seint upp á vorin.
Í landi Víða, Reykdælahreppi, S-Þing., er Kæfumýri, allstór mýri sem gengur suður frá Másvatni. Eftir henni rennur Kæfulækur. Mýrin er mjög ill yfirferðar og hættuleg fyrir skepnur og hafa margar kindur farist þar. Kæfulækurinn er einnig hættulegur.
Á Höllustöðum í Reykhólahreppi, A-Barð., er Kæfukelda. Hún er ein af mörgum keldum sem mynda svonefndan Bæjarál, og er honum lýst svo að það séu „miklar forir, vatnselgur í miðjunni, einkum í rigningatíð“. Ekki verður Kæfukelda nú staðsett nákvæmlega og ekki önnur skýring nafnsins tiltæk en sú, að líklega hafi skepnur farist þar. Í minni heimildarmanns lifði stef úr vísu sem ort var í orðastað bónda er bjó á Höllustöðum um 1870 og hljóðar svo:
Faðir minn sæll í Kæfukeldu
kvikféð missti sitt.
Líklegt má því telja að Kæfukelda hafi verið nefnd svo vegna þess að þar hafi skepnur kafnað. Kæfufoss er í Hvammsdalsá í Saurbæ í Dalasýslu en engin skýring fylgir nafninu.
Síðast breytt 24. október 2023