Skip to main content

Pistlar

Starf örnefnasafnarans

Þessi fyrirlestur var fluttur á Hugvísindaþingi haustið 1999. Auk Jónínu Hafsteinsdóttur lagði Guðrún S. Magnúsdóttir til efni. Þær voru þá báðar starfsmenn Örnefnastofnunar Íslands.

 

Tilgangur með söfnun. Ekki verður nú fullyrt hvenær menn fóru fyrst að veita örnefnum athygli sem heimildum og uppsprettu vitneskju um fyrri tíð, um búskap, samgöngur, fiskveiðar, nýtingu hlunninda, um trúarlíf og hrakninga og slysfarir á ferðum manna um landið. Vissulega segja örnefnin okkur sögu af þessu öllu og fleira ef vel er að gáð. Í þeim felst lýsing á gróðurfari, dýralífi og veðri og þau endurspegla kenndir sem vakna í hugum þeirra sem ganga um staðina eða hafa þá fyrir augum. Skyldu ekki nöfnin Paradís og Víti vera þannig tilkomin? Ef við viljum láta örnefnin flytja okkur alla þá sögu og þann fróðleik sem þau geta miðlað okkur þurfum við að hafa þau tiltæk til lestrar og íhugunar, og ekki nöfnin ein, heldur staðsetningu þeirra og nokkra lýsingu á staðháttum og umhverfi því sem þau eiga heima í. Þegar þetta er haft í huga kemur ekki á óvart að það eru oft sömu menn sem koma auga á nauðsyn þess að safna örnefnum og halda þeim til haga og fara um landið og rannsaka rústir og aðrar fornleifar sem varpa ljósi á byggð í landinu og lifnaðarhætti genginna kynslóða.

Hvar eru örnefnin? Hvar er þeirra að leita? Örnefnin verða til og lifa með því fólki sem býr og starfar í landinu og notar þau í daglegu amstri sínu. Því verða þeir sem taka sér fyrir hendur að safna örnefnum í því skyni að bjarga þeim frá gleymsku að sækja þau til fólksins. Það hefur alltaf verið gert, og við skulum hafa það í huga þegar við lesum bók eða ferðumst um landið með kort til leiðsagnar, að nöfn, sem þar eru tilgreind okkur til upplýsingar, eru ævinlega þannig tilkomin í upphafi. Varðveisla nafna hefur verið í höndum kynslóðanna. Sonur tekur við búi af föður, hann notar þau nöfn sem hann lærði í æsku og miðlar þeim síðan til sinna afkomenda. Ungir menn smala afrétti og sækja sjó með sér eldri og reyndari mönnum og læra af þeim að þekkja kennileiti á fjöllum uppi og fiskimið. Að sjálfsögðu hefur þráðurinn stundum slitnað: Ábúendaskipti verða á jörð, síðasti liður ættar fellur frá eða flytur burt og aðflutt fólk tekur við. Þó tekst oft að halda í eitthvað af örnefnum jarðarinnar með hjálp nágranna og annarra sem til þekkja. Meðan farið er um land og það nytjað verða líka til ný örnefni. Nafnlaus staður verður vettvangur atviks sem skapar honum nafn. Atvikið getur verið hversdagslegt en þess er minnst og það er nóg. Þannig lifir örnefnaforðinn og endurnýjast og þannig hefur hann borist okkur í hendur en hann á nú mjög undir högg að sækja, og nú er það okkar hlutskipti að bjarga því sem bjargað verður. Búskaparhættir nútímans eru gjörólíkir því sem áður var. Það er liðin tíð að snúningastrákurinn komi úr sendiför sem tók lengri tíma en áætlað var, því að hrossin voru komin inn fyrir Stekkjarhrygg og þau sem lengst rásuðu alla leið inn á Deild. Dráttarvélin, jeppinn og fjórhjólið standa á hlaðinu, þar sem þau voru skilin eftir í gær, og þar er gengið að þeim vísum. Það þarf ekki að elta lambærnar upp undir Skjöld, fram á Leynibala, fram fyrir Seljá eða út í Mosakinn til þess að vita hvernig þeim vegnar. Þær eru allar heima á túni, gott ef ekki inni í fjárhúsi og komast hvergi. Kýrnar, sem hleypt var út í dag, röltu upp í Kúalaut og héldu sig þar að hætti formæðra sinna þar til kúasmalanum var sagt til þeirra. Hann hafði setið niðri á Bænhústóft og fylgst með ferðum tveggja manna sem komu ríðandi utan fjöru, alfaraleiðina eftir sveitinni. Hann var að hlakka til gestakomu og vonaði að þeir tækju stefnu á Götuskarðið í bökkunum, þar sem leiðin lá úr fjörunni heim til bæjar. Nú liggur malbikaður vegur ofan túns og bæjar og bílar þjóta hjá og eru horfnir sjónum áður en varir. Og við árbakkann skammt vestur af hrundum veggjum gömlu réttarinnar blasir Brennivínsbrekkan við kvöldsólinni. Þar tóku bændurnir tappa úr glasi og hresstu sig að loknu annríki gangnadagsins, ræddu vænleik lamba og spurðu tíðinda. Það er liðin tíð og má mikið vera ef GSM og fleiri tól og tæki nútímans hafa ekki tekið við sem vettvangur þeirra samskipta. Móskurður og engjaheyskapur er löngu aflagður, svo ekki sé minnst á fráfærur og hjásetu. Allt þetta veldur því að örnefni koma lítt við sögu í daglegu lífi fólks í íslenskum sveitum, það þarf ekki á þeim að halda og þau glatast. Enn er þó á lífi allmargt fólk sem man þessa fyrri tíma og er vel fært um að miðla fróðleik til okkar hinna, og það er brýnt verkefni, ef einhverju á að bjarga af þeirri vitneskju, að hafa tal af þessu fólki, fá það til að segja frá, koma upplýsingum í hús, ef svo má að orði komast. En þetta verður að gera strax, tíminn líður hratt, fólkið eldist og hverfur okkur brátt sjónum, og ég er hrædd um að Internet, tölvur, breiðband og önnur tækniundur hrökkvi þá skammt. Það þarf að tala við fólkið núna, „strax í gær“ er oft sagt um það sem ekki þolir bið. Það á einmitt við hér.

Heimildarmenn – hverjir - hvar? Starf örnefnasafnarans hefst á því að leita að heimildarmönnum. Hér í samfélagi frændsemi og kunningsskapar er auðvelt að spyrja sig áfram, einhver kannast við mann úr sveitinni eða næstu sveit, sá getur gefið upplýsingar um fleiri kunnuga og þannig koll af kolli. Ef að líkum lætur er besti heimildarmaður um tiltekna jörð einhver sem þar hefur alist upp eða búið um langt skeið, best ef þetta tvennt fer saman, hann hefur tekið við búi af foreldrum og er líklegur til að þekkja vel örnefni jarðarinnar. Ekkert er þó einhlítt í þessu efni. Menn eru misglöggir á staðhætti, misjafnlega minnugir og áhugamálin ólík. Sumir hafa engan áhuga á örnefnum og leggja þau ekki á minnið. Aðrir hafa áhuga, vilja þekkja örnefnin og sögu þeirra. Ég minnist ferðar sem ég fór í upphafi starfs míns í Örnefnastofnun. Ég kom í byggðarlag, þar sem heima átti aldinn fræðaþulur sem hlaut að vera hreinasta gullnáma fyrir örnefnasafnarann. Ég heimsótti gamla manninn nokkru fyrir hádegi. Hann bjó einn og var búinn að setja upp soðninguna sem mallaði í potti á eldavélinni. Hann tók mér vel og við spjölluðum saman. Ég beindi talinu að örnefnum sveitarinnar, en gekk ekki vel að halda honum við efnið. Ég komst að því – eða þóttist komast að því – að hann hafði engan áhuga á örnefnum og mér var nær að halda að hann vissi takmarkað um þau. Hins vegar hefði ég getað hlustað allan daginn á sögur af minnisstæðum mönnum.

Nú býst ég við að einhver vilji spyrja: Eru konur jafnmargar körlum í hópi heimildarmanna? Standa þær ekki körlum fyllilega jafnfætis sem heimildarmenn? Engin úttekt hefur verið gerð á því hver hlutur kvenna er í þessum hópi, en við sem höfum starfað við þetta árum saman þurfum enga könnun til að vita, að konur eru þar miklu færri en karlar. Það stafar af því að starfs-vettvangur kvenna var annar en karla, einkum húsmæðra á bæjunum. Þær voru bundnar heima yfir börnum og matseld meðan karlarnir voru við útiverk. Ég veit ekki hvort kannað hefur verið hvernig verkaskipting var í systkinahópum á sveitabæjum, hvort systrum var haldið fremur að innanbæjarverkum en útiverkin fallið í hlut bræðranna. Tilfinning mín er þó að svo hafi gjarnan verið, en auðvitað með ótal undantekningum, og stúlkur snerust við fé, sóttu hross og kýr, færðu á engjar og fóru á milli, og voru við heyskap bæði á heimatúni og engjum. Gott dæmi um þetta er aldraða konan úr Strandasýslu, sem sagði frá örnefnum á æskuheimili sínu. Þar þekkti hún vel til og lýsti staðháttum. Þegar lokið var skráningu þeirrar jarðar var hún beðin um upplýsingar um jörðina, þar sem hún hafði búið búi sínu áratugum saman. Svarið var eitthvað á þessa leið: „Blessuð vertu, ég veit ekkert um það, ég fór aldrei út fyrir túnið.“ En konur, sem gengu til útiverka í æsku, fóru um landið ýmissa erinda og lærðu að þekkja það, eru alls engu síðri heimildarmenn en karlar, og í Örnefnastofnun eru varðveittar margar örnefnaskrár með miklum og dýrmætum upplýsingum, sem komnar eru frá konum.

Samstarfið við heimildarmenn getur farið fram með ýmsum hætti: Við byrjum oftast á að hafa samband við þá í síma. Það fer eftir heilsufari þeirra og öðrum aðstæðum hvort þeir koma í stofnunina, þar sem við skráum eftir þeim, eða við heimsækjum þá. Þetta á þó einkum við þá, sem búa hér á suðvestur-horninu. Margir taka að sér að skrá sjálfir, annaðhvort nýja örnefnalýsingu eða viðbætur, athugasemdir og leiðréttingar við það sem til er fyrir. Fólki úti á landi – og raunar hér í nágrenni líka - sendum við örnefnaskrár til endurskoðunar. Heimtur eru þó misjafnar. Sumir svara bæði fljótt og vel, öðrum þarf að ýta við og jafnvel oftar en einu sinni, og frá sumum kemur aldrei neitt. Við höfum þann hátt á, að senda með skránum spurningalista um það sem okkur finnst þurfa athugunar við. Þar spyrjum við um tilefni nafna, biðjum um nánari lýsingu staðhátta, sem varpað getur ljósi á nöfnin, spyrjum um gróðurfar og fuglalíf, t.d. hvernig það land sé sem nefnt er Sandar og Sandaskógur og hvort engjastykkið Hringur dragi nafn af lögun, hvernig standi á nöfnunum Kirkjurúst, Baulutjörn, Guddustapi, Heiðlóarholt, Matarklettur og Laukaflatir. Öll þessi nöfn hafa átt sér einhverjar skýringar, þótt sumar séu nú gleymdar. Hringur er hringlaga, og þjóðsagan segir nykur vera í Baulutjörn, og þegar vont veður sé í aðsigi eða illra tíðinda að vænta láti nykurinn í sér heyra og líkist það helst bauli í nautgripi. Á Heiðlóarholti er mikið heiðlóuvarp, við Matarklett var stundum borðað, þegar heyjað var þar skammt frá, og villilaukur var víða á Suðurtúni, þó mest á Laukaflötum. Sé staðsetning örnefna óglögg biðjum við um að hún sé endurbætt. Við spyrjum um mótak, torfristu, stekki, kvíar og stöðla, um eyktamörk og álagabletti. Allt er þetta samofið örnefnunum.

Hjálpargögn: örnefnaskrár – bækur – kort. Við sem nú erum að bjástra við að bjarga broti örnefnaforðans frá glatkistunni höfum í höndum ýmislegt sem okkur er til stuðnings. Þar má fyrst og fremst nefna gamlar skrár um örnefni. Elstu skrár sem varðveittar eru í Örnefnastofnun eru frá Brynjúlfi Jónssyni fræðimanni frá Minna-Núpi. Brynjúlfur safnaði örnefnum í Árnessýslu, og eru til skrár frá honum úr nokkrum hreppum þar. Auk þess sem til er af skrám með hendi Brynjúlfs sjálfs eru til bréf og skrár frá nokkrum mönnum öðrum, því að hann hefur fengið bændur til að skrifa upp örnefni á jörðunum og senda sér. Elsta dagsetta skráin er um örnefni í landi Framness á Skeiðum, skrifuð 29. október 1910. Nokkur bréf úr Hraungerðishreppi eru dagsett í mars 1914, en Brynjúlfur lést 16. maí það ár.

Hið íslenska fornleifafélag hóf að beita sér fyrir örnefnasöfnun nokkru síðar. Á ársfundi þess 5. desember 1918 var borin upp tillaga um „ ... að æskilegt væri og nauðsynlegt, að fjelagið gengist fyrir því, ef auðið væri, að reynt væri að safna örnefnum um land alt og skrásetja þau“. Þetta var samþykkt og kosin þriggja manna nefnd til að íhuga málið. Á aðalfundi 12. júlídag 1919 gat formaður þess, að hann hefði farið fram á við landsstjórn og þing að veittar yrðu 500 krónur á ári til örnefnasöfnunar. Árin 1920-23 er örnefna-söfnun stöðugt til umræðu á fundum félagsins og verið að leita eftir fjárstyrk til hennar. Á aðalfundum 1934-1935 og aftur 1939-1941 skýrir formaður frá örnefnasöfnun félagsins, og fram kemur, að styrkur hefur verið veittur úr Sáttmálasjóði. Örnefnasöfnun var enn rædd á fundum félagsins næstu ár, og 1950 kom fram í umræðum að lítið myndi um menn sem hefðu áhuga og jafnframt getu að skrásetja örnefni. Allar þessar upplýsingar um örnefna-söfnun Fornleifafélagsins er að finna í skýrslum um starfsemi félagsins sem birtar eru í Árbók þess. Í Árbók fyrir árin 1955-1956 er birt skýrsla um Þjóðminjasafnið 1955 og þar er greint nokkuð ítarlega frá gangi örnefnasöfnunar, sem þá virðist komin á könnu safnsins. Það er síðan gert árlega allar götur til 1969, að Örnefnastofnun Þjóðminjasafns var sett á fót.

Örnefnasöfn þau sem til urðu á vegum Fornleifafélags og síðar Þjóðminjasafns eru varðveitt í Örnefnastofnun og að auki mikið efni annars staðar frá, að því viðbættu sem starfsmenn stofnunarinnar hafa unnið síðan hún tók til starfa. Til eru einhvers konar örnefnaskrár um flestar jarðir á landinu en þó eru þar nokkrar eyður í. Skrárnar eru hins vegar mjög misjafnar að gæðum, sumar eru upptalningar nafna einar saman og í öðrum eru lýsingar, staðsetningar og aðrar upplýsingar af mjög skornum skammti. Það er höfuðverkefni okkar, sem störfum í stofnuninni að reyna að fylla í þessi skörð, auka við upplýsingum eftir föngum, með því að leita til kunnugs fólks á hverjum stað. Þarna er gríðarmikið starf óunnið enn og brýnt að því verði haldið áfram meðan einhver er til frásagnar.

Víða má finna í bókum umtalsverðan örnefnafróðleik. Þar má nefna ævisögur og endurminningar með lýsingum frá æsku-stöðvum sögumanns, og ýmis önnur rit sem geyma fróðleik frá fyrri tíð. Lýst er umhverfi bæjar, sagt frá leikjum barna, smalamennsku og hjásetu, engjaheyskap, göngum og réttum, sjósókn, trú á huldufólk og frá álagablettum, ferðalögum og slysförum. Í þeim frásögnum koma oft fyrir örnefni ásamt lýsingum staðhátta.

Nefna má líka ferðalýsingar af ýmsum toga, bæði um byggðir landsins og óbyggðir. Ekki má gleyma Árbókum Ferðafélags Íslands. Þar er mikill fróðleikur saman kominn um landið og örnefnin. Höfundar hafa raunar stundum leitað í smiðju Örnefnastofnunar, en afla líka mikilla upplýsinga hjá heimamönnum og öðru staðkunnugu fólki og bjarga miklu frá gleymsku.

Kort eru að sjálfsögðu mikilvæg heimild um örnefni. Kort, og ekki síður loftmyndir, eru einnig góð hjálpargögn við örnefnaskráningu; þar er hægt að fylgja eftir landi því sem er til umfjöllunar hverju sinni og átta sig þannig betur á staðsetningu nafna.

Starfið nú og í byrjun . Ef spurt er, hvort þetta starf sé ekki nú á tímum frábrugðið því sem var á fyrstu áratugum aldarinnar, má svara því bæði játandi og neitandi og bæði svörin í raun og veru rétt. Tækjabúnaður okkar nú er auðvitað allur annar, samgöngur greiðari og samskipti við fjarlæga staði öll auðveldari. Til er mynd af Brynjúlfi Jónssyni, þar sem hann er á vettvangi við könnun fornleifa – eða skráningu örnefna – hann situr og hallast upp að þúfu umvafinn gróðri, hefur lagt hatt sinn við hlið sér og stafinn um kné, tekið sér bók og blýant í hönd og teiknar eða skrifar. Hann er með í höndum einu tæki sem honum voru tiltæk. Hins vegar erum við tölvu- og tækjaþrælar á sama báti og Brynjúlfur hvað varðar vitneskjuna sem við erum að viða að okkur: Við eigum allt undir því að einhver geti sagt okkur frá. Án þess erum við ekki neitt.

Raunir örnefnasafnarans . Ég ætla að ljúka þessu rabbi á því sem ég kalla raunir örnefnasafnarans. Þótt starfið sé áhugavert og skemmtilegt og geti stundum fyllt þann sem það stundar stolti yfir að hann hafi nú unnið menningu landsins nokkurt gagn með verkum sínum, dregur stundum ský fyrir sólu. Eins og fram hefur komið eru upplýsingarnar sóttar til fólksins, til þeirra sem hafa gengið um grundir, lesið hina opnu bók landsins með tilstyrk annarra sem á undan höfðu farið, og numið af þeim. En hverjum manni er afmarkaður tími og það er ekki á færi nokkurs að vita hversu lengi má bíða að ná tali af þeim sem við eigum erindi við. Þær eru orðnar býsna margar, dánartilkynningar og minningargreinar, sem hafa gefið mér til kynna, að nú sé orðið of seint að tala við þennan eða hinn, og ég verð að játa að stundum á fyrri árum mínum í starfi vottaði fyrir sektarkennd þegar svo bar við; ég ætlaði að vera búin að tala við hann en hafði ekki komið því í verk. Ég er löngu búin að venja mig af þessu, við höfum enga hugmynd um hver er næstur, þótt aldur manna gefi auðvitað nokkra vísbendingu. Ég minnist þess að menn um og innan við sextugt hafa horfið af vettvangi fyrirvaralaust, og ég hef líka fengið dýrmætar upplýsingar frá fólki sem var um og yfir nírætt, og sá elsti sem ég hef skráð eftir, auk þess sem hann skrifaði heilmikið sjálfur, var þegar byrjaður að feta inn í aðra öld ævi sinnar. Einhverju sinni átti ég tal við lækni og sagði honum frá starfi mínu og í hverju það væri fólgið. Hann var fljótur að koma auga á hvað störf okkar ættu sameiginlegt: „Við erum bæði í kapphlaupi við dauðann.“

En það er ekki bara dauðinn, sem stundum er okkur hindrun í starfi. Leitin að heimildarmanni getur strandað á ýmsu öðru.Ég minnist atviks, sem varð snemma á ferli mínum í Örnefnastofnun. Ég var búin að fá upplýsingar um nöfn nokkurra systkina sem líkleg væru til að geta sagt frá örnefnum á æskustöðvum sínum. Ég hringdi til einnar systurinnar, sem líklega var þá orðin nokkuð öldruð. Gömlu konunni hefur verið farin að daprast heyrn og e.t.v. fleira farið að láta undan háum aldri því hún virtist ekki heyra eða átta sig á hvert erindi mitt var. Ég endurtók, ég held oftar en einu sinni, að ég ætlaði að spyrja um örnefni á þessari tilteknu jörð, og einu viðbrögð sem ég fékk voru þessi: „Var það út af þvottavélinni?“ Þá gafst ég upp og kvaddi, og þar með kveð ég ykkur líka.

Birt þann 22. janúar 2019
Síðast breytt 24. október 2023