Grein þessi er upphaflega fyrirlestur sem fluttur var á vegum Nafnfræðifélagsins í húsakynnum Sögufélags laugardaginn 27. nóvember 2004.
Inngangur
Fjöldi örnefna felur í sér tölumerkingu af einhverju tagi og er efni sem vert er að velta nokkuð fyrir sér. Þar kennir ýmissa grasa þegar litið er til uppruna nafnanna og hlutverks þeirra.
Að sjálfsögðu var leitað fanga í safni Örnefnastofnunar. Ekki var fínkembd hver einasta örnefnaskrá í örnefnasafninu en farið yfir stærstan hluta þess, og það sem fannst ætti að vera nóg til þess að gefa nokkuð skýra mynd af því hvaða tölur eru einkum notaðar og hvaða hlutverki þær gegna í örnefnum, og jafnframt kemur í ljós hvernig þessi nöfn dreifast um landið.
Eins og mörgum er kunnugt er safn Örnefnastofnunar Íslands ekki tölvutækt nema að hluta, þannig að ekki er nóg að leita aðeins í þeim hluta, og stór bunki sem enn liggur í vélritum ef komið væri í einn. Við leit í því safni er ekki önnur aðferð en „puttaaðferðin“, þ.e. að renna fingri eftir dálkunum þar sem örnefnin standa í stafrófsröð. Þessi aðferð hefur hins vegar stóran kost sem tölvutæknin gefur ekki kost á – a.m.k. ekki enn sem komið er – og það er að leita að öllu í einni yfirferð og stundum kemur eitthvað óvænt í ljós sem alls ekki var leitað að. Það þarf heldur ekki að leita í allri stafrófsröðinni, það eru ekki nema nokkrir bókstafir sem koma til greina, þannig að þetta er nú ekki eins yfirþyrmandi og í fljótu bragði sýnist. Í tölvu er hins vegar ekki leitað nema að einu atriði í senn, einni stafasamsetningu, og gagnasafnið er í kerfi sem ekki er þjált til leitar af þessu tagi.
Þegar búið er að safna verulegum fjölda þessara nafna liggur í augum uppi að mjög mörg hafa þau einfaldlega það hlutverk að telja eða lýsa landslagi og aðstæðum. Annar flokkur nafna táknar einhvers konar mat, verðgildi eða landkosti, og tengjast þau oftar en ekki heyskap og heyfeng. Í þriðja lagi eru svo örnefni sem einhverjar sagnir fylgja og þá oft um slysfarir af einhverju tagi. Ýmis nöfn eru líka til sem ekki falla í neinn þessara flokka. En það verður líka ljóst, þegar litið er á fjölda þessara nafna í heild, að það eru aðeins örfáar tölur, eiginlega ekki nema þrjár, sem mynda meirihluta þeirra.
Tölurnar einn, tveir og þrír eru langalgengastar í örnefnum. Gríðarlegur fjöldi örnefna byrjar á Þrí-, t.d. Þrívörður, Þrísteinar, Þríhyrna, Þrígil, Þrífossar o.fl. Talan tveir er algeng líka og þá í svipuðum samsetningum: Tvísteinar, Tvívörður, Tvíhlíð, Tvígil, Tvíhólmar o.fl. Talan einn er líka algeng en þegar að henni kemur er eitt nafn sem yfirgnæfir, nafnið Einbúi.
Hér verður talnaröðin rakin og skoðaðar einstakar tölur. Eingöngu eru athuguð örnefni sem upp koma við leit að tölu en ekki er leitað að nafnorðum með tölumerkingu, s. s. tylft eða tugur, og af þeirri ástæðu eru þriðjungar og fjórðungar hér með en ekki t. d. helmingar. Talnaröðin byrjar á einum og hún endar á milljón þannig að upptalningin verður nokkuð löng.
Einstakar tölur
Einn
Örnefni sem byrja á Ein- eru geysimörg: Einbúi, Einhamar, Einsteinn, Einhóll, Einhyrningur, Einstakaholt, Einavarða sem er eyktamark, Einvarður – stakur hóll – Eini(s)klöpp – stök klöpp – o.fl. Þessi nöfn virðast alltaf höfð um eitthvað eitt og stakt, hól, klett o.fl. og í sjálfu sér ekkert sérstakt um þau að segja. Einbúar eru um allt land og fleiri en tölu verður á komið og nafnið oftast haft um einstaka hóla, steina eða kletta. Það vakti þó athygli að til eru heilar sveitir þar sem engan Einbúa er að finna en í öðrum eru e.t.v. 10-15. Ég hef þó ekki gert neina úttekt á því hvernig þetta mynstur er ef litið er á landið í heild. Einbúa hef ég fundið sem bæjarnafn á þremur stöðum, nýbýli frá 20. öld úr landi Arndísarstaða í Bárðardal (Spjaldskrá Örnefnanefndar um nýnefni) og eyðihjáleigur í Einholti í Einholtssókn, Austur-Skaftafellssýslu (Skaftafellssýsla. Sýslu- og sóknalýsingar, 117) og í Kampholti í Villingaholtshreppi, Árnessýslu (JbÁM II:176). Bæjarnafnið Einholt (et. eða ft.) er til á þremur stöðum: Á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu, í Biskupstungum og í Hraunhreppi á Mýrum í Mýrasýslu (Bæjatal á Íslandi 1915). Síðasttöldu jörðinni er lýst svo: „Jörðin er víðlend, og er landið að mestum hluta brok- og stararflóar, víðast mjög votir og settir vatnsflögum. ... Bæjarhús standa á hæð ... Þótt hæð þessi sé ekki ýkja há, ber hana yfir umhverfið, og er því víðsýnt frá Einholtum.“ (Byggðir Borgarfjarðar III:296). Í örnefnaskrá Einholts í A-Skaftafellssýslu segir svo: „Túnið í heild er moldarhóll einstæður (þar af nafnið Einholt) ...“ Er því nokkuð ljóst hvernig stendur á nöfnum þessara tveggja bæja.
Nokkur dæmi eru þess að talan einn sé sett á eftir því sem hún á við.
Fjallið eina er nefnt á þremur stöðum á Suðvesturlandi og var valið örnefni mánaðarins á heimasíðu Örnefnastofnunar í júlí 2004. Eitt þeirra er lágt hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda, skammt vestan við Krýsuvíkurveg, norður af Sveifluhálsi. Eftir mynd að dæma er þetta réttnefni, fjallið stendur eitt og sér á flatneskju (Ólafur Þorvaldsson 1999:27). Annað er austan undir Bláfjöllum, við svonefnda Ólafsskarðsleið, og er eftir lýsingu og korti í Árbók FÍ 2003 (82, 84) stakt í umhverfinu, rétt eins og hitt. Þriðja fjallið, sem nefnt hefur verið svo, heitir öðru nafni Oddafell og er við vesturjaðar Höskuldarvalla, en þeir eru við vesturrætur Trölladyngju á Reykjanesskaga. Þorvaldur Thoroddsen kallaði Oddafell Fjallið eina, en Sesselja Guðmundsdóttir, sem hefur athugað örnefni á þessum slóðum um margra ára skeið, telur líklegt að hér sé um nafnarugling að ræða, Þorvaldur hafi flutt nafnið á fjallinu sem nefnt var hér áður yfir á þetta, því að engar heimildir séu aðrar um þetta nafn (Sesselja G. Guðmundsdóttir:108) og má alveg fallast á þau rök. Í örnefnaskrá Stóru- og Minni-Vatnsleysu segir að upp með Oddafellinu að austan sé gamall leirhver sem heitir Hverinn eini og í annarri skrá er talað um hann sem mikinn gufuhver sem sé nú lítilvirkur orðinn. Má vera að samband sé milli nafnsins á hvernum og fjallinu.
Nú kann einhverjum að koma í hug ljóðið Fjallið eina eftir Grétar Ó. Fells. Það er áreiðanlega ekkert af þessum fjöllum, höfundurinn var alinn upp við rætur fjalls sem er víðs fjarri þeim og við lestur ljóðsins virðist augljóst að fjallið eina muni hafa þar allt aðra merkingu og eigi ekkert skylt við örnefni. Ég þekki sjálf dæmi um nákvæmlega þá merkingu hins eina fjalls og það vill svo til að húnvetnsk kona sem skrifaði um örnefni á æskuslóðum sínum nefnir þetta sama. Hún segir: „Mér þykir [Dýnufjall] fallegt nafn, eins og fjallið sjálft. Ég hugsa um Dýnufjall þegar Sigurður Ólafsson syngur „Fjallið eina“ eftir Grétar Fells.“ (Örn. Neðstabæjar í Vindhælishr.).
Frá Trostansfirði í Arnarfirði er til örnefnaskrá rituð af Helga Guðmundssyni þjóðsagnasafnara 1936 eftir fyrirsögn Arngríms Bjarnasonar bónda sem þar var fæddur og uppalinn og hafði verið alla ævi. Í þessari skrá er nefnd Einvararhlein, hlein sem gengur í sjó fram. Árið 1980 (2. sept.) voru skráðar viðbætur við örnefnaskrána eftir Kristjáni Pálssyni frá Sperðlahlíð, sem er næsti bær. Kristján lagði sig mjög eftir örnefnum og hafði ýmsa vitneskju frá gömlu fólki, m.a. konu sem gæti hafa verið fædd um 1860. Kristján kannaðist við Einvararhlein og bætti við eftirfarandi: „Löng eyri gengur fram í sjó, Einvarareyri, og fremst á henni er Einvararhlein. Inn í eyrina gengur malarvík, sem heitir Einavör eða Vörin eina eins og Guðbjörg nefndi hana.“ (Örn.)
Fleiri útgáfur munu þó hafa verið til á nafni eyrarinnar, því að Kristján lætur þess getið nokkru síðar að afi hans og annað Trostansfjarðarfólk hafi kallaða hana Einvalaeyri, en ítrekar að Guðbjörg Jónsdóttir hafi sagt Einvarar- (30. sept. 1980). Þá bætir hann því og við að Guðríður Þorleifsdóttir í Hokinsdal hafi þekkt nafnið Einvalaeyri og það, að eyrin hafi í harðindum verið seld fyrir súrsaða stórgripsvölu og ber saman við svipaða sögn um Auðkúlu í Arnarfirði. – Til viðbótar við þetta má nefna að til er örnefnaskrá Trostansfjarðar eftir bónda sem þar bjó alllanga hríð en var aðfluttur. Í þeirri skrá er nafnið orðið Innvararhlein og hafi sú mynd náð fótfestu er hætta á að gamla mynd nafnsins sé þar með glötuð.
Í örnefnaskrá Miðdals í Mosfellssveit er nefnt hringlaga holt sem heitir Holtið eina, en engin frekari lýsing er á holtinu. Eitthvað virðist notkun nafnsins vefjast fyrir mönnum því að síðar segir svo: „Milli Einholts og Borgarholts er Borgarholtsmýri“, en skömmu síðar er aftur talað um Holtið eina. Ekki kemur glöggt fram í lýsingunni hvernig á nafninu stendur, en þarna virðast skiptast á holt og hæðir og mýrar í landslaginu, og kann að vera að þetta holt standi meira eitt en önnur holt í kring.
Tveir
Talan tveir er geysialgeng í samsetningum; forliðurinn Tví- er í miklum fjölda nafna, s.s. Tvísteinar, Tvívörður, Tvíhólar, Tvífossar, Tvígarðar, Tvíhlíð(ar), Tvíhólmar og táknar þá tvennt af því sem um er rætt. Tvíbytna er til um dý eða tjörn og laut sem er klofin í tvennt af grjóthrygg (Bólstaðarhlíðarhr.). Tvídægra nefnast heiðalöndin milli Miðfjarðardala og Borgarfjarðarhéraðs og er það nafn fyrst nefnt í Heiðarvíga sögu og þau tildrög að farin skyldi á tveimur dögum (Ísl. fornrit III:283). Til eru fleiri Tvídægrur en minni í sniðum en þessi, t.d. stykki í túni, tvær dagsláttur, á Sléttu, stykki í túni í Nauteyrarhreppi og var sáð í það í tvennu lagi (á tveimur dögum væntanlega), slétta í túni í Seyluhreppi og vart slegin með vél á einum degi; landsvæði í Hróarstungu, talið vikusláttur fyrir einn mann; blindsker við Hvallátra í Rauðasandshreppi en engin skýring þar á, og fleiri eru til. Þess má geta hér að bærinn Kvísker í Öræfum hét áður Tvísker. Þar heita raunar Tvísker alllangt í hafi úti suðaustur af bænum. Tvíburar eru nokkrir til: Tvíburafoss í Seyðisfirði mun vera tvískiptur – þar líka Tvenndarfoss – Tvíburar tveir stakir klettar í Fellahreppi, hólminn Tvíburi í vatni á Sléttu sem sýnist vera einn þegar lítið er í vatninu en verður að tveimur þegar hækkar í og miðjan fer á kaf; og Tvíburamór í Skagafirði sem fékk nafnið einn septemberdag 1939 þegar verið var að taka þar upp mó, en þann dag fæddust tvíburar á bænum. Tvíbreiðulaut í Langadal er jafnvel talin nefnd svo vegna þess hve breið hún er, „tvíbreið“, og vísað til fataefnis. Þegar kemur að landgæðum eða landnýtingu verða fyrir allnokkrir Tveggjadagavellir og þó mun fleiri Tveggjadagaslættir og eiga það flestir sameiginlegt að vera í Skagafirði og Húnavatnssýslu að undanskildum einum í Svarfaðardal og tveimur þingeyskum (í Mývatnssveit og Öxarfirði). Tvíslægja heitir gras- og melhólmi í Múlasveit og var talin tveggja daga slægja meðan heyskapur var stundaður í eyjum (fram um 1940). Tveggjabaggabolli og Tveggjabaggatöpp í Þingeyjarsýslu skýra sig væntanlega sjálf (töpp er lítill hólmi). Tveggjalambahólmi finnst á nokkrum stöðum kringum Breiðafjörð og fylgja stundum skýringar: einn sennilega af því að hann þótti hæfilegur til fitubeitar fyrir tvö lömb (Skógarströnd), annar af því að hann líkist á með tvö lömb á eftir sér (Skógarströnd) og sá þriðji á e.t.v. svipaðan uppruna, er „nær alveg skorinn í tvennt“ eins og það er orðað (Helgafellssveit). Í Meðallandi er til klettur sem heitir Tútali og er nafnið skýrt svo í örnefnaskrá að það hljóti að vera „afbökun af Túdali, þ.e. 2 dalir“. Þá má nefna nöfn eins og Tvöfaldatorfa og Tvöfaldahæð undir Eyjafjöllum og Tvídýnuholt í Vallahreppi, en þar var torfrista góð í grenndinni og tvídýnurnar þurrkaðar á holtinu. Tvídýnuklettur er til um tvær klappir saman í Hlíðarhreppi.
Eitt nafn er óhjákvæmilegt að nefna þegar rætt er um tölur og rétt að koma að því hér. Það er nafnið Dímon sem menn telja að merki tvö fjöll, hæðir eða annað slíkt. Nafnið er algengast á Suðurlandi, í Rangárvalla- og Árnessýslu, en þar fyrir utan eru til Dímonarklakkar á Breiðafirði (Klakkeyjar), kletturinn Dímon (einn) í landi Akra á Mýrum og hólmi í Bjarnarfirði syðra í Strandasýslu. Sums staðar eru tveir hólar eða fell og heita þá Stóri- og Litli-Dímon (Stóra-, Litla-) en sumir eru einir og heita þessu nafni samt. Kann að vera að tveir hafi verið í upphafi en annar horfið, t.d. í Akbraut í Holtum þar sem Dímon er á bakka Þjórsár og gæti áin hafa rifið hinn. Nafnmyndin Díma er líka til í Austur-Skaftafellssýslu, Stóra- og Litla-Díma milli Svínafells og Viðborðs í Hornafirði og Díma er klappahæð á Jökulsárleirum í Lóni. Dímon var örnefni mánaðarins á heimasíðu Örnefnastofnunar í maí 2004 og þeir sem vilja geta lesið sér nánar til um nafnið þar.
Þrír
Nöfn sem mynduð eru með þremur eru líklega enn fleiri en með tveimur og er þar mestur fjöldinn af svipuðu tagi: Þrísteinar, Þrívörður, Þríhólar, Þrídrangar, Þrílækir, Þrífossar (þrír fossar í á), Þríbunufoss, Þríhöfðar, Þrísker, Þríklakkar, Þríhyrna, Þríhyrningur og er vonlítið að ætla sér að henda reiður á öllum þeim grúa. Víða eru Þrívörður og Þrísteinar á landamerkjum jarða og sama má segja um Tvísteina og -vörður, þó engan veginn algilt. Þrífyssa er fiskimið á sunnanverðu Snæfellsnesi og Þríburar heita þrír drangar á Arnarstapa. Þremhnúkar heita þrír hólar í Auðkúluhreppi og má velta fyrir sér hvernig það nafn muni hugsað. Er hér á ferðinni talan þrír í þágufalli eða er Þrem- hér í merkingunni ‘brún, nöf, jaðar’? Það vill einmitt svo til að hólar þessir eru á svonefndum Jaðri sem er „jaðar fjallsins ofan við Dalabrekkurnar“. Þriggjadagavellir og Þriggjadagaslættir eru nokkrir og dreifast um Norðurland á sama hátt og Tveggjadagavellir og -slættir. Þriggjahundraðaengjar í Patreksfirði eru sagðar frá þeim tíma er þríbýlt var á bæ. Þriggjakaplahóll er í Hrófbergshreppi. Þriggjalaxahylur er veiðistaður í á í Svalbarðshreppi. Þriggjasteinamark eru þrír stórir steinar í fjöru á landamerkjum norður á Skaga. Þrenningarsker á Breiðafirði eru fjögur en eitt er minnst og hin þrjú koma upp um rúmlega hálffallið. Þremenningar heita þrír smáhólar í Kjós. Þrífaralækur er á leiðinni upp á Sandsheiði sem liggur af Rauðasandi til Barðastrandar og heitir svo einfaldlega af því að farið er þrisvar yfir hann. Þriðjungaár heita á Steingrímsfjarðarheiði og var sagt að þriðjungur væri af leiðinni þegar að þeim væri komið austan frá og Þriðjungabrekka er upp af Unaðsdal á Snæfjallaströnd í sömu merkingu, þriðjungur leiðarinnar norður að Dynjanda er að baki þar. Þriðjungatún er í Grýtubakkahreppi, Þriðjungsengi í Svarfaðardal og Þriðjungsvöllur nú í landi Akureyrar. Þrístiklur eru nokkrar til: Á heiðalöndum upp af Húnavatnssýslum eru tvö vötn með þessu nafni, annað á Víðidalstunguheiði og er eitt vatn af þremur í röð, hitt á Auðkúluheiði og ganga úr því þrjár víkur. Þrístikla er einnig vatn á Skaga og eru í því þrír stórir steinar í röð sem koma í ljós þegar lækkar í vatninu. Þrístikluvatn og Þrístiklufjall eru í Öxarfirði og er vatnið með þremur hornum/víkum. (Sama nafn mun vera til víðar á Norðurlöndum, í Noregi og Svíþjóð, sbr. grein Þórhalls Vilmundarsonar um Ferstiklu í Grímni 1 (1980) þar sem hann ræðir þessi nöfn einnig.) Í Höfnum á Reykjanesskaga hafa menn betrumbætt hversdagslega Þríhóla og kalla Treihóla.
Eitt eiga þessar þrjár tölur sameiginlegt og það er að þeim bregður fyrir sem raðtölum. Sem dæmi um það má nefna Fyrsta-, Annan- og Þriðja-Þröskuld, þrjár grjótöldur í Akrahreppi í Skagafirði; í Eyjafirði eru þrír kambar í röð kallaðir Fyrstikambur, Annarkambur og Þriðjikambur og Fyrsta-, Önnur- og Þriðjahlíð eru fiskimið við utanvert Ísafjarðardjúp og nokkur dæmi eru til fleiri. Tölunni fjórum bregður raunar fyrir einnig og heita Þriðjistallur og Fjórðistallur í Steingrímsfirði. Í Grýtubakkahreppi eru árnar Önnur-, Þriðja- og Fjórða-Lambá en sú fyrsta er kölluð Heimari-Lambá.
Fjórir
Þegar kemur að fjórum verður breyting á. Fátt hér samsvarar Tví- og Þrí-nöfnunum, nema ef vera skyldi Fjórgil í Skagafirði sem haft er um fjögur lítil samhliða gil og Fjórvarða í Meðallandi, klettur með fjórum vörðum. Fjög(ur)radagaslættir og Fjögradagavellir eru nokkrir og þá hef ég eingöngu fundið á Norðurlandi, flesta í Skagafirði en fáeina í Húnavatnssýslu og Eyjafirði. Önnur slægjunöfn eru slægjubletturinn Fjögramaki í Hrunamannahreppi og líklega Fjögrateigatún í Skaftártungu. Fjórðungs- og Fjórðunga-nöfn eru víða til og tákna gjarnan einhvers konar skiptingu: Fjórðungar heita stykki í engjum í Hörðudal og var þeim skipt í marga parta við heyskap og Fjórðungur er fjórði hluti túns í Skorradal og túnhluti í Andakíl. Margir munu kannast við Fjórðungsöldu og -vatn og Fjórðungakvísl á Sprengisandi. Þessi nöfn finnst mér hugsanlegt að eigi upptök sín í skiptingu landsins í fjórðunga enda kemst aldan næst því allra fjalla á Íslandi að vera á miðju landsins (Íslandshandbókin:896). Fjórðungur er fjórði hluti leiðar milli Brúna í Jökuldals- og Fellaheiði (þar heitir og Fjórðungsháls) og Fjórðungsalda og Fjórðungsvarða eru á Smjörvatnsheiði. Hef ég ekki séð neina skýringu á þeim nöfnum en eftir staðsetningu á korti að dæma er ekki ólíklegt að þar hafi verið búinn u.þ.b. fjórðungur leiðar frá innstu bæjum í Jökulsárhlíð til Vopnafjarðar. Við Fjórðungshól (á öðrum stað) er einmitt talinn fjórðungur leiðar milli Hofteigs á Jökuldal og Vopnafjarðar. Við Fjórðungaboða er búinn fjórðungur af leiðinni frá Skálanesi í Gufudalssveit til Skáleyja á Breiðafirði; á heiðunum milli Laxárdals í Dölum og Hrútafjarðar er Fjórðungavatn sem talið er að fjórar jarðir eigi land að (Örn. Ljárskóga) og hluti Bakkafjöru í Landeyjum heitir Fjórðungafjara.
Ferstikla er á nokkrum stöðum og mun vera þekktust þeirra bær með því nafni í Hvalfirði. Þórhallur Vilmundarson hefur skrifað um nafnið og þykir sennilegt að það merki „krosslaga skjólgarður eða e.t.v. ferhyrnt gerði“ og styðst þar við skýringu Árna Magnússonar á þess konar fyrirbæri sem kallast ferstikla í Meðallandi (Grímnir 1:80-81). Ein Ferstikla fannst í Meðallandi og er hóll með fjórum þúfum og lautum á milli. Nokkur dæmi eru um Ferstiklu í Rangárvallasýslu, ein þeirra rimi á landamerkjum fjögurra jarða, og klettar í Biskupstsungum heita svo. Árni Magnússon getur um vatnið Ferstiklu norðarlega á Arnarvatnsheiði sem á að vera með fjórum hólmum en það þekkist ekki nú (Árni Magnússons Levned og skrifter II:240; Grímnir 1:81). Auk þess sem nefnt hefur verið heita ýmis stykki í túnum og engjum nöfnum sem benda á ferhyrningslögun: Fera, Ferkantaðastykki, Ferhyrningur, Ferskeyttaflöt, Ferningur.
Fimm
Þá er komið að fimm. Til eru Fimmmelar í Skriðdal („5 melar í hóp“), Fimmklettahæð á landamerkjum í Kelduhverfi; Fimmbogi í Landbroti þar sem mótar fyrir 5 klettabríkum á hól, Fimmsteinaflöt í Hvítársíðu, en nú allir steinar farnir, og þekktur er Fimmvörðuháls þar sem „voru fimm vörður þétt saman til að átta sig á í dimmviðri“ (Þórður Tómasson 1996:224). Fimmmannaleiði heitir í gömlum kirkjugarði í Grímsnesi, þar sem var grafið fólk er brann inni í Norðurkoti 1773, fimm manns. Nokkur nöfn tengjast heyskap og heyfeng: Fimmkaplatún í Hálsasveit, Fimmkaplahvammur í Stafholtstungum, Fimmdagavöllur í Miðfirði, sem talinn var fimm daga sláttur, tveir slíkir í Vatnsdal og einn í Torfalækjarhreppi, Fimmdagasláttur í Öxarfirði og Fimmdagamýri í Reykholtsdal sem ein kona var fimm daga að raka. Fimmálnavellir eru nokkrir til, allir í Strandasýslu nema einn í Gufudalssveit og e.t.v. annar í Reykhólasveit (líka til sem „Fimmtálnavöllur“), Fimmálnaspotti í Eyrarsveit, Fimmálnatún í Miðneshreppi og Gnúpverjahreppi og tvær Fimmálnaflatir í Vatnsleysustrandarhreppi. Um sum þessi stykki er þess getið að nöfnin séu dregin af gömlu leigumáli og leigð þannig til slægna, eitt er blettur, fimm „álnir á kant“. Fimmauri er til á tveimur stöðum í Borgarfirði, á öðrum þeirra tilgáta um verðmat, fimmfaldur „eyrisvöllur“, og Fimmauravöllur á Fellsströnd og í Miðdölum og Fimmeyringur í Skilmannahreppi.
Fimmhundruð koma alloft fyrir í örnefnum og fylgja gjarnan sögur til útskýringar. Um Fimmhundraðadý í Hrunamannahreppi segir að svo margar skepnur hafi drepist í því og annað dý er í Holtum og sagt að þar hafi drepist naut metið á 500 fiska og önnur sögn er að í það hafi verið kastað 5 hundruðum af skemmdum fiski og tekið fram að sú saga sé trúlegri en hin fyrri. Í lýsingu af Rangárvöllum segir að í Fimmhundraðadýi hafi eitt sinn farist fénaður sem metinn var á 5 hundruð á landsvísu og í Nesjahreppi er eitt enn þar sem rík hefðarkona átti að hafa horfið með hesti og skrautklæðum og metin á 500 dali. Fimmhundraðatorfa er á Síðu og þar á að hafa fennt 500 fjár, og sami fjöldi fór fram af Fimmhundraðaþúfu við sjó í Geithellnahreppi. Fimmhundraðamýri í sama hreppi heitir svo því að Tobba í Tobbutótt í Múla átti 5 hundruð í Múla en hafði þessa mýri undir, og í Rauðasandshreppi er Fimmhundraðahæð sem á er miðuð fiskislóð sem oft gaf þennan afla. Nokkur Fimmhundraða-nöfn fundust til viðbótar en þau eru án skýringa. Fimmhundraðahólar í Hraungerðishreppi og Fimmhundraðahóll og Fimmhundraðavöllur í Skriðuhreppi gætu verið jarðarhlutar frá því að jarðamat byggðist á hundraðatali – og Fimmhundraðarétt á Fimmhundraðahellu í Gnúpverjahreppi hefur e.t.v. rúmað 500 fjár.
Sex
Þá er komið að tölunni sex. Hún kemur sjaldan fyrir í örnefnum. Nokkur dæmi eru um stykki í túnum: Sexálnatröð er í Nauteyrarhreppi, Sexdagavellir tveir í Þverárhreppi, Sexauri við Akranes og Sexauravöllur í Kirkjubólshreppi. Engar skýringar fylgja þessum nöfnum og geri ég ráð fyrir að sama eigi við þau og sambærileg nöfn sem byrja á Fimm-. Yfirsjöttungur er í túni í Bolungarvík en engin skýring á því. Á Stóruvöllum í Bárðardal eru til Sexhólar og þar eru Sexhólastaðir undir Sexhólafjalli þar sem glöggt sáust byggðarmerki 1712. Í lýsingu Suður-Þingeyjarsýslu segir svo um Sexhólastaði: „Sumir nefna Söxólfsstaði, og verður að minnast þess, að flestir „staðir“ eru við menn kenndir. En sex eru hólarnir í fjallinu ofan við.“ (Jón Sigurðsson 1954:216). Ekki skulum við rengja það að Söxólfsstaðir séu kenndir við bóndann, en það má kallast einstaklega skemmtileg tilviljun að Söxólfur karlinn skyldi einmitt byggja þar sem fyrir voru sex hólar en ekki bara fimm. Sexmannahvammur er til í Aðaldal, örnefni búið til á síðustu öld en höfundi láðist að geta tilefnis. Að lokum er Sexpelavöllur í túni í Þingvallasveit sem var flatarspilda, um tólf ferfaðmar. Nafnið kom til af því að karl sem bjó þar um eða fyrir 1880 (á undan bónda sem hóf búskap um 1882), drakk brennivín úr sex pelum ásamt vinnumanni sínum meðan hann sléttaði flötina. Þessi flöt mun nú alveg horfin í túnið.
Sjö
Þá er það talan sjö og þar er fjölbreytnin einna mest í sögnum tengdum nöfnunum. Þó má fyrst nefna nokkur hversdagsleg nöfn eins og valllendisblettinn Sjösátuvöll á Skeiðum og Sjöbeðasléttu í Svínavatnshreppi. Sjösilungasíki heitir í Hörðudal þar sem eitt sinn voru teknir sjö silungar í polli þegar áin hafði flætt þangað upp í vatnavöxtum og silungana fjarað inni (var fyrir minni heimildarmanns sem var f. 1893), og tjarnaklasi í Biskupstungum heitir Sjötjarnir og liggja þar landamerki yfir. Í Álftafirði við Djúp heitir Sjötúnahlíð og segir sagan að þar hafi fyrrum verið sjö býli. Ólafur Olavius kallar þetta Sjöttungahlíð í Ferðabók sinni (I:152) en það hefur ekki þekkst sem mælt mál í marga mannsaldra, segir í örnefnaskrá. Ekki sést nú að þarna hafi verið tún en þó eru dálitlir blettir sem grænka fyrst á vorin.
Sjömannavarða er á landamerkjum nokkurra jarða í Borgarfirði en engin skýring er á því nafni. Á Aðalbólsheiði í Vestur-Húnavatnssýslu eru Sjömannavatn og Sjömannaflá, einnig án skýringar. Sagt er í örnefnaskrá að fláin sé „hrottalega vond yfirferðar, hestar fara þar á kvið en samt er alltaf farið yfir hana“.
Sagnir af ýmsu tagi fylgja nöfnum sem byrja á Sjö-. Í Svalbarðshreppi er nefnt Sjöhjónavatn. Því fylgir sú sögn að í hallæri átti að hafa verið farið þangað með sjö hjón til að láta þau deyja en þau lifðu öll af, á silungi úr þessu vatni. Í bréfi frá Árna Jóhannessyni á Gunnarsstöðum í Þistilfirði, rituðu 19. apríl 1962, segir m.a.: „Á unglingsárum mínum, rétt eftir aldamót, heyrði eg þá sögu, að sjö hjón úr Vopnafirði hefðu flúið svartadauða með því að flytjast í Heljardal og draga þar fram lífið á veiðiskap. Þarna heitir eitt vatn Sjöhjónavatn, og þykir það styðja söguna, þótt það gæti að vísu eins átt við sjö álftahjón. Vafalaust er eitthvert samband milli þessara sagna, og ekki er óhugsandi, að fólk hafi reynt að flytjast á þessi öræfi af einhverri illri nauðsyn, hversu lengi sem það hefur dvalizt þar eða hvernig sem því hefur farnazt.“ (Gráskinna hin meiri II:339-340). Fram kemur í frásögn Árna að á þessum slóðum sé gríðarmikið af álftum og hver tjörn full af silungi.
Á Álftamýri í Auðkúluhreppi er Sjömannareitur í kirkjugarðinum, grasi vaxinn blettur. Reimleikar sem urðu í Lokinhömrum fyrir aldamótin 1900 ollu miklum veikindum og lágu sjö manns í valnum; talið var að draugur hefði verið vakinn upp og sendur að Lokinhömrum fyrir öfundarsakir en sá sem sendi ekki haft á honum fulla stjórn (Hafliði Magnússon 1992:148).
Í Fremri-Hvestu í Ketildalahreppi er örnefnið Sjöandahvilft. Sagt er að sjö dalakútar séu grafnir í hvilftinni og sé einn andi hjá hverjum til þess að gæta peninganna; því er hvilftin kölluð svo eða Andahvilft. Sögn er um mann sem reyndi að grafa í hvilftina en þá stóðu hús í björtu báli eins og venja var þegar ráðist var í framkvæmdir af þessu tagi. (Vestf. sagnir I:18).
Á Steinanesi í Arnarfirði er Sjöandabás við sjó. Þar fylgir sú sögn að fram af honum hafi farist bátur sem á voru sjö manns. Einn komst af en allt um það fórust sjö því meðal annarra var á bátnum ófrísk kona. Sagan segir að fólkið hafi verið á heimleið úr kaupstað og bóndi og vinnumaður, báðir drukknir, hafi farið að kenna hvor öðrum um barn vinnukonunnar með þessum afleiðingum. Líkin rak öll upp í þennan bás og af því ber hann nafnið, Sjöandabás. Fleiri nöfn eru til á básnum; hann hefur verið kallaður Djöflabás og í skrifum manns frá næsta bæ, sem fæddur var 1920, er nafnið farið að styttast og orðið Andabás og sögnin er um þrjá eða fjóra sem fórust vegna ósættis um borð. Móðir þessa manns, sem fædd var 1886, kunni hins vegar söguna og skráði hana. Svona vinnur nú tíminn á endurminningunni.
Örnefnið Sjömannabani er til á nokkrum stöðum á sunnanverðum Vestfjörðum en ég hef ekki rekist á það annars staðar. Í Sauðeyjum á Breiðafirði er steinn eða sker með þessu nafni og sagt að á honum hafi farist sjö manns. Við Barðaströnd er sker þar sem á að hafa farist bátur með sjö mönnum og sams konar sögn er um boða í Patreksfirði. Á Rauðasandi er enn einn slíkur; engin sögn er um hann en þarna var veiðistöð og mikið af báthrófum. Sjökarlabani er í Arnarfirði og sagt að þar hafi farist bátur með sjö mönnum.
Tveir Sjömannabanar eru eftir. Á Sandsheiði milli Rauðasands og Barðastrandar eru nokkur vötn sem heita Molduxavötn og eitt þeirra heitir Sjömannabani. Fremst (þ.e. innst) í Mórudal á Barðaströnd er hjallinn Sjömannabani. Sagt er að átta menn hafi verið að flytja bát úr Arnarfirði yfir Fossheiði, og hröpuðu þeir fram af hjallanum og fórust allir nema einn (Vestf. sagnir III:231-232).
Tvö bæjanöfn á Íslandi byrja á Sjö-, Sjöundá á Rauðasandi og Sjöundastaðir í Skagafirði (Haganeshreppi). Menn hafa talið að Sjöundá héti svo vegna þess að hún væri „sjöunda áin“ á Rauðasandi og má eflaust til sanns vegar færa ef byrjað er að telja á réttum stað, en ekki verður farið nánar út í það hér. Bæjarnafnið Sjöundastaðir kemur fyrir í fornbréfum á 15. öld og er ritað Siovnda- eða Siaundastaðir (DI V:43, 454). Sænski fræðimaðurinn E. H. Lind, sem skrifaði um norræn mannanöfn fyrir hundrað árum eða svo, las úr fyrri hlutanum mannsnafn og taldi bæjarnafnið vísbendingu um að það hefði verið til á Íslandi. Það nafn hefði að líkindum orðið *Sjöndi(?) en enginn Íslendingur hefur nokkru sinni borið það svo vitað sé (Lind 1905-1915:873-874). Í örnefnaskrá Sjöundastaða koma fyrir nöfnin Sjölindadalur, Sjölindanes og Sjölindastaðahólmi og svo að skilja að menn hafi a.m.k. á tímabili ritað nafn bæjarins með þeim hætti. En Margeir Jónsson, ritari skrárinnar, segir að Sjölinda-nafn sé „tilbúningur út í bláinn“ og þarna séu á ferðinni „ung nafnaskipti, sennilega eftir síðustu aldamót“ því að allar jarðabækur fyrir þann tíma (þ.e. 1900) hafi Sjöunda-, og Margeir er ekki í nokkrum vafa um að kennt sé við „mannsnafnið Siaund, sem er líklega danskt og stafsett með breytilegu móti, sbr. Lind“. Hugmyndir þessara tveggja manna endurspegla ágætlega þá ríku tilhneigingu sumra fræðimanna að gera sem flesta fyrri hluta bæjanafna, sem enda á -staðir, að mannanöfnum og viðurnefnum ef ekki vill betur. Aðrir hafa dregið þær kenningar í efa, en þetta er of flókið rannsóknarefni á þessum vettvangi og skal því látið útrætt um það.
Átta
Talan átta er varla til í örnefnum, a.m.k. hafa ekki fundist nema örfá slík. Túnbletturinn Áttmælingur í Innri-Akraneshreppi er eina dæmið þar sem átta koma fyrir milliliðalaust. Í Helgustaðahreppi er kambur í sjó fram sem heitir Áttæringur eða Áttahringur og kann að vera að þar sé líking við bát (áttæring). Áttærings- eða Áttahringsvogur er í Papey og Áttæringsvör er í Viðey og önnur á Vatnsleysuströnd. Í Vopnafirði er Áttæringsvík en víkin hefur ýmis fleiri nöfn, s.s. Áttræðisvík, Ytrivík og í seinni tíð Akkerisvík. Áttæringsklöpp og Áttæringsvogur eru á Borgarfirði eystra. Öll þessi nöfn sýnast dregin af bátum – áttæringum – og því ekki sótt beint í töluna átta.
Níu
Talan níu kemur fyrir á fáeinum stöðum og þá eingöngu í heitum túnstykkja: Níuálnavöllur er á þremur stöðum í Dalasýslu og einn á Ströndum þar sem líka er Níuálnafjara (niður af vellinum). Níuálnaslægja er í Hálsasveit og Hvítársíðu og Níuálnatröð í Nauteyrarhreppi og í Múlahreppi, þar sem 9 álnir voru greiddar fyrir að slá stykkið meðan kaup var borgað á landsvísu, og á sú skýring sennilega við hin nöfnin einnig. Níudagasláttur er í Öxarfirði og Níudagatún í Fljótshlíð.
Tíu
Er þá komið að tíu. Tíuálnavöll hef ég fundið á þremur stöðum á Snæfellsnesi og er tekið fram um einn þeirra að nafnið standi í sambandi við gamalt mat en eigi ekki skylt við lengd vallarins og einn er í Strandasýslu. Tíaur(i) er í Reykholti í Borgarfirði og var sagt að stykkið væri metið á tíu aura á landsvísu en enginn þekkir það nú. Annar var í Lundarreykjadal, síðar kallaður Tíeyringur, og Tíuauratún er í Hörðudal. Engin skýring er á því nafni en giskað á að þar hafi „e.t.v. tíeyringur týnzt eða fundizt“. Tíuauragil er í Hörgslandshreppi og getið um þjóðsögu í tengslum við nafnið en hún ekki tilfærð. Tíuaurastapi er í Mjóafirði eystra og Tí(u)aurakelda á Barðaströnd en engar skýringar eru á þeim nöfnum. Tíukapladæla er í Flóa. Tífótagrunn er á grynningu undan Austur-Skálanesi í Vopnafirði og eru þar tíu fet til botns á fjöru. Tídægra er nafn á landsvæði í Blöndudal en skýringu vantar (Tvídægra?). Trúlega er til orðið í seinni tíð nafnið Tíukrónakofi í Aðaldal, en kofinn sá arna var metinn á tíu krónur og þótti dýrt en þó tekið gilt. Örnefnið Tíundadalur undir Eyjafjöllum er að líkindum dregið af tíund, en dalurinn sá mun nú horfinn.
Teinærings- og Teinahrings-nöfn eru til á nokkrum stöðum og samsvara Áttærings-nöfnunum. Teinæringsvogur er á nokkrum stöðum við Breiðafjörð og þar sums staðar einnig Teinæringssker. Teinæringstangi er á Skógarströnd og lögðu að honum bátar sem fluttu fé milli lands og eyja, líka hey úr eyjum. Teinæringsbæli heitir svartfuglabæli í Vestmannaeyjum og átti að vera hægt að hvolfa þar tíæring. Teinahringsboði er í Klofningshreppi og Teinahringslækur í Selárdal í Arnarfirði og var sagt að teinahringur hafi verið settur upp í hann en þá hafi lækurinn verið meiri en nú.
Ellefu
Um ellefu hefur fundist aðeins eitt dæmi, Ellefubeðaslétta í Svínavatnshreppi, þar sem líka var Sjöbeðaslétta.
Tólf
En þá er komið að tólf og þar kennir ýmissa grasa og eru nöfn af sama toga og áður hafa sést. Tólfálnavöllur fannst á einum átta stöðum í Dalasýslu, og á a.m.k. einum stað er tekið fram að tólf álnir hafi verið greiddar fyrir að slá hann. Einn er í Múlasveit, tveir slíkir eru í Borgarfirði og aðrir tveir í Strandasýslu. Tólfálnatún eru þrjú í Borgarfirði og eitt Tólfálnaengi og Tólfálnamóur í Nauteyrarhreppi. Tólfkaplabrekka er í Borgarfirði og sögðu gamlar sagnir að þar mætti heyja tólf kapla; Tólfkarlaengi er vestur í Kaldalóni og segja munnmæli að í Lóninu hafi verið stórbýli í fornöldinni og þá alls átta býli í byggð og engjar svo víðlendar að ekki slógu tólf karlar meira sumarlangt, en nú eru þar sandar og auðn. Annað Tólfkarlaengi er í Álftafirði í Djúpi og þurfti tólf menn til að slá það yfir dag.
Tólfauratorfa er í Fnjóskadal, 30 dagsláttur að stærð og þótti jarðsæl, tók tæpast fyrir beit og því metin til forna á tólf aura á landsvísu.
Tólfhundraðatjörn á landamerkjum nokkurra bæja í Villingaholtshreppi er talin bera nafn af því að þar hafi sendimaður Gaulverjabæjarprests eða Skálholtsbiskups átt að falla niður um ís og tapa þar sjóði með tólf hundruðum einhvers gjaldmiðils. Átti hann að hafa verið á leið í Skálholt með féð. Sumir vildu þó meina, að sendimaður hefði falið peningana annars staðar, en komið sökinni á tjörnina. Í tjörn þessari eru botnlausir hyljir. Hafa menn þar verið hætt komnir þegar tjörnin var slegin fyrrum. Tólfhundraðatjörn var mikið fen, áður en skurður var grafinn austan hennar. Þarna drapst fjöldi fjár áður. Í Útey í Laugardal er önnur Tólfhundraðatjörn. Sagt er að þar hafi verið þau álög að ekki mátti veiða meira en 1200 silunga, þá hætti að veiðast. Það var gert og síðan hefur ekki veiðst þar silungur, þó að hann sjáist þar, jafnvel ekki þó ádráttur væri reyndur. Önnur gerð sögunnar er sú að aldrei hafi mátt veiða í tjörninni meira í senn en til næsta máls. Maður kom að Útey sem hafði það að engu og veiddi 1200 silunga á svipstundu en upp frá því hefur engin veiði verið þar og tjörnin síðan nefnd Tólfhundraðavatn (Ísl. þjóðs. I:462).
Tólfhundraðadý er í Gnúpverjahreppi en engin skýring á því. Tólfhundraðaskúti var í Hornbjargi en telst varla til lengur, er löngu hruninn saman og ekki hægt að síga í hann. Nafnið hefur áreiðanlega verið tengt fugla- eða eggjatekju á þessum stað. Meðal eyja í Reykhólasveit er Tólfhjónafæða en engin skýring er á því nafni. Ekki er ólíklegt að hér sé vísun til landkosta téðrar eyjar. Eyjar á Breiðafirði voru fyrrum sannkallaðar matarkistur og má alveg hugsa sér að Tólfhjónafæða hafi nægt til að fæða þann fjölda manna, sbr. sögn um Sjöhjónavatn hér að framan.
Allmörg nöfn tengjast slysförum á sjó. Innarlega í Ísafjarðardjúpi eru tveir Tólfkarlabanar og munnmæli um annan að þar hafi farist Þorleifur Björnsson Jórsalafara og þeir tólf saman. Steinn í sjó við Kambsnes við Ísafjarðardjúp heitir einnig Tólfkarlabani og þar fórust tólf menn sem ætluðu að Eyri í Seyðisfirði að galdra drauga upp úr kirkjugarðinum. Önnur munnmæli segja að tólf seiðkarlar úr Álftafirði hafi ætlað að eyða byggðina í Seyðisfirði en ófriður hafði lengi staðið milli nágranna. Af forvisku sinni hafði karl einn á Eyri orðið áskynja um áform Álftfirðinga og stefnt för þeirra á steininn þar sem þeir fórust allir (Vestf. sagnir III:91). Við Flateyri er enn einn Tólfkarlabani og þar er sagt að bátur hafi rekist á skerið í þoku og allir á honum farist; önnur gerð sögunnar segir að tólf útróðramenn af Kálfeyri hafi ætlað að Holti að vekja upp draug en róið á skerið. Tólfmannabani er við Sauðeyjar á Breiðafirði, steinn í sjónum, og sagt að tólf menn hafi farist á honum, nær allt heimilisfólk í Sauðeyjum að koma úr kirkjuferð að Brjánslæk. Tólfmannaboði er í Hnífsdal og talið að tólf hafi drukknað, sumir segja að tólf hafi drukknað á lengri tíma. Í Gufudalssveit er Tólfmannaboði (eða Tólfmannabani) og til saga um að tólf hafi farist. Einn er í Kaldrananeshreppi og þar fórust tólf sem voru að koma úr veislu á Vatnsnesi. Við Dranga í Árneshreppi er enn einn þar sem sagt er að tólf hafi farist sem ætluðu til messu að Dröngum á gamlárskvöld (þessi boði er aðeins upp úr á stórstraum). Tólfmannaboði er við Seljanes í sömu sveit. Það eru raunar þrír boðar í beinni röð og standa aldrei upp úr sjó nema á stórstraumsfjöru. Sagt er að boðinn dragi nafn af því að þar hafi farist bátur með tólf mönnum. Sagnir eru til um þann atburð og hefur Ingvar Agnarsson skráð þær í Strandapóstinum (17. árg.) og ort um hann ljóð sem nefnist Tólfmannaboði. Það hefst á þessu erindi:
Við Tólfmannaboða
tvíefldar öldur
þruma sitt þunglyndislag,
minnugar þess
að á myrku kvöldi
bátur hér brotnaði í spón.
(Ingvar Agnarsson 1983:47-49).
Tólfmannaholt er í Ófeigsfirði og sagt að þeir tólf sem fórust á boðanum út af Seljanesi hafi verið dysjaðir þar. Tólfmannaurð er í Óspakseyrarhreppi en engin sögn um hana.
Á Skaftártunguafrétti er svæði sem nefnt hefur verið Tólfahringar (eða Tólfahringur). Jón Jónsson jarðfræðingur hefur ritað um Tólfahring í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1989 en ræðir þar ekki um nafnið sérstaklega heldur um hugsanlega byggð frá sjónarhóli jarðfræðinnar. Sagnir eru um að þarna hafi verið byggð til forna og hafa skrifað um það Sæmundur Hólm og sr. Jón Steingrímsson sem fyrstur nefnir þetta nafn (Jón Jónsson 1990:121-122). Hvað þarna er að baki liggur ekki í augum uppi og hvort eða hvernig nafnið tengist tölunni tólf er ekki ljóst og verður ekki reynt að ráða þá gátu hér.
Fimmtán og sautján
Nú má fara fljótt yfir sögu. Fimmtánálnavöllur (eða Fimmtánálnahóll) er í Saurbæjarhreppi í Dalasýslu og annar í Brokey á Breiðafirði, báðir eflaust af sama uppruna og aðrir kenndir við álnir.
Í Meðallandi er varða sem ýmist er kölluð Sautjándavarða af því að hún er 17. varða í röð eða Sitjandavarða vegna þess að líkt er sem sæti sé við hana; hún er í þriðja lagi kölluð Grýla af því að það er eins og kerling sitji þar ef horft er á vörðuna frá bæ, sérstaklega í þoku, og krakkar voru stundum hræddir með henni.
Átján
Talan átján kemur nokkrum sinnum fyrir og eru flest þau nöfn í flokki slægnanafna. Átjánálnavellir eru tveir í Borgarfirði, fjórir á Fellsströnd, einn í Reykhólasveit og annar í Gufudalssveit og tveir í Kirkjubólshreppi á Ströndum. Átjánálnatröð er í Múlasveit og Átjánkaplarimi eða Átjánkaplaflesja á Skeiðum. Átjánmannareitur er í Suðurfjörðum í Arnarfirði og sagt að þar hafi verið jarðaðir átján menn í svartadauða. Átjánmannalág er í Bolungarvík og fer tvennum sögum af tilefni þess nafns. Önnur sagan segir að átján menn hafi sokkið þar niður, verið við skál og kölski hirt þá. Hin segir að átján menn hafi verið þar á ferð, misklíðarefni komið upp og þeir gripið til vopna, barist svo að allir féllu og séu dysjaðir í láginni.
Nítján
Nítjánálnavöllur í túni í Lundarreykjadal er eina nafnið sem hefur fundist með þeirri tölu.
Tuttugu
Tuttuguálnavellir eru allvíða. Tveir eru á Snæfellsnesi, þrír í Dalasýslu, tveir í Geiradal, fjórir í Reykhólasveit, einn í Múlasveit, þrír í Gufudalssveit, einn á Barðaströnd, einn í Nauteyrarhreppi og loks einn á Ströndum. Um tvo þessara valla er þess getið að þeir séu viku- eða sex daga vellir og kaup fyrir að slá þá tuttugu álnir á landsvísu. Auk þeirra má nefna tvö Tuttuguálnaengi í Eyrarsveit og annað sagt draga nafn af gömlu leigumáli á engjum. Tuttuguálnasker er í Ófeigsfirði á Ströndum; við það var selveiði og giskað á að hafi verið metið til tuttugu álna í jörðinni. Tuttuguhestamýri er í Fnjóskadal og á efalítið við heyfeng. Á einum stað í Skagafirði er til Tuttugastasund (eða Tuttugustusund) án nokkurrar skýringar (< *Tuttuguhestasund?).
Ýmsar tölur
Þegar hér er komið sögu fara tölur mjög að strjálast sem fyrir koma í örnefnum. Af sama toga og sumt sem áður var nefnt eru Þrjátíuálnavöllur í Haukadal í Dölum og Þrjátíukaplamýri í Öxney á Breiðafirði. Þrjátíudalastapi er í Árneshreppi, illkleifur en þó kleif hann maður og skildi eftir 30 dali og bað þann eiga sem gæti sótt. Stapinn hefur verið klifinn síðan en gullið fannst ekki svo það má enn reyna. Í Árneshreppi eru líka Fjörtíufaðmapartur (engjapartur) og Fjörutíuhestaengi og Sextíuhestaflói er í Breiðdal.
Hundrað
Talan hundrað kemur fyrir í örnefnum víða og þá venjulega um tiltekinn part eða eignarhlut í jörð. Algengt er t.d. að stykki í túnum eða annað heiti slíkum nöfnum, s.s. Pálshundrað í Skálavík og Friðrikshundruð á Rauðasandi sem hafa að líkindum verið í eigu eða nytjuð af Páli og Friðriki, og Kaupamannshundrað í Tálknafirði var illslægt og kaupamönnum skipað þar til sláttar. Hundrað hét í túnum á Barðaströnd, í Auðkúluhreppi, í Bolungarvík, Arnardal við Djúp og í Önundarfirði og þaðan eru einnig dæmi um Hundruð. Bjargahundruð eru til í Auðkúluhreppi, sex hundraða stykki, hugsanlega ítak frá annarri jörð. Eina nafnið sem fundist hefur af öðrum toga er Hundrað(s)mannahellir í Vestmannaeyjum, þar sem 100 manns áttu að hafa falist fyrir Tyrkjum en tekið fram í örnefnaskrá að þess sé hvergi getið. Honum er svo lýst að það sé lágur hellir í miðju Ofanleitishrauni, 80 fet á lengd með tveimur körmum og sá lengri er til útsuðurs snýr.
Síðustu tölur
Þá er eiginlega ekki eftir nema ein tala og það er milljón. Henni bregður aðeins fyrir í örnefnaskrám og því leyfi ég mér að hafa hana með, en er ekki nema í nöfnum sem upp hafa komið í seinni tíð eins og vænta má. Á Hjalteyri við Eyjafjörð var á einhverjum tíma nýjasti hluti þorpsins kallaður Milljónahverfi og á Vopnafirði hefur komist inn í örnefnaskrá heiti húss sem þjónaði sem mjölskemma og fleira og var nefnt Stóramilljón. Fleiri nöfn af þessu tagi munu vera til þó ekki hafi komist í örnefnaskrár. Og í blálokin eitt nafn sem er eiginlega ekki hægt að sleppa. Í Höfnum á Reykjanesskaga er tófugreni sem kallað er „1944“, en tilefnis nafnsins er ekki getið.
Er þá þessari talningu lokið.
Síðast breytt 24. október 2023