Birtist upphaflega í október 2010.
Stundum er tekið svo til orða að mörg sé matarholan. Samkvæmt Íslenskri orðabók er matarhola ‘hola (t.d. í kjötbita) sem matur er í; staður þar sem hægt er að afla matar’. Matarholur finnast í íslenskum örnefnaforða í tvennum skilningi: þar er víða gott til fanga til skoðunar og rannsókna og örnefnið Matarhola kemur fyrir á nokkrum stöðum. Í ánni Flóku (Flókadalsá) í Borgarfirði er hylur nefndur Matarhola og segir í örnefnaskrá Bæjar í Andakíl að þar hafi verið mjög góð veiði. Önnur Matarhola er í Soginu, „mjög fengsæll veiðistaður áður en vatni frá Þingvallavatni var veitt úr farvegi Sogs til Steingrímsstöðvar“ (örnefnaskrá Kaldárhöfða í Grímsnesi). Í sameiginlegri örnefnaskrá Klukkulands og Hólakots í Dýrafirði er lýst svonefndum Dýjaparti. Prestslækur rennur í kringlótta holu í honum sem heitir Matarhola, en hún hefur nafn sitt af því að þangað eru undirgöng úr Núpsá og þar veiðist stundum silungur.
Meðal veiðifljóta í ánni Fáskrúð í Dölum er Matarpollur og er í hópi nýrra örnefna að sögn Hallgríms Jónssonar frá Ljárskógum sem ritar örnefnaskrá. Annar Matarpollur er í Haukadalsá, fyrir löndum Smyrlhóls og Mjóabóls, og var þar oft mikil veiði, lax og silungur (örnefnaskrá Mjóabóls). Matarpollur – veiðifljót – er líka í Laxá í Dölum, fyrir landi Sámsstaða. Neðar í sömu á, fyrir löndum Fjósa og Saura, er enn Matarpollur og segir svo í örnefnaskrá Fjósa eftir Jóhann Bjarnason: „Er munnmælasögn um, að á hörðu vori er bjargarlaust var svo við mannfelli lá, hafi byggðarmenn gert sameiginlegt áheit á Vora frú Maríu um að hún sendi lýðnum nokkra lífsnæringu í neyð þessari, en ekki minnist ég að hafa heyrt hverju heitið var. En morguninn eftir var á Laxá, sem lá undir gaddís, komin auð vök á þessum stað og í pollinum gnægð af laxi. Var þar nógur matur til þess að Laxdælir björguðust lífs af í það sinn, enda heitir fljótið síðan Matarpollur.“
Í Laxá í Reykhólasveit „eru Matkistur, smáfoss með miklum hyl og stórgrýtt undir, valið legupláss fyrir stórsilung (lax); af því nafnið“ (örnefnaskrá Klukkufells). Örnefni kennd við mat vísa víðar til matgæða eða matfanga með einhverjum hætti. Í landi Skálar á Síðu er Matartorfa þar sem er gnægð fjallagrasa (örnefnaskrá Guðrúnar Jónsdóttur). Matseld er hár ás í landi Hrepphóla í Hrunamannahreppi og er þess getið til í örnefnaskrá sem skráð er eftir Jóni Sigurðssyni bónda þar, að nafnið sé til orðið vegna gróðurfars („matsæld“), enda grösugar brekkur austan í ásnum. Matseldarklauf skilur ásinn frá öðrum og þangað voru kýr oft sóttar. Nafnið Matsæld kemur raunar fyrir á öðrum stað í sama hreppi, í landi Reykjadalskots (sem nú heitir Túnsberg) og er talið þar meðal nafna í engjum og högum án frekari upplýsinga í örnefnaskrá 1912.
Í túni Ljárskóga í Dölum var lítið þúfnastykki, Matvinnungsslægjan. „Taldist sá matvinnungur sem sló það á dag, sennilega nær tveggja tíma vinna“ (örnefnaskrá HJ). Svipaða nafngift er að finna í túni Otradals í Arnarfirði. Þar var afgirt svæði nefnt Matvinnungur, og „mun hafa verið talið að sá er slægi þennan blett ynni fyrir mat sínum en ekki umfram það og skyldi það gert á einum venjulegum vinnudegi“ (örnefnaskrá Otradals ás. viðbótum Sigurðar Guðmundssonar). Ekki er stærð þessara bletta tíunduð í örnefnaskránum, en fróðlegt væri að vita hvort bændur í Dölum og Arnarfirði vestur hafa gert sambærilegar kröfur um afköst hjúa sinna við heyskapinn.
Víða í engjum eru nöfn sem dregin eru af því að þar settist heyskaparfólk niður og borðaði mat sinn, sem það annaðhvort hefur haft með sér að heiman eða hann verið færður á engjarnar. Var þá gjarnan valinn staður þar sem var skjól eða þurr blettur í votlendi. Slíkra staða er víða getið í örnefnaskrám og fjarri því að allir verði hér taldir, aðeins tekin fáein dæmi. Matarklauf í Syðra-Garðshorni í Svarfaðardal var svo nefnd af því að þar hafði verið leitað skjóls til að matast úti þegar verið var við heyskap, og í engjum Laxárness í Kjós er hvammurinn Matarbolli sem oft var matast í á engjum (örnefnaskrár). Mathóll í landi Neðra-Ness á Skaga „mun draga nafn af því, að þar er gamalt smalabyrgi. Líklegt þykir, að þar hafi engjafólk leitað skjóls, er það mataðist. Þangað mun vegalengd vera um 3 km frá bænum“ (viðbætur Lárusar Björnssonar við örnefnaskrá). Í Svartagilshlíð í landi Ásunnarstaða í Breiðdal er gonta, kölluð Matargonta. „Etið var í gontunni, þegar heyjað var á fjallinu“ (örnefnaskrá Hannesar Þórðarsonar). Einstök stórþúfa í svonefndum Flötumóum á Hlöðum – sem voru engir móar heldur mýri, allblaut – heitir Matarþúfa. „Þar var stundum matast því að þurrt var umhverfis hana“, segir Steindór Steindórsson í bók sinni, Hlaðir í Hörgárdal (1980, bls. 19). Innan við votlendið Heilögubletti í Berufirði, S-Múl., er Matarholt og neðan við það Matarhola. „Eflaust eru þessi ... nöfn dregin af því hvar engjafólkið borðaði og það hefur farið eftir veðri hvort valin var holan eða holtið“ (örnefnaskrá Nönnu Guðmundsdóttur). Þessi Matarhola er því annarrar merkingar en þær sem fyrr voru nefndar.
En það var ekki heyskaparfólk einvörðungu sem átti sér svo fastan stað til að neyta matar síns og hvíla lúin bein að varð uppspretta örnefnis. Á Hafursstaðaeyrum á austurafrétti Bárðdæla er Mathvammur, áningarstaður gangnamanna (örnefnaskrá). Um það bil í miðjum Miðteygingum á Teygingalæk, V-Skaft., er stakur klettur, nefndur Matarklettur. Þar munu smalar hafa geymt mat sinn er þeir sátu kvíaærnar (örnefnaskrá). Austarlega í Víkurhömrum, austan Víkur í Mýrdal, heitir Matarnef. Þar borðuðu fýlaveiðimenn (örnefnaskrá). Á Borg á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu heitir Matartorfa og „dró nafnið af því, að þegar dregið var fyrir lúru, átu menn í torfunni“ (örnefnaskrá). Um lúruveiðar í Hornafirði má fræðast af grein Stefáns Guðnasonar, „Um veiðiskap og aflabrögð í Hornafirði“ (Skírnir 137 (1963), bls. 106–120). Þar segir að lúra sé eða hafi verið langalgengasta heiti á öllum tegundum kola í Hornafirði og vafalaust ævafornt í málinu á þeim slóðum. Lúruveiðar og hagnýting fisksins til manneldis voru með afar sérstökum hætti þar um slóðir og skal ekki fjölyrt um það hér en bent á grein Stefáns ef menn vilja kynna sér þau fræði nánar.
Í Bjarnarey í Vestmannaeyjum er Matarkrókur sem liggur að Hvannhillu, og er „matur dreginn þar upp af fuglamönnum þegar ekki verður lagt að Steðja“, segir Gísli Lárusson í örnefnaskrá.
Í túni Núpa í Ölfusi var Matarskák, blettur neðan kálgarðs austurbæjar, en vesturbær átti. Gömul sögn hermir að austurbæjarbóndi hafi selt skákina fyrir mat í hallæri (örnefnaskrá Þórðar Ögm. Jóhannssonar).
Búrfell upp af Reykjarfirði á Ströndum heitir Matarfell á sjó. Ljósm. Björn Rúriksson.
(Úr: Lúðvík Kristjánsson, Íslenskir sjávarhættir III (1983), bls. 182.)
Alkunna er að ekki mátti nefna „búr“ á sjó og þá ekki fjallsheitið Búrfell, þá voru menn að egna á sig búrhvelið. Því var Búrfell stundum nefnt Matarfell á sjó, t.d. Búrfell niður af Snæfellsjökli að vestanverðu og Búrfell fyrir botni Reykjarfjarðar á Ströndum (Lúðvík Kristjánsson: Íslenzkir sjávarhættir III, bls. 182).
Birt þann 20. mars 2019
Síðast breytt 24. október 2023