Birtist upphaflega í janúar 2010.
Íslendingar hafa snemma lært að færa sér jarðhitann í nyt á ýmsa lund, til þrifnaðar og matseldar. Af því hafa sprottið örnefni eins og mörgum öðrum athöfnum mannsins í umhverfi sínu.
Á hverasvæðinu í Laugarási í Biskupstungum eru nokkrir hverir nafngreindir og ganga sumir undir fleiri en einu nafni. Einn þeirra hefur verið nefndur bæði Matarhver og Þvottahver og bendir til þess að bæði hafi verið eldað og þvegið í honum. Sá hver var eingöngu notaður af heimafólki í Laugarási en í öðrum Þvottahver þvoði fólk af nágrannabæjum þvott sinn. Þar var þvegið langt fram á fimmta tug síðustu aldar.
Margir hverir eru á Reykhólum í Austur-Barðastrandarsýslu og hafa borið ýmis nöfn sem sum eru nú fallin úr minni manna. Í örnefnaskrá eftir Samúel Eggertsson, sem að nokkru styðst við Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen (2. b., bls. 40–41), eru nöfnin Þvottahver, Þvottahola og Þvottalaug, en heimildarmaður sem skráð er eftir 1977 þekkir ekki tvö síðari nöfnin. Í Barðstrendingabók skrifar Pétur Jónsson frá Stökkum um Reykhóla og nafngreinir fáeina hveri. Þeirra á meðal er lítill hver í sléttri klöpp, 30–40 cm breiður og bullar og sýður í honum sí og æ. Þessi hver kallast Fríður og segir að í honum hafi börn og unglingar oft soðið egg, er þau fundu í smalaferðum á vorin, og fullorðnir hafi einnig oft átt þangað erindi með egg fyrr á árum (bls. 28). Í fyrrnefndri örnefnaskrá og athugasemdum er nefndur Eggjahver sem kann að vera þessi sami hver.
Á hverasvæðinu við Geysi í Haukadal eru tvennar Brauðholur, þar sem bakað var brauð frá bæjunum í kring. Það var gert í tíð Sigurðar Greipssonar (1897–1985). Brauðholurnar eru ekki eiginlegir hverir, aðeins sandur sem brauðið var grafið niður í. Í túni Haukadals eru heitar laugar, þeirra á meðal Matarlaug sem er heitust þeirra (70°). Þar er líka Sokkalaug (um 25°) þar sem voru þvegnir sokkar.
Heimildarmaður um örnefni á Nesjavöllum í Grafningi kann að segja frá því að þar voru bökuð brauð við jarðhita, spöl frá borholum Hitaveitu Reykjavíkur og minnir hann að þarna hafi verið kallaður Brauðhver eða Brauðhola. Þetta var ekki vatnshver heldur brennisteinn, kísill og hveraleir. Hann nefnir þarna einnig Eldhver, sem hann giskar á að hafi dregið nafn af því að þar hafi matur verið eldaður, t.d. kartöflur og slátur. Sami heimildarmaður, sem ólst upp í Hagavík í Grafningi, segir frá því að í svonefndum Hagavíkurlaugum, undir Hengilsyllum, var oft verið við heyskap. Í kvos í laugunum var víða sjóðandi heitur sandur, blandaður hveraleir og brennisteini. Matur var eldaður og bökuð brauð í sandinum meðan legið var við, en engin nöfn nefnir hann þó af þessu dregin.
Í Hverahólma á Högnastöðum í Hrunamannahreppi eru ýmsir hverir og þar er stærstur Vaðmálahver, mikill og djúpur hver þar sem voðir voru þvegnar áður fyrr. Aðrir hverir hafa ekki fengið nöfn af nýtingu, en þess er getið að brauð voru bökuð í Hverahólma, nærri því hvar sem var. Fata var sett í holu og brauðið þar í og haft í sólarhring. Holan var þurr en hitinn samt nægur.
Í landi Reykja í Reykjahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu og Hveravalla, sem eru nýbýli úr Reykjum, er mikið hverasvæði og ýmsir hverir nafngreindir, þar á meðal Þvottahver og Kaffihver. Um hinn síðarnefnda segir að hann hafi verið mikið notaður til brauðbaksturs og oft hitað þar kaffi, enda sísjóðandi.
Um Deildartunguhver í Reykholtsdal segir að í honum séu Bolagjá, hverasuða hæst í hólnum, og Sláturpollur, suðaustan undir hverahólnum. Líklegt er að hann dragi nafn af slátursuðu þó þess sé ekki getið.
Þvottalaugarnar í Reykjavík. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Að lokum má nefna laugar þær í landi Laugarness í Reykjavík sem Sveinn Pálsson lýsir í Ferðabók sinni. Fyrir sunnan bæinn var allstór mýri og í henni bæði köld uppspretta og heit. Þarna verður til „dálítil tjörn, sem notuð er til að þvo í af almenningi ... því að hægt er að tjalda þar rétt hjá á grasi grónum hól, sem Laugarhóll heitir, ef menn þurfa að gista við laugina“ (bls. 68–69). Þessar heitu laugar eru það sem Reykvíkingar og margir fleiri þekkja sem Þvottalaugarnar í Reykjavík og notaðar voru til þvotta fram eftir 20. öld.
Síðast breytt 24. október 2023