Lögbók á skinni með lögum hins forna íslenska þjóðveldis sem að stofni til er talin skrifuð 1271-72 eða laust eftir að þjóðveldið leið undir lok og meðan ný lög voru í smíðum. - Þjóðveldistíminn á Íslandi hófst með stofnun Alþingis árið 930 og honum lauk þegar Íslendingar gengu á hönd Noregskonungi árið 1262 í kjölfar Sturlungaaldar, heiftarlegra átaka milli valdamestu höfðingjaætta landsins sem stóðu linnulítið allan fyrri helming 13. aldar.
Staðarhólsbók er 108 blöð og textinn á hverri blaðsíðu tvídálka. Í henni eru tvær lagaskrár, sú fyrri er Grágás, en seinni lagaskráin nefnist Járnsíða. Fyrsta blaðsíða handritsins hefur upphaflega verið auð en seinna hefur svokallaður Dómkapítuli Járnsíðu verið skrifaður á hana.
Meginhluti Grágásar er ritaður af tveimur skrifurum og hefur annar þeirra skrifað langmest. Að auki koma svo rithendur níu annarra skrifara fyrir á 14 smápóstum á víð og dreif innan um texta aðalskrifarans.
Járnsíða er öll rituð af einum skrifara sem ekki hefur átt neinn þátt í ritun Grágásar og hefur Járnsíðu augsýnilega verið aukið aftan við Grágásarhandritið eftir að ritun þess var lokið.
Um uppruna Staðarhólsbókar og feril fyrr á öldum vita menn ekki neitt öruggt. Þeirri tilgátu hefur verið varpað fram að aðalskrifari Grágásartextans hafi verið Þórarinn kaggi Egilsson prestur á Völlum í Svarfaðardal (d. 1283), en hans er getið í samtímaheimild, Laurentius sögu biskup, og sagður hafa verið "hinn mesti nytsemdamaður til leturs og bókagjörða". Á öndverðri 16. öld var skinnbókin á Suðurlandi. Þar var hún um tíma í eigu Páls lögmanns Vigfússonar á Hlíðarenda (d. 1570), en komst síðan vestur á land. Þess hefur verið getið til að Staðarhóls-Páll (d. 1598) hafi átt bókina, og víst er að hún var í eigu sonarsonar hans, Bjarna sýslumanns Péturssonar á Staðarhóli í Dalasýslu (1613-93). Við þann bæ er bókin kennd.
Lög þjóðveldisins hafa löngum verið kölluð Grágás. Þá nafngift á íslensku lagahandriti er þó hvergi að finna í miðaldaheimildum heldur kemur hún fyrst fyrir árið 1548 í skrá um bækur sem Gissur Einarsson Skálholtsbiskup lét eftir sig; þar er lögbókin Grágás sögð hafa verið í eigu hans. Í Heimskringlu og Sverris sögu er getið Grágásar, lögbókar sem Magnús konungur góði, sonur Ólafs helga, lét semja fyrir Þrændalög um miðja 11. öld. Leiða má að því líkur að lærðir menn íslenskir hafi álitið að þessi bók hafi verið nokkurs konar frumlögbók komin frá Ólafi helga og að þeir hafi talið þjóðveldislögin fornan norskan rétt sem frá henni væri runnin og þess vegna tekið að kallað þau Grágás eftir lögbók Magnúsar góða.
Lög voru meðal þess sem fyrst var skrifað hérlendis á þjóðtungu Íslendinga. Sagnaritarinn Ari fróði Þorgilsson (1067-1148) skýrir frá því í Íslendingabók, sem hann samdi um 1130, að veturinn 1117-18 hafi lög verið skráð á Breiðabólstað í Vesturhópi.
Miðaldahandrit þjóðveldislaganna eru ekki mörg. Elst mun vera handritabrot frá síðara hluta 12. aldar. Það eru tvö skinnblöð (AM 315 d fol.) og er á þeim brot úr Landabrigðaþætti. Blöðin eru með allra fornlegustu handritabrotum íslenskum sem til eru. Nokkru yngri eða frá byrjun 13. aldar er um það bil helmingur af skinnblaði sem textinn hefur verið skafinn af öðrum megin og tvær ræmur af öðru blaði sem notaðar hafa verið í reimar í innsigli. Staðarhólsbók er annað aðalhandrit þjóðveldislaganna ásamt Konungsbók Grágásar sem nokkru eldri, talin skrifuð um 1250 og að mestu leyti af sama skrifara sem ritaði meginhluta Grágásar í Staðarhólsbók. Í Konungsbók eru fleiri þættir en í Staðarhólsbók en texti Staðarhólsbókar er á hinn bóginn víða ítarlegri. Hlutar þjóðveldislaganna eru einnig varðveittir í ýmsum lögbókarhandritum sem skrifuð voru á seinni öldum.
Járnsíða er lögbók sem samin var að frumkvæði Magnúsar konungs Hákonarsonar, sem nefndur er lagabætir, og var hún lögtekin á Íslandi á árunum 1271-3 í kjölfar þess að Íslendingar gerðust þegnar Noregskonungs. Með henni féll úr gildi margt af hinum forna og þjóðlega rétti. Heldur hefur Járnsíða þótt misheppnað lagaverk, enda var hún aðeins áratug í gildi. Árið 1281 samþykktu Íslendingar nýja lögbók sem átti lengri tíma fyrir sér, og var hún nefnd Jónsbók. Staðarhólsbók er eina handrit Járnsíðu frá miðöldum og eru öll varðveitt eftirrit frá henni runnin með einni undantekningu.
Séra Páll Ketilsson í Hvammi í Dölum, móðurbróðir Árna Magnússonar, gaf Árna Staðarhólsbók sumarið 1685. Hún var afhent heim til Íslands 1987.