Skip to main content

Ljósmyndastofa

Ljósmyndastofa
Ljósmyndastofa

Á ljósmyndastofu stofnunarinnar er unnið að stafrænni myndatöku handritanna og hefur nú þegar verið myndaður í stafrænu formi fjöldi handrita í vörslu Árnastofnunar. Þær myndir eru aðgengilegar á sameiginlegum handritavef Árnastofnana í Reykjavík og Kaupmannahöfn og Landsbókasafns á handrit.is. Þetta myndasafn vex í takt við það hvernig vinna við myndatöku og það að koma myndunum inn á vefinn gengur.

Markmið Árnastofnunar er að eignast eftirgerðir af öllum íslenskum handritum sem varðveitt eru erlendis. Mikið vantar á að því marki hafi verið náð, en allmiklu safni hefur þó verið komið upp á liðnum árum. Stofnunin á því nokkurt safn örfilma og ljósmynda af íslenskum handritum í erlendum söfnum. Stefnt er að því að fylla í það safn en Danir gáfu til þess fé á ellefu alda afmæli Íslandsbyggðar. Í tengslum við lok handritaskiptanna hétu íslensk stjórnvöld stofnuninni sérstökum fjárveitingum til þess að koma sér upp á næstu árum ljósmyndum af þorra íslenskra handrita sem eftir verða í dönskum söfnum. Í Den Arnamagnæanske Samling í Kaupmannahöfn eru til örfilmur og ljósmyndir af öllum þeim handritum sem þaðan komu og hingað heim.