Skip to main content

Handrit á sýningum

Hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er ekki lengur hægt að bjóða upp á handritasýningu vegna húsnæðisskorts en allt frá heimkomu fyrstu handritanna árið 1971 til ársins 2013 voru handritasýningar snar þáttur í starfsemi stofnunarinnar. Um þessar mundir eru valin handrit úr safni Árna Magnússonar til sýnis á tveimur sýningum í miðborg Reykjavíkur.

Sjónarhorn

Skarðsbók Jónsbókar
Skarðsbók Jónsbókar (1363) AM 350 fol.

Sýningin Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu 15 var unnin í samstarfi við Árnastofnun og fimm önnur söfn. Þegar handritin fyrir sýninguna voru valin var sjónum beint að myndlýsingum / skreytilist í íslenskum handritum. Sjö handrit Jónsbókar úr safni Árna Magnússonar prýða sýninguna; eitt hið elsta frá lokum 13. aldar og allt til þess yngsta, pappírshandrits frá 17. öld – á meðal handritanna er fagurlega rituð og myndlýst Skarðsbók Jónsbókar (1363). Auk handritanna eru til sýnis nákvæmar eftirgerðir Íslensku teiknibókarinnar (1350–1500) og sjö myndlýstar handritasíður úr Stjórn (1350), prentaðar á kálfskinn. Safnkennari Árnastofnunar, Svanhildur María Gunnarsdóttir, sinnir fræðslu fyrir skólahópa og veitir leiðsögn um sýninguna (ekki í boði á haustmisseri 2020). 

Þjóð verður til

Grágás AM 31 b fol. (1240–1260).

Á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins, Þjóð verður til, eru til sýnis tvö handrit og eitt handritsbrot frá Árnastofnun: eitt blað úr þjóðveldislögunum Grágás; skinnblað frá 1240–1260, Jónsbókarhandrit; skinnbók frá 1450 og afrit Íslendingabókar Ara fróða Þorgilssonar; pappírshandrit frá s.hl. 17. aldar. Upplýsingar um móttöku hópa og leiðsögn um sýninguna er að finna á vef Þjóðminjasafns Íslands en sú þjónusta er í höndum starfsmanna Þjóðminjasafnsins.