Skip to main content

MÖÐRUVALLABÓK - AM 132 fol. Skinnhandrit - 14. öld

Skinnbók sem mun vera skrifuð nálægt miðri 14. öld og er lang-stærsta og mikilvægasta handrit Íslendingasagna. 189 blöð gömlu bókarinnar eru varðveitt, en þau voru mun fleiri í öndverðu; að auki eru 11 blöð frá 17. öld, sem hefur verið bætt inn í bókina til fyllingar.

Íslendingasögur nefnast þær sögur einu nafni sem fjalla um landnámsmenn og fyrstu afkomendur þeirra á Íslandi. Þær gerast í heiðnum sið og í öndverðri kristni í landinu. Talið er að þessar sögur muni flestar vera samdar á 13. öld, en leifar af handritum þeirra, sem gerlegt þykir að tímasetja fyrir 1300, eru fjarska litlar. Íslendingasögur hafa nær eingöngu varðveist í uppskriftum sem gerðar voru á 14. öld og síðar. Eins og við er að búast veldur þetta heldur en ekki óvissu í fræðum þeirra sem fást við sögurannsóknir, því að ekki er hlaupið að því að greina upphaflegan texta söguhöfundar frá því sem eftirritarar kunna að hafa lagt til málanna. Þó er það betra en ekki ef sagan er til í sæmilega gömlu handriti og helst fleiri en einu, svo að komið verði við samanburði á textum.

Í Möðruvallabók eru ellefu sögur. Fyrstu sjö sögunum er skipað eftir héruðum og stendur Njáls saga fremst, en úr henni hefur töluvert týnst og hefur yngri blöðunum 11 verið ætlað að bæta úr því. Þá er Egils saga, og vantar tvö blöð í hana, síðan Finnboga saga, Bandamanna saga, Kormáks saga, Víga-Glúms saga og Droplaugarsona saga. Fjórar síðustu sögurnar eru Ölkofra saga, Hallfreðar saga, Laxdæla saga og Fóstbræðra saga sem er mjög skert. Þá kemur fram af klausu aftan við Njáls sögu að þar hefur átt að rita við Gauks sögu Trandilssonar, en af því hefur ekki orðið, og er sú saga löngu týnd. Á hinn bóginn eru sumar Íslendingasögur hvergi varðveittar heilar nema í Möðruvallabók og eftirritum hennar. Aftan við Egils sögu er skrifuð Arinbjarnarkviða sem ekki er til annars staðar. Þar hefur þó illa tekist til, því að hún er á blaðsíðu sem orðið hefur svo hart úti að kvæðið allt er nú mjög torlesið, og hluti þess hefur reynst ólæsilegur með öllu.

Upphaflegur hluti Möðruvallabókar er allur með einni hendi að því fráskildu að sumar vísurnar í Egils sögu er með annarri hendi samtíða. Báðir þessir ágætu skrifarar hafa verið víðar að verki, og rithönd aðalskrifarans hefur fundist í einum sex öðrum handritum og handritabrotum, sem flest fjalla um kristileg efni, þannig að e.t.v. er trúlegast að hann hafi starfað við kirkjulega stofnun. Ekki eru heimildir um uppruna þessara handrita, en líkur hafa verið að því leiddar að þau hafi verið skrifuð á Norðurlandi, e.t.v. helst í Eyjafjarðarsýslu.

Um feril Möðruvallabókar fyrstu aldirnar er ekkert vitað með vissu, en á krossmessu vorið 1628 ritaði Magnús lögmaður Björnsson á Munkaþverá (d. 1662) í hana nafn sitt 'í stóru baðstofunni á Möðruvöllum'. Eftir þeirri klausu var bókinni gefið heiti seint á 19. öld, en á hinn bóginn er ekki víst við hvaða Möðruvelli væri átt. Flestir hafa hallast að Möðruvöllum í Eyjafirði, en nýlega hefur verið teflt fram rökum fyrir því að Magnús muni hafa verið að kaupa bókina á Möðruvöllum í Hörgárdal þegar hann skrifaði í hana.

Björn hét sonur Magnúsar lögmanns, og var hann sýslumaður og klausturhaldari á Munkaþverá. Hann sigldi með bókina til Kaupmannahafnar árið 1684, en þá átti hann í málastappi út af embættisrekstri og þurfti að rétta hlut sinn erlendis. Thomas Bartholin hafði þá nýlega verið skipaður konunglegur fornfræðingur, og gaf Björn honum Möðruvallabók. Eftir andlát Bartholins 1690 komst hún í eigu Árna Magnússonar. Möðruvallabók kom heim 1974.