Skip to main content

Pappírshandrit, 76 blöð, skrifað um miðja 17. öld af Jóni Erlendssyni presti í Villingaholti í Flóa eftir skinnbók frá því um 1400 sem síðar komst í eigu P.H. Resens og fór frá honum í Háskólabókasafnið í Kaupmannahöfn og brann þar 1728.

Í Landnámabók eru frásagnir af fundi Íslands og landnámi þess. Sagt er frá fyrstu landnámsmönnunum og uppruna þeirra, greint er frá því hvar á landinu þeir tóku sér bólfestu og frá afkomendum þeirra og fylgir frásögnin landsfjórðungunum réttsælis umhverfis landið. Við sögu koma um 430 landnámsmenn en alls eru nefnd um 3500 menn og konur og um 1500 bæjarnöfn í Landnámu.

Landnámabók er varðveitt í fimm gerðum, þremur frá miðöldum og tveimur frá 17. öld. 1) Sturlubók var sett saman af sagnaritaranum Sturlu Þórðarsyni (d. 1284) og er aðeins varðveitt í pappírshandritinu AM 107 fol. 2) Hauksbók var sett saman af Hauki Erlendssyni (d. 1334) og var Landnámutexti hennar upphaflega á 38 skinnblöðum sem Haukur mun hafa skrifað á árunum 1306-8 en af þeim eru nú aðeins 14 varðveitt en auk þeirra er til eftirrit á pappír sem gert var um miðja 17. öld þegar aðeins vantaði tvö blöð í handrit Hauks. 3) Melabók sem skrifuð var í upphafi 14. aldar. Brot úr texta hennar eru nú aðeins varðveitt á tveimur skinnblöðum, sem eru leifar af stórri sögubók frá öndverðri 15. öld, og ennfremur í texta Þórðarbókar en skinnhandritið, sem þá var heillegra, var notað við samantekt hennar. 4) Skarðsárbók var samantekin um og eftir 1630 af Birni Jónssyni á Skarðsá (d. 1655) eftir skinnhandritum Sturlubókar og Hauksbókar sem nú eru ýmist glötuð eða verr varðveitt en þá. Frumrit Björns að Skarðsárbók komst í eigu Þormóðar Torfasonar (d. 1719) sem gaf það Árna Magnússyni (d. 1730) og brann það í Kaupmannahöfn 1728, en Þormóður hafði látið Ásgeir Jónsson skrifara sinn skrifað það upp og eignaðist Árni Magnússon þá uppskrift einnig og er hún varðveitt. 5) Þórðarbók setti Þórður Jónsson prestur í Hítardal (d. 1670) saman úr Skarðsárbók og Melabók og er eiginhandarrit hans varðveitt.

Elsta gerð Landnámu hefur sennilega orðið til í upphafi 12. aldar og segir Haukur Erlendsson í eftirmála Hauksbókar að Ari Þorgilsson hinn fróði (d. 1145) og Kolskeggur hinn vitri hafi fyrstir skrifað um landnámið. Haukur segir ennfremur að landnámugerð sína hafi hann skrifað eftir Sturlubók og annarri eldri gerð sem Styrmir Kárason (d. 1245) hafi skrifað. Styrmisbók er nú glötuð en Sturlubók og Melabók eru einnig taldar hafa sótt efni til hennar og er álitið að í brotum Melabókar sé að finna elstu varðveittu textagerð Landnámu.

Allt samband hinna ýmsu landnámugerða er afar flókið og enn hefur mörgum spurningum um tilurð bókarinnar og tilgang ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Því hefur verið haldið fram að Sturlubók sé rituð sem upphaf samfelldrar Íslandssögu og hafi Sturla Þórðarson skrifað Kristnisögu í beinu framhaldi hennar. Þá hafi átt að koma sögur sem síðar voru teknar upp í Sturlungasögusafnið, fyrst Þorgilssaga og Hafliða, því næst Sturlusaga og loks Íslendingasaga, en hana samdi, Sturla lögmaður sjálfur. Sturlubók kom heim aftur árið 1973.