Pappírshandrit skrifað um miðja 17. öld af Jóni Erlendssyni, presti í Villingaholti, fyrir Brynjólf Sveinsson Skálholtsbiskup. 10 blöð. Jón skrifaði Íslendingabók tvívegis upp eftir gömlu handriti sem þá var til og fræðimenn ætla að hafi verið frá því um 1200. Þetta forna handrit mun hafa týnst ekki löngu eftir að Jón hafði skrifað það upp og Árni Magnússon fann ekkert af því þegar hann hóf söfnun sína nokkrum áratugum síðar.
Íslendingabók var samin á árunum 1122-32 af prestinum Ara Þorgilssyni sem hlaut viðurnefnið hinn fróði (1068-1148). Í Íslendingabók er skráð í stuttu máli saga íslensku þjóðarinnar frá upphafi til um 1120 og tímatalið skorðað. 'Ísland byggðist fyrst úr Norvegi á dögum Haralds hins hárfagra.' Á þessum orðum hefst Íslendingabók. Á dögum Ara var latína alþjóðamál lærðra manna, en hann kaus að rita á tungu þjóðar sinnar og markaði með því stefnu í upphafi íslenskrar bókmenningar. Um brautryðjandastarf Ara segir Snorri Sturluson í formála Heimskringlu: 'Ari prestur hinn fróði Þorgilsson, Gellissonar, ritaði fyrstur manna hér á landi að norrænu máli fræði, bæði forna og nýja É og þykir mér hans sögn öll merkilegust.'; hefur mörgum þótt svo vera.
Í upphafi bókarinnar er sagt frá Íslands byggð og nokkrum helstu landnámsmönnum, frá fyrstu lagaskipan og setningu alþingis, og frá nýmælum um sumarauka, skiptingu landsins í fjórðunga og fjórðungsþing. Greint er frá öllum lögsögumönnum og embættistíð þeirra frá stofnun Alþingis árið 930 og fram til um 1120. Sagt er frá því er Grænland fannst og byggðist af Íslandi. Í síðara hluta Íslendingabókar segir Ari ítarlega frá því er kristni kom á Ísland og síðan frá fyrstu biskupum í landinu og helstu atburðum á þeirra dögum. Skilmerkileg er frásögn hans af Gissuri Ísleifssyni Skálholtsbiskupi og aðgerðum hans til að koma skipulagi á íslensku kirkjuna, t.d. með setningu tíundarlaga árið 1097 og skiptingu landsins í tvö biskupsdæmi með stofnun Hólabiskupsdæmis árið 1106. Þá greinir Ari einnig frá fyrstu skráningu laga á bók veturinn 1117-18.
Lögsögumannatal sitt og aðra viðburði tengir Ari almennu tímatali frá fæðingu Krists og viðmiðun af þremur atburðum: dauða Játmundar Englandskonungs 870, falli Ólafs Tryggvasonar Noregskonungs árið 1000 og upphafi nýrrar tunglaldar 1120. Með þessu lagði hann grundvöllinn að tímatali elstu sögu Íslands. Ari vitnar til allnokkurra heimildarmanna og leggur áherslu á langminni þeirra og áreiðanleika. Sá elsti var fæddur 995 og ýmsir aðrir mundu atburði frá elleftu öld og höfðu þekkt fólk sem fætt var á 10. öld. Ara hafa verið kunnug einhver latnesk sagnfræðirit miðalda án þess þó að nota þau sem heimildir en haft þau að vissu marki til fyrirmyndar. Handritið kom aftur heim til Íslands 1974.
Íslendingabók var samin á árunum 1122-32 af prestinum Ara Þorgilssyni sem hlaut viðurnefnið hinn fróði (1068-1148). Í Íslendingabók er skráð í stuttu máli saga íslensku þjóðarinnar frá upphafi til um 1120 og tímatalið skorðað. 'Ísland byggðist fyrst úr Norvegi á dögum Haralds hins hárfagra.' Á þessum orðum hefst Íslendingabók. Á dögum Ara var latína alþjóðamál lærðra manna, en hann kaus að rita á tungu þjóðar sinnar og markaði með því stefnu í upphafi íslenskrar bókmenningar. Um brautryðjandastarf Ara segir Snorri Sturluson í formála Heimskringlu: 'Ari prestur hinn fróði Þorgilsson, Gellissonar, ritaði fyrstur manna hér á landi að norrænu máli fræði, bæði forna og nýja É og þykir mér hans sögn öll merkilegust.'; hefur mörgum þótt svo vera.
Í upphafi bókarinnar er sagt frá Íslands byggð og nokkrum helstu landnámsmönnum, frá fyrstu lagaskipan og setningu alþingis, og frá nýmælum um sumarauka, skiptingu landsins í fjórðunga og fjórðungsþing. Greint er frá öllum lögsögumönnum og embættistíð þeirra frá stofnun Alþingis árið 930 og fram til um 1120. Sagt er frá því er Grænland fannst og byggðist af Íslandi. Í síðara hluta Íslendingabókar segir Ari ítarlega frá því er kristni kom á Ísland og síðan frá fyrstu biskupum í landinu og helstu atburðum á þeirra dögum. Skilmerkileg er frásögn hans af Gissuri Ísleifssyni Skálholtsbiskupi og aðgerðum hans til að koma skipulagi á íslensku kirkjuna, t.d. með setningu tíundarlaga árið 1097 og skiptingu landsins í tvö biskupsdæmi með stofnun Hólabiskupsdæmis árið 1106. Þá greinir Ari einnig frá fyrstu skráningu laga á bók veturinn 1117-18.
Lögsögumannatal sitt og aðra viðburði tengir Ari almennu tímatali frá fæðingu Krists og viðmiðun af þremur atburðum: dauða Játmundar Englandskonungs 870, falli Ólafs Tryggvasonar Noregskonungs árið 1000 og upphafi nýrrar tunglaldar 1120. Með þessu lagði hann grundvöllinn að tímatali elstu sögu Íslands. Ari vitnar til allnokkurra heimildarmanna og leggur áherslu á langminni þeirra og áreiðanleika. Sá elsti var fæddur 995 og ýmsir aðrir mundu atburði frá elleftu öld og höfðu þekkt fólk sem fætt var á 10. öld. Ara hafa verið kunnug einhver latnesk sagnfræðirit miðalda án þess þó að nota þau sem heimildir en haft þau að vissu marki til fyrirmyndar. Handritið kom aftur heim til Íslands 1974.