Árna Magnússyni var í mun að eignast annálahandrit yngri sem eldri. Hann átti miðaldaannála á skinni og yngri pappírsuppskriftir, sumar gerði hann sjálfur. Hann safnaði annálasamsteypum sem gerðar voru upp úr miðaldaannálum um miðja sautjándu öld, gerði gagnmerkar athuganir á þeim og reif í sundur þær sem honum þótti leiða eftirkomendurna í villu. Hann safnaði annálum eftir sautjándu aldar höfunda en missti það safn í eldsvoðanum í Kaupmannahöfn haustið 1728.