Skip to main content

Grágás

Handritsbrotið Grágás AM 315 b fol. Ljósmynd Jóhanna Ólafsdóttir. Handritsbrotið AM 315 b fol. er aðeins eitt blað í fjögrablaðabroti með texta úr Grágás. Það er talið skrifað um miðja 13. öld. Á blaðinu má sjá upphafsstafi í lit og leifar af fyrirsögnum með rauðu bleki.

Grágás er lagaskrá og lögskýringarit Íslendinga frá upphafi lagaritunar og langt fram á 13. öld. Lengi vel voru lögin í munnlegri geymd en á Alþingi sumarið 1117 var ákveðið að skrifa lögin og var það gert veturinn eftir að Breiðabólstað í Vesturhópi; ekki er þó víst að allar lagagreinar hafi verið skráðar þá. Sumarið eftir voru lögin svo lesin upp á Alþingi í stað þess að vera sögð.

Til eru tvö meginhandrit af Grágás, Konungsbók (GKS 1157 fol.) og Staðarhólsbók (AM 334 fol.), en nokkur brot úr handritum hafa einnig varðveist frá 12. og 13. öld og er AM 315 b fol. eitt þeirra. Á því eru 7 greinar úr Grágás sem virðast hafa vera viðbætur við lagatextann í handritinu sem blaðið tilheyrði. Tvær greinar eru úr Arfaþætti (Erfðaþætti), tvær úr Ómagabálki og tvær úr bálkinum Um fjárleigur og ein úr Kristinna laga þætti.

Árni Magnússon fékk blaðið AM 315 b fol. árið 1703, frá Jóni Einarssyni, heimilismanni í Garði á Suðurnesjum. Hann vissi ekkert hvaðan það var komið, eða eins og Árni skrifaði á seðil sem fylgir blaðinu: „Þetta blað fékk ég 1703 af Jóni nokkrum Einarssyni, heimilismanni í Garði á Suðurnesjum. Þar með fylgdi annað blað úr Jónsbók (var úr landsbrigðabælki). Sömuleiðis í 4to og í sama slags formi sem þetta, og med líkri skrift, þó eigi hinni sömu, sem mér virðist. Höfðu þessi 2 blöð verið utan um kver, og vissi maðurinn ekkert til hvaðan þau til sín komin væri. Maðurinn var annars kynjaður norðan úr landi. Jónsbókarblaðið lagði ég saman við fragmentum er ég á úr sömu bók.“ Jónsbókarblaðið sem Jón Einarsson hafði undir höndum er nú 14. blað í AM 134 4to frá 1281–94. Það handrit er elsta Jónsbókarhandritið sem varðveist hefur (sjá Elsta Jónsbókin AM 134 4to (http://www.arnastofnun.is/page/jonsbok)). Aðeins einn Jón Einarsson var í Garði árið 1703 samkvæmt manntali. Sá var  26 ára vinnumaður á Lambastöðum, en ekkert er vitað meira um hann.

Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi tók við handritinu 8. nóvember 1974.

AM 315 b fol. er til sýnis á fastasýningu Þjóðminjasafns Íslands við Suðurgötu, Þjóð verður til — menning og saga í 1200 ár.

Birt þann 19.06.2018