Skip to main content

Nafnfræðipistlar

Ríp

Birtist upphaflega í ágúst 2009.

Ríp kvk.er bær og kirkjustaður í Hegranesi í Skag. sem fyrir kemur í Íslendinga sögu í Sturlungu (I:514). Það er og til sem örnefni í Fljótum í Skag. Merkingin er ‚klettur, klettasnös‘. Orðið kemur fyrir í kvæðinu Rekstefju eftir Hallar-Stein (12. öld): „raðvandr hilmir rendi/ríp i bratta gnípu“ (28) (SkjA I:550) og merkir líklega ‚mjór fjallshryggur‘. Í nýnorsku merkir rip ‚borðstokkur‘.

Nónnes

Birtist upphaflega í mars 2018.

Nesið norðan við utanverðan Hofsstaðavog á Snæfellsnesi heitir Jónsnes og yst á því er bær með sama nafni sem nú er farinn í eyði. Suðvestur af bænum liggur allstór hólmi sem kallast Nónnes, en „eins og nafnið bendir á, hefir hólmi þessi verið áfastur meginlandinu, þá er nafnið var gefið, en síðan hefir land brotið svo, að sund hefir myndazt. Nónnesið er nú tengt við Jónsnesið með sandrifi, og þar sem skemmst er til lands eru 60 faðmar.“ Svo lýsir Þorleifur Jóhannesson staðháttum (tilvitnun frá Ólafi Lárussyni 1935:206).