Skip to main content

Pistlar

Nónnes

Birtist upphaflega í mars 2018.

Nesið norðan við utanverðan Hofsstaðavog á Snæfellsnesi heitir Jónsnes og yst á því er bær með sama nafni sem nú er farinn í eyði. Suðvestur af bænum liggur allstór hólmi sem kallast Nónnes, en „eins og nafnið bendir á, hefir hólmi þessi verið áfastur meginlandinu, þá er nafnið var gefið, en síðan hefir land brotið svo, að sund hefir myndazt. Nónnesið er nú tengt við Jónsnesið með sandrifi, og þar sem skemmst er til lands eru 60 faðmar.“ Svo lýsir Þorleifur Jóhannesson staðháttum (tilvitnun frá Ólafi Lárussyni 1935:206).

Mynd af korti: Atlas - Landmælingar Íslands

Smelltu hér til að sjá stækkaða mynd.

Hofsstaðavogur á Snæfellsnesi. . Mynd af korti: Atlas - Landmælingar Íslands

Jónsnes er hluti stærra ness á milli Hofsstaðavogs og Vigrafjarðar sem nefnist Þórsnes. Nyrst á Þórsnesi er Stykkishólmur og á nesinu er einnig hið fræga Helgafell. Þórsnes er þungamiðja atburða Eyrbyggja sögu. Þar segir í upphafi frá för landnámsmannsins Þórólfs Mostrarskeggs til Íslands. Honum var ekki lengur vært í Noregi vegna ofríkis Haralds hárfagra, en anaði þó ekki út á haf í einhverju óðagoti heldur leitaði ráða hjá vini sínum Þór sem vísaði honum til Íslands. Þegar hann var kominn að landi og vestur um Reykjanes kastaði hann fyrir borð öndvegissúlunum og „var Þór skorinn á annarri“. Þær rak vestur fyrir Snæfellsnes og Þórólfur fylgdi þeim inn á Breiðafjörð. Í 4. kafla Eyrbyggju segir svo frá:

Hann tók land fyrir sunnan fjörðinn, nær miðjum, og lagði skipið á vog þann er þeir kölluðu Hofsvog síðan. Eftir það könnuðu þeir landið og fundu á nesi framanverðu, er var fyrir norðan voginn, að Þór var á land kominn með súlurnar; þat var síðan kallað Þórsnes.

Samkvæmt sögunni lét Þórólfur halda héraðsþing (Þórsnessþing) einmitt á þeim stað þar sem Þór hafði komið á land, „á tanganum nessins“, og „þar var og svo mikill helgistaður að hann vildi með engu móti láta saurga völlinn, hvorki í heiftarblóði og eigi skyldi þar álfrek ganga [gera þarfir sínar] og var haft til þess sker eitt er Dritsker var kallað.“ Svo fór þó að öfundarmenn Þórsnesinga tóku það ráð að ögra Þorsteini þorskabít, sem tók við goðorðinu eftir lát Þórólfs föður síns, með því að gera sig líklega til að ganga örna sinna á þingstaðnum. Af því hlaust orrusta með mannfalli svo að staðurinn dæmdist vanhelgur af heiftarblóði og var þingið þá flutt á annan stað á Þórsnesi, þangað sem heita Þingvellir enn í dag.

Tilvitnunina að ofan má skilja þannig að staðurinn, þar sem öndvegissúlur Þórólfs komu á land og þar sem Þórsnessþing var fyrst haldið, hafi kallast Þórsnes. Síðar í 4. kafla segir þó að Þórólfur hafi „kallað Þórsnes milli Vigrafjarðar og Hofsvogs“, sem auðvitað er mun stærra svæði en þingstaðurinn. Ólafur Lárusson ritaði á sínum tíma áhugaverða grein, „Þing Þórólfs Mostrarskeggs“ (1935), þar sem hann túlkaði texta Eyrbyggju þannig að í öndverðu hefði Þórsnes bæði verið nafn yfir hið stóra nes, sem enn nefnist Þórsnes, og heiti á afmarkaðra svæði, þ.e. nesinu þar sem þingstaðurinn var. Í fyrra tilvikinu hafi verið um byggðarnafn að ræða, en í því síðara staðarnafn (bls. 191–192). Svipaður skilningur kemur fram í umfjöllun Sigurðar Vigfússonar fornleifafræðings um þingstaðinn (1882:93).

Í Hofsstaðavogi, fremur innarlega, er að finna sker, sem heitir einmitt Dritsker, og liggur skammt undan nesi nokkru, sem nefnist Haugsnes, og gengt er frá út í skerið á fjörum. Ólafur nefnir að almennt hafi verið talið að forni þingstaðurinn hafi verið á Haugsnesi og til dæmis var áðurnefndur Sigurður Vigfússon sannfærður um það (sjá 1882:93 o.áfr.). P.E. Kristian Kålund var ekki sammála því og taldi sennilegast að þingstaðurinn hefði verið utar í voginum, í Jónsnesi (1877:437 nmgr.). Ólafur Lárusson tók undir þetta og áleit erfitt að koma því heim við það, sem fram kæmi í Eyrbyggju, að þingið hefði verið háð á Haugsnesi. Meðal þess sem hann benti á er að Þórsnes (þ.e. hið minna Þórsnes sem var þingstaðurinn forni) er sagt vera framarlega í Hofs(staða)vogi sem ekki passar vel við Haugsnes; einnig að Haugsnes kemur fyrir í Eyrbyggju og lýsing hennar á staðsetningu þess kemur vel heim við núverandi Haugsnes, en af sögunni virðist enn fremur ljóst að það er ekki nesið þar sem vorþingið var haldið (1935:195–197).

Ólafi Lárussyni þótti sem sagt einboðið að þingstaðurinn, sem átt er við í sögunni, hefði verið annars staðar en á núverandi Haugsnesi og margt virðist mæla með því. Hann taldi, líkt og Kålund, að þingstaðurinn hefði verið á Jónsnesi og færði fyrir því ýmis rök að Þórsnes væri eldra heiti yfir Jónsnes (1935:197–205). Fyrir atbeina Ólafs fór Þorleifur Jóhannesson, sem mjög var kunnugur á svæðinu (eftir hann liggja margar örnefnalýsingar frá Snæfellsnesi sem varðveittar eru í Örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar), og svipaðist um á Jónsnesi eftir líklegum þingstað. Þorleifur taldi vel koma til greina að á Nónnesi hefði verið þingstaður og birtir Ólafur í grein sinni ítarlega lýsingu Þorleifs á staðháttum í hólmanum (1935:206–207).

Nafnið á hólmanum kemur til af því að frá bænum Jónsnesi var nón (kl. 15) „þegar sól bar yfir þúfu á Nónnesi“ (líkt og segir í örnefnalýsingu um Jónsnes skráðri eftir Maríu Guðmundsdóttur (f. 1901), sem bjó á Jónsnesi frá 1908 til 1934). Eyktarnafnið nón á rætur að rekja til latnesku, nōna, og hefur komið inn í íslensku í gegnum fornensku, nōn (Ásgeir Blöndal Magnússon 1989:672), og er ólíklegt að nesið hafi heitið Nónnes frá upphafi byggðar. Þorleifur gat sér þess til að ef til vill hefði þetta nes áður heitið Þórsnes og verið staðurinn þar sem súlurnar rak að landi (tilvitnun hjá Ólafi Lárussyni 1935:207). Þá benti hann einnig á að við Nónnes væri (sama stað):

klettasker, hér um bil 12 til 14 faðma frá bakkanum. Það er nú gróðurlausir klettar, en fer ekki í kaf, en á rifið milli þess og Nónnessins fellur sjór ekki nema um flæðar og það jafnvel ekki um smástraumsflæðar.

Þetta gæti verið skerið sem í Eyrbyggju nefnist Dritsker. Líkt og Ólafur Lárusson benti á í títtnefndri grein er elsta heimild um nafnið Dritsker fyrir skerið suður af Haugsnesi frá 18. öld (Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar) og því er mögulegt að skerið við Nónnes sé hið upphaflega Dritsker, en nafn þess hafi gleymst. Síðar hafi menn svo getið sér til um að Dritsker í Eyrbyggju væri skerið við Haugsnes (1935:205). Um örnefnið Dritsker er ýmislegt að segja, en það bíður annars pistils.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk Orðsifjabók. Orðabók Háskóla Íslands, Reykjavík.

Kålund, P.E. Kristian. 1877. Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af IslandSyd- og Vest- Fjærdingerne. Gyldendalske Boghandel, Kaupmannahöfn.

Ólafur Lárusson. 1935. Þing Þórólfs Mostrarskeggs. Skírnir 109:182–211.

Sigurður Vigfússon. 1882. Rannsókn í Breiðafjarðardölum og í Þórsnesþingi og um hina nyrðri strönd 1881. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 2:60–105.