Skip to main content

Pistlar

Birtist í apríl 2006.

Bærinn Pula í Holtum stóð áður þar sem nú er nefnt Gamla-Pula nærri Pulutjörn. Hún var einnig nefnd Stóra-Pula. Núverandi bær var nefndur Litla-Pula. Þetta er eini bærinn með þessu nafni á landinu. Puluhólar heita þar sem Kambsheiði er hæst á þessum slóðum. „Vestan undir hæsta hólnum er djúp lægð og seftjörn í.“ (Brynjúlfur Jónsson frá Minnanúpi, 25).

Pula er fyrst nefnd í Oddamáldaga frá 1332 (handrit 1598) sem eignar Oddakirkju „Pula heidi“ (Ísl. fornbréfasafn II:691). Þarna virðist nefnifall vera Puli kk. eða Pula hvk., en sú mynd virðist ekki koma fyrir annars. Árni Magnússon og Páll Vídalín segja í Jarðabók 1708 að í Köldukinnar landi sé „flatlendis hæð svo víð sem stórt túnstæði, kölluð að forngildu Stóra-Pula“ og að í útnorður þar frá liggi eyðipláss kallað Litla-Pula og metin á 10 hundruð (I:319). Í sóknarlýsingu frá 1840 nefnir sóknarpresturinn Sigurður Sigurðsson jörðina Pulu „á aflendum hól í vestur-landsuður frá Mykjunesi“ (186) en einnig að Forna-Pula hafi verið flutt þangað (191). Í Jarðabókinni er nefnt að bærinn hafi verið fluttur vegna reimleika og er þess líka getið í sóknarlýsingunni. Munnmæli eru um að Pula hafi verið kirkjustaður og hafi allt heimilisfólkið látist í drepsótt, en reimleikar hafist eftir það svo að byggð hafi lagst þar af en kirkjan flutt að Marteinstungu. Hvernig sem þessu er varið má nefna að Marteinstunga var nefnd Sóttartunga í heimildum 1397 og oft síðar (Haraldur Matthíasson, bls. 20). Árið 1898 skrifaði Brynjúlfur Jónsson frá Minnanúpi eftir að hafa kannað Gömlu-Pulu: „Og bæjarnafnið Pula (= þraut) bendir líka til þess, að þar hafi eitthvað bágt komið fyrir. En þá liggur líka nærri að hugsa, að Pulu-nafnið hafi myndast eftir að bærinn var kominn í eyði, en að hann hafi heitið eitthvað annað áður. Því miður mun ekki unt að vita neitt um þetta með vissu.“ (26). Finnur Jónsson prófessor taldi merkingu bæjarnafnsins vera ‘erfiði, mæða’ (Bæjanöfn á Íslandi, bls. 575).

Í orðabók Björns Halldórssonar er orðið pula þýtt annars vegar sem „molestia, Besværlighed“, þ.e. ‘erfiði’, en einnig sem „palus limosa, impervia, en uvejbar Sump“ (378), þ.e. ‘ófær mýri’. Pula getur líka merkt ‘erfið leið, ófærð’ auk þess sem það getur þýtt ‘kveisa, niðurgangur’, ‘lítill grasblettur í haga’ og ‘bót á flík’ (Talmálssafn Orðabókar Háskólans). Ásgeir Blöndal Magnússon er ekki viss um uppruna orðsins, telur það tæpast skylt ensku pool (728). En sú skýring hefur verið lífseigust að bæjarnafnið merki ‘tjörn’ (Sunnlenskar byggðir V:263).

Í austurnorskum mállýskum er orðið pollr í norrænu orðið að pull og merkir ‘vasspytt, evje, høl’ í Norður-Þrændalögum (Norsk stadnamnleksikon, bls. 247). Í dönsku er orðið pøl ‘flói, foræði’ talið af sömu rót og pollur og enska pool, einnig sænska pöl. Þannig ætti þýska orðið Pfuhl ‘pyttur, díki’ líka að vera skylt þeim. Skv. því ætti orðið að vera af germ. *pōla í hljóðskiptum við t.d. hollensku peel ‘flói, foræði’, af *pali- (Dansk etymologisk ordbog, bls. 301), sbr. palus á latínu ‘mýri, (fúa)kelda, fúaflói, foræði, fen’ (Jón Árnason, Nucleus, bls. 214).

Pula er einnig nafn á plöntu, lásagrasi eða ferlaufungi (paris quadrifolia) en uppruni er ekki ljós, e.t.v. stytting úr pulugrasi. Pula „opnar hvern lás og flýtir fæðingu“ segir Jónas Jónasson frá Hrafnagili í Þjóðháttum sínum (409). Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er fjallað um lásagras, sem „vex hjá uppsprettulækjum“, lítil vexti en gefur þó af sér sterka lykt (IV:20). Ekkert tengir jurtina þar beint við lækningar eða að hún hafi verið verkjastillandi. Ásgeir Blöndal telur að orðið geti verið tökuorð úr dönsku polej, sem hafi verið myntutegund, úr latínu Mentha pulegium (puleium) sem er lyktarsterk lækningajurt. Hún er nefnd á ensku pennyroyal eða fleabane vegna þess að flær forðast hana (Lewis and Short, bls.1489). Í Talmálssafni orðabókar Háskólans er haft eftir Sigurði Thoroddsen verkfræðingi að orðið pula sé haft um lús (úr latínu pulex?) en ekki eru aðrar heimildir um það. Pulex er hins vegar þýtt með fló í orðabók Jóns Árnasonar (261). Steindór Steindórsson nefnir pulu sem plöntuheiti og hefur upplýsingar um það úr handriti, líklega ÍB 641 8vo (ekki Lbs. 641 8vo) í Landsbókasafni. Það er Brot úr grasafræði (ásamt lækninganytjum), skv. Páli E. Ólasyni í handritaskrá (III:143), skr. 1780, og þar stendur: „það hefir fjögur lauf sem húfu, laskagrænt á lit“ og er talin sama jurt og Pulegium (Íslensk plöntunöfn, bls. 177). Ólíklegt er að bæjarnafnið sé dregið af jurtinni pulu, þó að hún vaxi vissulega á einhverju svæði í Rangárþingi, skv. útbreiðslukorti (Hörður Kristinsson, bls. 174), en hún vex á annars konar landi en er í Holtunum (Stefán Stefánsson, bls. 111–112).

Líklegast verður að telja að tjörnin við Pulu hafi heitið Puli eða Pula upphaflega og fengið síðari liðinn, -tjörn, til nánari skýringar (epexegese) og merkingin hafi verið í ætt við poll. Bærinn hefur fengið nafn af tjörninni.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Árni Magnússon og Páll Vídalín, Jarðabók. I. (1913–1917).
Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók (1989).
Björn Halldórsson, Orðabók. Íslensk – latnesk – dönsk. (1814. Ný útgáfa 1992).
Brynjúlfur Jónsson frá Minnanúpi, Skrá yfir eyðibýli í Landsveit, Rangárvallasveit og Holtasveit í Rangárvallasýslu. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1898, bls. 1–28.
Finnur Jónsson, Bæjanöfn á Íslandi. Safn til sögu Íslands IV. (1907–1915).
Haraldur Matthíasson, Rangárvallasýsla vestan Markarfljóts. Árbók Ferðafélags Íslands 1966.
Hörður Kristinsson, Plöntuhandbókin. (1986).
Íslenzkt fornbréfasafn II (1893).
Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur. Ný útgáfa. (1954–1961).
Jón Árnason, Nucleus Latinitatis. (1738. Ný útgáfa 1994).
Jónas Jónasson frá Hrafnagili, Íslenzkir þjóðhættir. (1934).
Jørn Sandnes og Ola Stemshaug, Norsk stadnamnleksikon. 2. utg. (1980).
Charlton T. Lewis and Charles Short, A Latin Dictionary. (1969).
Niels Åge Nielsen, Dansk etymologisk ordbog. 3. reviderede udg. (1976).
Páll Eggert Ólason, Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins. III. (1935–1937).
Sigurður Sigurðsson, Efri-Holtaþing. Rangárvallasýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenzka bókmenntafélags, bls. 173–195. (1968).
Sigurður J. Sigurðsson, Holtahreppur. Sunnlenskar byggðir V (1987).
Stefán Stefánsson, Flóra Íslands, 3. útg. aukin (1948).
Steindór Steindórsson, Íslensk plöntunöfn. (1978).