Skip to main content

Pistlar

Rosmhvalanes

Birtist upphaflega í febrúar 2018.

Eins og komið hefur fram í fréttum stendur til að sveitarfélögin Sandgerði og Garður á Suðurnesjum muni sameinast í eitt sveitarfélag. Nýlega voru íbúar beggja núverandi sveitarfélaga beðnir að senda inn tillögur að nýju nafni og alls bárust 392 tillögur. (sjá https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/02/15/300_tillogur_um_nafn_barust/).

Tíu þeirra urðu fyrir valinu hjá nafnanefnd sem sendi þær til Örnefnanefndar. Hún vinnur að því að skoða þessar tillögur og mun veita umsögn. Að því loknu munu íbúar kjósa um nýtt nafn (sjá http://www.ruv.is/frett/ibuar-kjosa-um-nafn-a-nytt-sveitarfelag).

Í tilefni þessa er örnefni mánaðarins Rosmhvalanes (stundum stafsett „Rosthvalanes", t.d. af Árna Magnússyni í ritinu Chorographica Islandica) en það er gamla nafnið á nesinu sem gengur norður úr Reykjanesskaga. Áður fyrr var hreppur með þessu nafni (Rosmhvalaneshreppur) en svæðið sem hann náði yfir hefur breyst nokkuð í tímans rás.

Nafnið kemur fyrir í Landnámabók: bæði Sturlubókar- og Hauksbókargerð geta þess að Ketill gufa Ørlygsson „tók Rosmhvalanes" og var síðan í einn vetur á Gufuskálum (ÍF I, bls. 166, 167). Á hinn bóginn má lesa í Melabókargerðinni að „Gufi hét annarr son Ketils. Hann vildi byggja í Nesi, en Ingólfr rak hann á brutt þaðan; þá fór hann á Rosmhvalanes og vildi byggja at Gufu<skálum>” (ÍF I, bls. 66 nmgr. 5). Nafnið kemur einnig fyrir í öðrum sögum svo sem Egils söguGrettis söguÍslendinga söguArons sögu Hjörleifssonar og Þorláks sögu byskups (C-gerð).

Nafnið er dregið af rostungum en orðið rosmhvalur er heiti sem notað var yfir rostunga. Í Íslensku orðsifjabókinni er sú skýring gefin að nafngiftin vísi til hins rauðleita yfirbragðs dýrsins (http://xn--mli-ela1f.is/leit/rosmhvalur). Á fyrri öldum virðast rostungar hafa verið þekktir á Íslandi, rosmhvala er getið í Grágás í tengslum við afla en einnig matvæli og í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar er eftirfarandi frásögn frá Dýrafirði: „rosmhualur kom vpp a land ok foru menn til at særa hann. enn hvalurinn hliop ꜳ sio ok saukk þviat hann var særdur ä hol“ (Loth 1960: 184).

Fleiri örnefni, svo sem Hvallátur, eru kennd við rosmhvali (sjá https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4861 og tilvísanir þar) en Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur hefur einnig stungið upp á þeim möguleika að „[ö]rnefnin gætu allt eins verið til komin vegna þess að þar voru yfirgefin og ósnert látur rostunga og að í lok járnaldar hafi menn getað gengið á staðina og tínt upp tennur og bein“ (2011: 38). Örnefni af þessu tagi svo og fundur rostungsleifa eru einkum bundin við vesturströndina og í greininni eftir Bjarna má m.a. finna kort sem sýnir tíðni rostungs- og hvaltanna og rostungsbeina í Sarpi (gagnagrunnur Þjóðminjasafns Íslands) og yfirlit yfir rostungsörnefni og fundi rostungsleifa.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Árni Magnússon, Chorographica Islandica, Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta, annar flokkur, 1.2 (Reykjavík: Hið Íslenzka bókmenntafélag, 1955).

Bjarni F. Einarsson, ‚Róum við í selin, rostungs út á melinn‘, í Fjöruskeljar. Afmælisrit til heiðurs Jónínu Hafsteinsdóttur sjötugri, 29. mars 2011. ritstj. Guðrún Kvaran, Hallgrímur J. Ámundason og Svavar Sigmundsson (Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2011), bls. 31– 52.

‚Hrafns saga Sveinbjarnarsonar‘, í Membrana regia deperdita, ritstj. Agneta Loth, Editiones Arnamagnæanæ A 5 (København: Munksgaard, 1960).

Íslendingabók. Landnámabók, ritstj. Jakob Benediktsson, Íslenzk fornrit I (Reykjavík: Hið Íslenzka Fornritafélag, 1968).

 

Mynd: Teikning af rostungi í handriti JS 401 XI b 4to (28r, “Um Íslands aðskiljanlegar náttúrur“) eftir Jón Guðmundsson lærða.