Skip to main content

Pistlar

Birtist upphaflega í ágúst 2009.

Ríp kvk.er bær og kirkjustaður í Hegranesi í Skag. sem fyrir kemur í Íslendinga sögu í Sturlungu (I:514). Það er og til sem örnefni í Fljótum í Skag. Merkingin er ‚klettur, klettasnös‘. Orðið kemur fyrir í kvæðinu Rekstefju eftir Hallar-Stein (12. öld): „raðvandr hilmir rendi/ríp i bratta gnípu“ (28) (SkjA I:550) og merkir líklega ‚mjór fjallshryggur‘. Í nýnorsku merkir rip ‚borðstokkur‘.

Rípur kk. er klettahæð sunnan undir Stiftamtinu í Mosfellssveit, Kjós. og er merking einnig til sem ‚langt melholt‘, ‚klettabrún‘, ‚smáhæð‘. En til er einnig merk. ‚grasrönd, rimi, fitjar, teygingar‘.

Með viðskeytinu -ill er síðan myndað orðið ripill ‚smádrangi‘ og örnefnið Rípill sem er m.a. fjall norðan Dalvíkur í Eyf. og hryggur í fjalli í norðanverðum Héðinsfirði, Eyf. (Árbók 2000:238–9). Merkingin er ‚melrimi, urðarhryggur eða garður af jökulruðningi‘. Það er til í samsetningum, m.a. Hólsrípill og Sauðakotsrípill á Ufsaströnd, Eyf. Nú hafa nýir snjóflóðavarnargarðar í Siglufirði að tillögu Örnefnafélagsins Snóks fengið nöfnin Hlíðarrípill, Hafnarrípill, Skriðurípill, Skálarrípill og Bakkarípill. (Sbr. sksiglo.is 24.7.2009).

Ríplar á Siglufirði. Mynd: www.siglufjordur.is.

Í íslensk-latneskri orðabók Guðmundar Andréssonar 1683 er Ripell skýrt með latínu scalprum (134), sem aftur er þýtt í Kleyfsa, latnesk-íslenskri orðabók, sem ‚lítið höggjárn‘ eða ‚grafall‘ (294).

Flt. af ripill er ríplar eða riplar, sbr. örnefnið Riplar norðarlega á Látraströnd, S-Þing. (Árbók 2000:140). Í nýnorsku er þekkt orðið ripel í merk. ‚kjepp, stake‘. Í vísustúf eftir Þórhildi skáldkonu í Njálu kemur fyrir orðið gapriplar (Ísl. fornrit XII:89) sem þýtt hefur verið ‚gapstaurar‘ eða ‚personar som glor‘ (Heggstad, 139). Ekki er ljóst hvaða merking liggur í málshættinum „Það rífst sem mús á riplum“ sem finna má í Málsháttasafni Magnúsar prúða Jónssonar frá 16. öld (JS 391, 8vo) (Ritmálssafn Orðabókar Háskólans) en hugsanlega á ripill við e-ð oddhvasst eða beitt (verkfæri). Rípa er auk þess tröllkonunafn í þulum Ólafs Davíðssonar og er þá merkingin þar líklega ‚stórvaxin kona, lík kletti‘.

Rípa kvk. er mýrlend grasreim á Hnappavöllum í Öræfum í A-Skaft. Í færeysku merkir rípa ‚rönd‘ og í sænskum mállýskum merkir ripa ‚liten strimma‘ eða ‚skåra‘. Tilgáta um að nafnið sé dregið af ripa á ítölsku ‚árbakki’ (Pétur Björnsson ræðismaður, í símtali 25. júlí 2005) er því of langsótt.

Þess má geta að hliðstætt örnefni er í Danmörku þar sem eru Rípar (nú Ribe), fornfrægt biskupssetur. Þar sem nafn staðarins kom oft fyrir í latneskum heimildum var nafnið tengt latínu ripa ‚árbakki‘ en það er mála sannast að það er af norrænum uppruna eins og íslensku örnefnin í merk. ‚stribe, strimmel‘ en ekki er ljóst hvað í landslaginu liggur þar að baki (Bent Jørgensen, Stednavneordbog, 231).

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Árbók Ferðafélags Íslands. Reykjavík 1973.

Árbók Ferðafélags Íslands. Reykjavík 2000.

Ásgeir Bl. Magnússon, Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.

Guðmundur Andrésson, Lexicon Islandicum. Ný útgáfa. Reykjavík 1999.

Leiv Heggstad, Finn Hødnebø, Erik Simensen, Norrøn ordbok. 3. utg. av Gamalnorsk ordbok. Oslo 1975.

Bent Jørgensen, Stednavneordbog. 2. udg. Kbh. 1994.

Kleyfsi = Nucleus latinitatis. Ný útgáfa. Reykjavík 1994.

Njála = Brennu-Njáls saga. Einar Ól. Sveinsson gaf út. Ísl. fornrit XII. Reykjavík 1954.

Skjaldedigtningen = Den norsk-islanske skjaldedigtning ved Finnur Jónsson. A. Kbh. 1967.

Sturlunga saga. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn sáu um útgáfuna. Reykjavík 1946.