Birtist upphaflega í ágúst 2009.
Ríp kvk.er bær og kirkjustaður í Hegranesi í Skag. sem fyrir kemur í Íslendinga sögu í Sturlungu (I:514). Það er og til sem örnefni í Fljótum í Skag. Merkingin er ‚klettur, klettasnös‘. Orðið kemur fyrir í kvæðinu Rekstefju eftir Hallar-Stein (12. öld): „raðvandr hilmir rendi/ríp i bratta gnípu“ (28) (SkjA I:550) og merkir líklega ‚mjór fjallshryggur‘. Í nýnorsku merkir rip ‚borðstokkur‘.
Rípur kk. er klettahæð sunnan undir Stiftamtinu í Mosfellssveit, Kjós. og er merking einnig til sem ‚langt melholt‘, ‚klettabrún‘, ‚smáhæð‘. En til er einnig merk. ‚grasrönd, rimi, fitjar, teygingar‘.
Með viðskeytinu -ill er síðan myndað orðið ripill ‚smádrangi‘ og örnefnið Rípill sem er m.a. fjall norðan Dalvíkur í Eyf. og hryggur í fjalli í norðanverðum Héðinsfirði, Eyf. (Árbók 2000:238–9). Merkingin er ‚melrimi, urðarhryggur eða garður af jökulruðningi‘. Það er til í samsetningum, m.a. Hólsrípill og Sauðakotsrípill á Ufsaströnd, Eyf. Nú hafa nýir snjóflóðavarnargarðar í Siglufirði að tillögu Örnefnafélagsins Snóks fengið nöfnin Hlíðarrípill, Hafnarrípill, Skriðurípill, Skálarrípill og Bakkarípill. (Sbr. sksiglo.is 24.7.2009).
Ríplar á Siglufirði. Mynd: www.siglufjordur.is.
Í íslensk-latneskri orðabók Guðmundar Andréssonar 1683 er Ripell skýrt með latínu scalprum (134), sem aftur er þýtt í Kleyfsa, latnesk-íslenskri orðabók, sem ‚lítið höggjárn‘ eða ‚grafall‘ (294).
Flt. af ripill er ríplar eða riplar, sbr. örnefnið Riplar norðarlega á Látraströnd, S-Þing. (Árbók 2000:140). Í nýnorsku er þekkt orðið ripel í merk. ‚kjepp, stake‘. Í vísustúf eftir Þórhildi skáldkonu í Njálu kemur fyrir orðið gapriplar (Ísl. fornrit XII:89) sem þýtt hefur verið ‚gapstaurar‘ eða ‚personar som glor‘ (Heggstad, 139). Ekki er ljóst hvaða merking liggur í málshættinum „Það rífst sem mús á riplum“ sem finna má í Málsháttasafni Magnúsar prúða Jónssonar frá 16. öld (JS 391, 8vo) (Ritmálssafn Orðabókar Háskólans) en hugsanlega á ripill við e-ð oddhvasst eða beitt (verkfæri). Rípa er auk þess tröllkonunafn í þulum Ólafs Davíðssonar og er þá merkingin þar líklega ‚stórvaxin kona, lík kletti‘.
Rípa kvk. er mýrlend grasreim á Hnappavöllum í Öræfum í A-Skaft. Í færeysku merkir rípa ‚rönd‘ og í sænskum mállýskum merkir ripa ‚liten strimma‘ eða ‚skåra‘. Tilgáta um að nafnið sé dregið af ripa á ítölsku ‚árbakki’ (Pétur Björnsson ræðismaður, í símtali 25. júlí 2005) er því of langsótt.
Þess má geta að hliðstætt örnefni er í Danmörku þar sem eru Rípar (nú Ribe), fornfrægt biskupssetur. Þar sem nafn staðarins kom oft fyrir í latneskum heimildum var nafnið tengt latínu ripa ‚árbakki‘ en það er mála sannast að það er af norrænum uppruna eins og íslensku örnefnin í merk. ‚stribe, strimmel‘ en ekki er ljóst hvað í landslaginu liggur þar að baki (Bent Jørgensen, Stednavneordbog, 231).
Síðast breytt 24. október 2023