Skip to main content

Konungsbók eddukvæða á landsskrá Íslands um Minni heimsins

Konungsbók eddukvæða GKS 2365 4to er ein af nýskráningunum á landsskrá Íslands um Minni heimsins. Þar með aukast möguleikar þessa merkilega handrits á að verða skráð á heimsskrá UNESCO um Minni heimsins (Memory of the World Register).

Handrit Konungsbókar eddukvæða frá síðari hluta 13. aldar. Fyrir á landsskrá Íslands eru handritasafn Árna Magnússonar bæði í Danmörku og á Íslandi, sem rataði á heimslista UNESCO um Minni heimsins árið 2009. Manntalið frá 1703, sem Árni Magnússon og Páll Vídalín gerðu að fyrirskipun Danakonungs, var samþykkt á heimslista UNESCO um Minni heimsins árið 2013. Handritið sem um ræðir er elsta og merkasta safn eddukvæða sem varðveist hefur. Það var sent Danakonungi að gjöf á 17. öld og hlaut þess vegna nafnið Codex Regius, þ.e. Konungsbók. Þar eru felld saman í heild kvæði af norrænum goðum og hetjum þjóðflutningaaldar og víkingaaldar. Mest af þessum kvæðaarfi er hvergi til nema í þessu handriti og yngri eftirritum þess. Eddukvæði teljast til frumheimilda um trúarbragðasögu norrænna þjóða. Þessi arfur hefur varðveist sem leifar eða endurskapaður í nýjum búningi á þýsku og engilsaxnesku menningarsvæði en hvergi eins fjölbreyttur og með eins fornlegu sniði og á Íslandi.

Nýskráningarnar voru tilkynntar við hátíðlega athöfn í Þjóðskjalasafni Íslands þriðjudaginn 8. mars 2016, en þá voru auk Konungsbókar eddukvæða nýskráð þrjú önnur menningarfyrirbæri: Íslensk túnakort  frá 1916-1929 og Kvikfjártal frá 1703. Hvort tveggja er varveitt í Þjóðskjalasafni Íslands. Auk þessa var skráð eiginhandarrit Hallgríms Péturssonar að Passíusálmunum sem varðveitt er í Landsbókasafni. Nánari lýsingu á öllum nýskráningum má finna hér.